23.02.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í D-deild Alþingistíðinda. (3914)

130. mál, flugstöð á Vestmannaeyjaflugvelli

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég var nú því miður ekki viðstaddur, þegar hv. 6. þm. Sunnl. hóf mál sitt, en geri ráð fyrir, að það hafi verið um efni fyrri hl. till. um flugsamgöngur við Eyjar, þannig að ég veit ekki, hvort þar hefur nokkuð komið fram, sem ég teldi eðlilegt að gefa frekari skýringu á eða ræða nánar og verð því að sleppa því. Hins vegar hlustaði ég á síðari hluta ræðu hans varðandi ferðir Herjólfs og samgöngur Vestmanneyinga sjóleiðina.. Hann var í þeim hluta ræðunnar, þegar ég kom inn, að tala um byggingu Herjólfs. Ég hef áður hlustað á það hér hjá honum úr þessum ræðustól, að hann hefur sveigt að Vestmanneyingum í því sambandi, að þeir hafi jafnvel ekki tekið því með neinum þökkum, að Herjólfur var byggður, og haft ýmislegt við það að athuga. Ég ætla þó ekki að fara í neinar orðasennur við hann út af þeim málum, en vil aðeins rifja það upp, að á sínum tíma voru Vestmanneyingar búnir að undirbúa nokkuð samgöngumál sín, gerðu það á þann veg, sem þeir þá töldu eðlilegast. Þeir héldu um málið borgarafund í Vestmannaeyjum, þar sem ákveðið var að stofna til hlutafélags um byggingu skips, sem henta mundi til ferða milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur og/eða Þorlákshafnar, ef það þætti betur henta. Það var búið að halda fyrsta undirbúningsfund þessa fyrirhugaða hlutafélags, teikningar höfðu verið fengnar erlendis frá af skipum, sem kæmi til greina að miða við byggingu nýs skips, og menn höfðu þá á hendinni tilboð í skip, sem var verið að athuga, hvort mundi henta í þessar ferðir. Þegar þetta skeði, flutti hv. 6. þm. Sunnl., sem var þá formaður fjvn., málið hér inn á Alþ. í því formi, að Ríkisskip byggði nýtt skip, sem í öllum umr. um málið, — ég hef lesið það, — er talið Vestmannaeyjaskip, en þó með þeirri kvöð, sem á það var lögð þá, að það skyldi fara eina ferð á hverjum hálfum mánuði til Hornafjarðar. Ég hygg, að þetta hafi verið pólitískt samkomulag við hans samstarfsflokk, Framsfl., að hann varð að taka þetta ákvæði inn til þess að fá málið gegnum fjvn. og Alþ., og var í sjálfu sér ekkert við það að athuga að öðru leyti en því, að það skerti auðvitað flutningamöguleika skipsins fyrir Vestmanneyinga. Þegar málið fór inn á þennan farveg, þá var hætt öllum frekari umræðum um byggingu skips á vegum Vestmanneyinga sjálfra, sem þeir ættu og stjórnuðu, en að sjálfsögðu höfðu þeir farið fram á ríkisframlag í sambandi við stofnkostnað skipsins og án efa farið fram á ríkisframlag í sambandi við rekstur þess, eins og aðrir flóabátar fá og hafa notið síðan. Ég skal ekkert fara út í það, hvort það hefði farið betur, hefði verið farin sú leið, sem þá var uppi hjá Vestmanneyingum um að byggja eigið skip á þennan hátt, eða eins og málið fór, að Herjólfur var byggður og rekinn af Ríkisskip.

Ræðumaður vék að þriðja lið till., sem hljóðar þannig:

„Endurskipulagðar verði ferðir Skipaútgerðar ríkisins, þannig að komið verði á daglegum skipsferðum milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja.“

Þetta hefur að undanförnu verið mjög brennandi mál heima í héraði, sem eðlilegt er, því að hv. þm. sagði það alveg rétt, að krafa fólks, sem byggir eyjar eins og t.d. Vestmannaeyjar, er í dag sú að geta haft eins öruggar og þéttar ferðir eins og hægt er að koma við með eðlilegum hætti. Flugferðir eru að sjálfsögðu tíðar þangað, 2–3 ferðir á dag yfir sumarmánuðina, ef veður leyfir, en lega eyjanna úti í hafi fyrir suðurströnd landsins er þannig, að þar er oft veðrasamt og því getur orðið erfiðara með flugsamgöngur þangað heldur en kannske á aðra staði á landinu, þannig að þó að flugsamgöngur séu mjög þægilegar og verði án efa það samgöngutæki, sem í framtíðinni eins og hingað til verður mest notað fyrir farþegaflutninga, þá falla oft úr það margir dagar, að við slíkt verður ekki unað af þeim, sem búa nú í Eyjum og í framtíðinni koma til með að búa þar.

Í sambandi við þessar hugmyndir Vestmanneyinga, sem mjög hafa verið ræddar heima í héraði, var á sínum tíma, hinn 10. febr. 1970, gerð samþykkt í bæjarstjórn Vestmannaeyja, þar sem farið var fram á það við samgrn. eða skorað á það, að það sæi um, að Skipaútgerð ríkisins tæki upp það, sem við köllum daglegar ferðir. Náttúrlega gerum við okkur allir ljóst, að ef sama skip á að annast vöruflutninga milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja og farþegaflutninga millí Þorlákshafnar og Vestmannaeyja, þá verður þar vart um daglegar ferðir að ræða, þannig að það verður a.m.k. fyrst um sinn að falla úr einn eða tveir dagar í viku, þar sem skipið yrði að fara til Reykjavíkur, og féllu þá Þorlákshafnarferðirnar niður til að byrja með, þangað til komið verður á flutningakerfi, þannig að vöruflutningar verði þá einnig að langmestu leyti teknir yfir Þorlákshöfn. Þetta erindi bæjarstjórnar, sem var samþ. þar alveg einróma, var að sjálfsögðu afgr. til samgrn. Við rn. og ráðh. hafa síðan iðulega verið viðræður. Viðræður hafa átt sér stað milli mín og ráðh. og annarra fulltrúa úr Eyjum og samgrn. um framkvæmd á þessu. Þetta hefur valdið nokkrum örðugleikum, og við höfum kannske séð fram á það, að Skipaútgerðin með þann þrönga skipakost, sem hún hefur búið við fram að þessu, mundi hafa átt erfitt með að verða við þessum tilmælum okkar fyrr en hið nýja skip, sem nú er komið á lokastig með byggingu á, verður komið í notkun. Nú er nokkurn veginn séð fram á það, að það er aðeins orðið viku- eða mánaðarspursmál, hvenær það skip kemur í hendur Ríkisskip til afnota.

Hinn 11. þ.m. skeði það, að lokaviðræður höfðu þá í bili átt sér stað við rn. um málið. Samgrh. og samgrn. gáfu þá út erindisbréf, þar sem skipuð var þriggja manna nefnd Vestmanneyinga. Verkefni nefndarinnar var tvíþætt, annars vegar að gera till. um ferðaáætlun fyrir skipið og í annan stað að gera till. um, hvernig þetta skip, sem nú er í eigu Skipaútgerðarinnar, yrði bezt nýtt í framtíðinni í þágu Vestmanneyinga til að leysa flutningaþörf þeirra, farþegaflutninga, vöruflutninga og bifreiðaflutninga. Þessi nefnd hefur þegar haldið einn fund og gert till. um ferðaáætlun skipsins, tók það mál sérstaklega út úr, vegna þess að hún taldi, að það, sem fyrst yrði að leysa, væri að koma skipan á ferðir Herjólfs á næstu mánuðum og sérstaklega næsta sumri. Till. nefndarinnar voru þær, að fyrst um sinn færi skipið, eins og upphaflega var gert ráð fyrir, þrjár ferðir milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja á tímabilinu til 30. apríl. Það var þó gert með þeim fyrirvara, að þar til Esja, hið nýja skip Skipaútgerðarinnar kæmist í gagnið, færi skipið áfram eina ferð til Hornafjarðar í hálfum mánuði, ef þörf krefði. Till. nefndarinnar um sumaráætlun fyrir skipið, sem var afmörkuð á tímabilinu frá I. maí til 30. sept., var á þá leið, að skipið færi fimm daga í viku milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja, færi frá Vestmannaeyjum kl. 10 að morgni miðvikudaga, fimmtudaga, föstudaga, laugardaga og sunnudaga og til baka frá Þorlákshöfn kl. 4, og er þá miðað við, að skipið væri komið kl. 7.30–8.00 til Eyja. En á sunnudagskvöldum héldi skipið síðan frá Vestmannaeyjum kl. 9 að kvöldi til Reykjavíkur og væri komið þar á mánudagsmorgni, lestaði vörur að mánudeginum í Reykjavík og væri komið á venjulegum vinnutíma, eins og gert hefur verið ráð fyrir áður, til Eyja á þriðjudagsmorgni. Þriðjudagurinn fer að sjálfsögðu í að losa skipið, þannig að þarna falla úr tveir dagar, mánudagur og þriðjudagur, vegna vöruflutninga frá Reykjavík til Eyja. En fimm ferðir vikulega eða daglegar ferðir aðra daga vikunnar er gert ráð fyrir, að skipið gangi nú í sumar frá 1. maí til 30. sept., og hygg ég, að við þær aðstæður, sem nú eru, sé búið að leysa málið, þetta samgöngumál Vestmanneyinga, á þann hátt, sem þeir sjálfir hafa gert sér grein fyrir, að hægt væri að leysa það með þessu skipi, sem fyrir hendi er, ef stjórn Skipaútgerðarinnar fellst á till. nefndarinnar, sem um þetta mál fjallar heima í héraði. Það er einnig tekið fram í skipunarbréfi nefndarinnar, að verði ekki samkomulag milli stjórnar Skipaútgerðarinnar og þeirrar nefndar heima í héraði, sem ég hef minnzt á, þá verði þeim ágreiningi áfrýjað til samgrn. og það skeri úr um deiluna. Ég hef átt viðræður við forstjóra Skipaútgerðar ríkisins, og ég er nú að vona, að um þetta verði allt saman fullt samkomulag, þannig að Vestmanneyingar séu þegar búnir að ná því marki, sem þeir hafa sett sér í bili, meðan ekki er um annan kost að velja en það skip, sem nú er.

Hitt er alveg rétt, sem hv. 6. þm. Sunnl. sagði, að þegar Herjólfur var byggður á sínum tíma, þó að hann væri byggður í samræmi við þær kröfur, sem til slíks skips voru þá gerðar, og þó að hann hafi alla tíð reynzt mjög öruggt og traust skip, verið farsæll í öllum sínum ferðum, þá liggur það alveg ljóst fyrir, að aðstæður hafa breytzt það mikið síðan. að hann hentar ekki til að þjóna því marki og uppfylla þær kröfur, sem nú eru gerðar til slíks skips. Á ég þar kannske aðallega við aðstæður í sambandi við bifreiðaflutninga, — ég er ekkert að loka augunum fyrir því — sem eru orðnir verulegur þáttur í daglegu lífi Vestmanneyinga, þeir eru búnir að eignast þann fjölda bifreiða. Ef ég man rétt, eru 500–600 fólksbílar þar á staðnum, og auðvitað vill fólk eiga þess kost yfir sumartímann að komast með þessar bifreiðar inn á þjóðvegakerfið, bregða sér upp til landsins og nota þessar bifreiðar, eins og aðrir landsmenn. Þetta er ósköp eðlileg og sjálfsögð krafa og verður að gera sér grein fyrir því, að aðstöðu verður að skapa til þess að fullnægja þessu atriði einnig.

En framtíðin er það. — það gerum við okkur alveg ljóst. — framtíðin er það, og þegar er farið að ræða það heima í héraði, að byggja verður nýtt skip, sem uppfyllir betur þær kröfur, þær eðlilegu kröfur vil ég segja, sem nú eru gerðar í sambandi við ferðir milli Eyja og meginlandsins. Það eru nokkrar umr. um það, og verður það án efa skoðað mjög nákvæmlega, hvort tekin verður að nýju upp sú hugmynd, að Vestmanneyingar sjálfir láti byggja þetta skip, að sjálfsögðu með þátttöku ríkisins í stofnkostnaði og þá ef eða þegar til kæmi með þátttöku ríkisins í rekstri skipsins eins og annarra flóabáta, eða farið verði fram á við ríkisvaldið, að Skipaútgerðin verði látin byggja hið nýja, fyrirhugaða skip. Vestmanneyingar mundu þá að sjálfsögðu gera kröfu til þess að fá að gera tillögur um fyrirkomulag skipsins. því að ég tel, að þeir þekki það manna bezt, hvernig það skip ætti að vera, sem þeim hentaði bezt, og þá að sjálfsögðu að hafa nokkra hönd í bagga um rekstur þess, þegar til kæmi. Það mál er á umræðustigi heima í héraði, og er ég að vona, að þegar nokkur reynsla er komin á ferðir Herjólfs í því formi, sem nú er lagt til, að á ferðum hans verði, þá sé betra að átta sig á því, hvort við, sem þarna búum, teljum það heppilegra að eiga skipið sjálfir eða þar verði um að ræða skip, sem væri eign Skipaútgerðar ríkisins. Sannleikurinn er sá, að þó að ég segði, að Herjólfur hefði á sínum tíma verið byggður og uppfyllt þær kröfur, sem þá voru gerðar til slíks skips, þá liggur það í augum uppi, að við þröngan skipakost hjá Ríkisskip hefur oft verið gripið til þessa skips og það notað í aðrar þarfir en við hefðum óskað eftir, en ekki haft aðstöðu til að koma í veg fyrir. Auðvitað er það stjórn Skipaútgerðar ríkisins, sem leggur áætlun og getur breytt henni og hefur gert. Út af þessu hafa orðið nokkrir árekstrar, en þó vil ég kannske segja ekki meiri en efni hafa staðið til. En ég vildi láta það koma hér fram við umr. um þessa till. hv. 6. þm. Sunnl., að málið er, að því leyti sem það varðar ferðir Skipaútgerðarinnar, leyst, ef samkomulag næst um þá áætlun, sem þeir aðilar heima í Eyjum gerðu, sem skipaðir voru í nefnd til að gera till. um þetta, ef till. verða annaðhvort samþykktar af stjórn Skipaútgerðar ríkisins eða úrskurðaðar af rn. sem ferðaáætlun skipsins.

Hv. þm. lét í lokin nokkurn ugg í ljósi um það, að mér skildist, að Vestmannaeyjar mundu ekki haldast í byggð áfram. Ég er nú ekki hræddur um það, satt að segja, ég tel mig þekkja allar aðstæður það vel, eins og ég veit, að hann gerir einnig. Ég ber engan kvíðboga í brjósti um það, að Eyjarnar verði ekki í byggð áfram. Þau mál hafa legið fyrir að gera Eyjarnar eins byggilegar og mögulegt er. Á ég þar t.d. við það, sem gerðist í sambandi við raforkumálin, þegar sæstrengurinn var þar lagður. Vestmanneyingar standa núna betur að vígi, held ég, en flestir aðrir landsmenn að því leyti til, að þeir eru í beinu sambandi við Sogsvirkjunina með sæstreng yfir sundið út til Eyja, sem hefur reynzt traust mannvirki. Þeir hafa auk þess nægilegt vélaafl á staðnum heima, eru þar með fullkomna rafveitu, sem áður sá byggðarlaginu fyrir raforku. Allar vélar þar standa nothæfar, og þó að einhver bilun verði á línunni frá Soginu, eins og iðulega kemur fyrir, þá verður fólk aldrei vart við það. Ljósin slokkna kannske í hálfa mínútu eða eina mínútu, en það er búið að stilla það þannig saman, að þetta fer sjálfvirkt í gang. Um leið og rafstraumur fer af línunni, þá fer vélaraflið í gang, og við verðum ekki varir við það, þó að truflanir séu á línunni hérna á Suðurlandi. Að því leyti erum við mjög vel sett.

Við komumst á sínum tíma í samband við hið sjálfvirka símakerfi, sem ég segi, að var okkur kannske mun meira til hagræðis en mörgum öðrum. Það var mjög mikið álag á símakerfinu heima. Það var einn sæstrengur, sem lá þarna á milli. Iðulega kom það fyrir, að hann bilaði. Athafnalíf var þarna mikið, sérstaklega um veturinn, og á tímabili var erfitt að fá símtal við Reykjavík nema með hraðsamtali eða jafnvel forgangshraðsamtölum. Við breytinguna að þessu leyti getur maður nú hringt úr sínum eigin síma heima hvert á land sem er. Það er ekki meira að hringja á Húsavík nú orðið frá okkur eða norður eða vestur yfir land en að hringja innan bæjar. Maður fær svarið strax, ef síminn á annað borð svarar, og sambandið er á þann veg, að maður verður ekki var við það, hvort maður er að tala utanbæjar eða innanbæjar.

Þriðja stórátakið, sem Vestmanneyingar hafa staðið fyrir sjálfir til hagræðis fyrir þá íbúa, sem þarna eru, er í sambandi við vatnsveituna. Það hefur að mínum dómi lukkazt mjög vel, og hygg ég, að eins og grundvöllurinn var lagður að því máli, þá sé þar um framtíðarlausn að ræða. Þegar hin nýja leiðsla, sem hér var nú til umr. í gær, er komin, sem ráðgert er, að verði á næsta sumri, þá er búið að ganga endanlega frá þeim málum næstu 20–30 árin.

Þannig er þetta alltaf að færast í það horf, að aðstaða verði ekki lakari úti í Eyjum til búsetu en annars staðar. Að mörgu leyti er hún betri en víða annars staðar, og afkomumöguleikar fyrir allan almenning hafa verið og eru mjög góðir. Fólk er þar yfirleitt með því tekjuhæsta á landinu, og hygg ég, að þetta stefni allt að því að gera Eyjarnar ekki síður byggilegar en aðra staði landsins. Ég er ekki með neinar vangaveltur um það, að íbúum fækki þar eða þær fari í eyði. Þetta síðasta, sem er að gerast, að við erum að ná vissum áfanga í samgöngumálunum, að því leyti sem um er að ræða ferðir sjóleiðina, er í samræmi við þær óskir og kröfur, sem við höfum sett fram. Meiningin hjá okkur er sú, því skýrði ég forstjóra Skipaútgerðarinnar frá í viðtali fyrir stuttu síðan, að þó að við hefðum ekki gert um það neina samþykkt á þessum fundi eða sú nefnd, sem um þetta fjallaði, hefði ekki gert neina beina samþykkt um það, þá hefðum við rætt það bæði þar og áður að stefna að því að taka flutning á stykkjavöru og öllum léttari varningi með bifreið frá Reykjavík til Þorlákshafnar og síðan með skipinu þaðan til Eyja, þannig að ef það tekst að því marki, sem við stefnum að, þá mun nægja ein ferð til vöruflutninga milli Reykjavíkur og Eyja. Það liggur að sjálfsögðu fyrir, hve mikið vörumagn er flutt hvern mánuð ársins. Það liggur auðvitað fyrir skýrsla yfir nokkur undanfarin ár, og maður getur alveg gert sér grein fyrir, hve mikið þarf að taka af vörumagni í hinum daglegu ferðum, sem við köllum, yfir Þorlákshöfn, til þess að skipið þurfi ekki að fara út úr áætlun nema eina ferð í viku til Reykjavíkur. En hjá því verður að sjálfsögðu ekki komizt, því að alltaf er nokkur hluti af þeim varningi, sem flytja þarf á milli, þess eðlis, að það er erfitt að keyra hann frá Reykjavík til Þorlákshafnar og umskipa honum þar, þannig að við reiknum með, að eina ferð í viku verði skipið að fara milli Eyja og Reykjavíkur til vöruflutninga. Og þó að það sé gert, þá kemur það þannig út, eins og ég sagði, að fimm daga vikunnar fer skipið daglegar ferðir á vissum tímum frá hvorum stað, frá Þorlákshöfn annars vegar og Vestmannaeyjum hins vegar, og er þá vissulega búið að ná þarna ákveðnu marki, þó að það sé ekkert lokastig í samgöngumálum að okkar dómi, sem búum í Eyjum.