10.11.1970
Sameinað þing: 9. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í D-deild Alþingistíðinda. (4235)

318. mál, bygging fæðingar- og kvensjúkdómadeildar við Landsspítalann

Fyrirspyrjandi (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Fsp. mín til heilbrmrh. er um byggingu fæðingarog kvensjúkdómadeildar við Landsspítalann og er á þskj. 44. Tilefni þessarar fsp. er það, að fyrir hartnær tveim árum barst alþm. erindi frá víðtækum kvennasamtökum um þetta mál, um brýna þörf á byggingu við fæðingardeildina og kvensjúkdómadeild, og var gerð ítarleg grein fyrir hinni brýnu þörf aðgerða í þessum málum. Húsnæði væri ófullnægjandi og aðbúnaður allur óviðunandi og þess vegna brýnna aðgerða þörf. Það var auðheyrt strax, að málið átti djúpan hljómgrunn meðal alþm., og voru flutt tvö eða þrjú þingmál þegar í stað varðandi þetta mál, Í fyrstu mátti nú segja, að lítið hillti undir jákvæðar undirtektir með aðgerðir í málinu, en svo sýndi það sig, að málið var það brennandi og aðkallandi, að yfirlýsingar voru gefnar um, að málinu skyldi sinnt og bráður bugur að því undinn, að byggingarframkvæmdir yrðu hafnar.

Það er liðið hátt á annað ár síðan, og ekki eru nú neinar byggingar risnar af grunni. Mér virðist svo sem það sé verið að grafa grunn núna að þessari viðbótarbyggingu við fæðingardeildina, en má þó vera, að hún sé eitthvað lengra á veg komin. En hitt er víst, að svo brýn sem þörfin var og aðkallandi, þegar málið var hér til umr. á Alþ., þá hefur sú þörf orðið enn þá brýnni og ástandið þarna enn þá verra til þess að fullnægja þessum þætti heilbrigðismála á sómasamlegan hátt. Mér er sagt, að það muni sízt flýta fyrir byggingarframkvæmdum, að verkið hafi nú verið boðið út í pörtum og muni svo þurfa tíma til þess að bjóða út nýjan og nýjan hluta bygginganna síðar. Ég harma það, ef þetta verður til tafa um byggingarframkvæmdir og þannig, að málið fái lausn.

En spurningamar eru svona: Hversu langt er nú komið byggingarframkvæmdum við hina nýju fæðingar- og kvensjúkdómadeild Landsspítalans? Og síðari spurningin: Hvenær má ætla, að byggingarframkvæmdum verði lokið, svo að starfsemi geti hafizt í hinum nýju húsakynnum?

Ég vil aðeins láta það í ljós, að ólíkt fyrr og fljótar hefur gengið hjá félaginu Loftleiðum að koma upp stórhýsi, sem byrjað var á að byggja á liðnu vori og er komið langleiðina og verður fullgert fyrir næsta vor. Ef slíkur hraði hefði verið á þessu nauðsynjarmáli, þá er ég viss um, að þakklætisalda hefði risið um landið allt, a.m.k. meðal kvennasamtakanna og þó miklu víðar varðandi þetta mál.