15.12.1970
Neðri deild: 31. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í B-deild Alþingistíðinda. (422)

170. mál, vegalög

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Það er dálítið sögulegur atburður, þegar málsvari Framsfl. kemur hér fram til þess að verja stjfrv. fyrir gagnrýni frá stjórnarandstöðunni, og þessi atburður sýnir ákaflega vel, á hvaða leið tilteknir aðilar a. m. k. innan Framsfl. telja sig vera um þessar mundir.

Raunar var málflutningur þessa hv. þm. ekki sérlega heiðarlegur heldur. Hann leyfði sér að halda því fram hér, að það væri áhugamál mitt og hv. þm. Steingríms Pálssonar að skera niður vegaframkvæmdir; þetta er fjarri öllum sanni. Ég sagði það hér áðan, að ég teldi það vera mikið ásökunarefni á hæstv. ríkisstj., hve illa hún hefði haldið á þeim málum að undanförnu, og það væri mikið og stórfellt verkefni að halda áfram vegaframkvæmdum á Íslandi. En ágreiningsefnið er hitt, hvar á að taka fjármunina? Það getur vissulega staðizt sem almenn regla, að taka eigi þessar tekjur af umferðinni, eins og það er kallað. Því miður er hluti af þeim tekjum tekinn til annarra þarfa en vegaframkvæmda, og það eru fleiri aðilar en ríkisvaldið, sem taka skatta af umferðinni. Það eru aðilar, sem ég minntist hér á áðan, en hv. þm. forðaðist að ræða um. Það eru olíufélögin, þau taka einnig skatt af umferðinni. Það eru þeir aðilar, sem leggja vegi á Íslandi — einkaaðilar, sem hagnast stórlega af þeim framkvæmdum. Þeir taka einnig skatt af umferðinni. Og það eru bílainnflytjendurnir, sem margir hverjir hafa byggt mjög veglegar hallir yfir þessa einu vörutegund sína hér í Reykjavík, þó að þeir lentu í vandræðum í eitt eða tvö ár. Þessar hallir eru vitnisburður um það, að þessir aðilar hagnast einnig stórlega á umferðinni.

Það, sem ég var að spyrja um hér áðan, var það, hvort það væri ekki eðlilegra — ekki sízt á verðstöðvunartímum — að sækja peningana þangað, en að halda áfram dýrtíðar- og verðbólgustefnunni. Það er ekki stefna þessa hv. þm., sem talaði hér á undan mér. Hann vildi ekki fallast á neina aðra aðferð en þá að taka peninga með skattheimtu frá neytendum. Hann sagði, að hann hefði oft talað hér á þingi um vegamál, en ég sjaldan. Það er alveg rétt. Þessi hv. þm. veit miklu meira en ég um vegamál, og ég læri alltaf mikið um þau mál, þegar ég ræði við hann. Hins vegar er það einkenni á þessum hv. þm. og raunar á mörgum þm., að þeim hættir við að skoða vandamálin algerlega einangruð, eins og þau séu í tómarúmi. Þeir sjá ekki skóginn fyrir trjám. Það vandamál, sem við ræðum hér, er ekki einangrað. Það er hluti af allri fjármálastefnunni í þjóðfélaginu, og við skiljum ekki þetta vandamál og náum engum tökum á því, nema við gerum okkur þessa staðreynd ljósa. Það er ekki hægt að afgreiða mál eins og þetta án þess að muna um leið eftir því, að nú eiga að heita gildandi lög um verðstöðvun á Íslandi, og það er ekki hægt að afgreiða mál eins og þetta án þess að gera sér ljóst, í hvaða átt efnahagsþróunin á Íslandi stefnir. Það var þetta, sem ég reyndi að gera grein fyrir í ræðu minni hér áðan. En það eru vissar ástæður fyrir því, að tilteknir aðilar í Framsfl. vilja ekki átta sig á þessu mikla samhengi, enda stefna þeir í þá átt, að það geti orðið eðlilegur atburður, en ekki dálítil spaugileg undantekning, að þm. úr Framsfl. komi hér fram sem fulltrúar fyrir viðreisnarstjórnina til að bera blak af frv. hennar.