17.11.1970
Sameinað þing: 10. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í D-deild Alþingistíðinda. (4263)

324. mál, námslán og námsstyrkir

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Án þess að ég telji nokkra ástæðu til þess að hefja nokkra deilu eða karp við hv. þm. um þá atburði, sem urðu á erlendri grund á s.l. ári, þegar námsmenn sumpart gerðu innrás í íslenzk sendiráð erlendis og sumpart efndu til mótmælafunda við önnur erlend sendiráð, þá get ég þó ekki látið hjá líða að leiðrétta þá skoðun, sem fram kom hjá honum, að sú stórfellda aukning, sem gert er ráð fyrir að framkvæma á fjárveitingu til Lánasjóðs íslenzkra námsmanna á næsta ári í framhaldi af stórfelldum aukningum á undanförnum árum, standi í minnsta sambandi við þessar aðgerðir. Ég endurtek það. Ég skal við þetta tækifæri ekki ræða neitt frekar um skoðanir mínar á þessum aðgerðum eða uppruna þeirra eða eðli eða tilgangi, heldur einungis benda á, að ákvarðanir ríkisstj. um till. sínar fyrir fjárlagafrv. 1971 standa í engu sambandi við þessar aðgerðir. Það sést þegar af því, eins og ég raunar lét oft koma í ljós í umr. um málið, að ríkisstj. þurfti og hlaut að bíða eftir till. stjórnar lánasjóðsins um fjárráð sjóðsins á árinu 1971. Þegar þessi ólæti stóðu sem hæst eða þau áttu sér stað, höfðu till. stjórnar lánasjóðsins alls ekki borizt og því alls ekki von, að ríkisstj. hefði getað verið búin að taka neina endanlega ákvörðun um afstöðu sína til þeirra. Þær bárust, — ég er hér með ljósrit af bréfi frá stjórn lánasjóðsins, — endanlegar till. bárust 12. júní 1970. Þá tók ríkisstj. fyrir sérstaka beiðni mína strax afstöðu til efnis málsins og samþykkti þessar till. í einu og öllu eins og þær komu frá stjórn lánasjóðsins, enda voru till. gerðar samhljóða með atkvæðum allra fulltrúa í stjórninni, bæði fulltrúa opinberra aðila, Háskóla og stúdenta heima og erlendis. Stjórn sjóðsins vissi það vel, að ég og við í ríkisstj. höfðum fullan hug á að taka tillit til óska lánasjóðsins, ef þær væru skynsamlega rökstuddar, sem þær síðar reyndust vera. Þetta lá alltaf fyrir og þess vegna alger óþarfi að efna til nokkurra mótmælafunda í því sambandi.

Þá má einnig á það benda, að af hálfu stúdenta hér heima hafði ekki verið efnt til neinna slíkra aðgerða. En niðurstaðan varð sú, till. stjórnar lánasjóðsins, sem ríkisstj. samþykkti, var sú að bæta hag stúdentanna heima meir en stúdentanna erlendis. Ef einhver mundi vilja þakka mótmælaaðgerðunum erlendis þær auknu fjárveitingar, sem stúdentarnir erlendis fá, þá gætu menn alveg með sama rétti hér heima þakkað mótmælaleysinu hér heima fyrir það, að stúdentar við Háskóla Íslands skyldu fá enn þá meira heldur en stúdentarnir erlendis. En hvort tveggja er algerlega rangt. M.ö.o., stefna ríkisstj. í þessu máli hefur legið ljós fyrir undanfarin ár. Við höfum viljað gera eins vel við námsmenn og fjárhagsaðstæður frekast hafa leyft. Okkur urðu algerlega ljósir þeir miklu erfiðleikar, sem gengisbreytingarnar hafa haft í för með sér, sérstaklega fyrir námsmennina erlendis, og það hefur verið fullur skilningur á aðstöðu námsmannanna, mikilvægi starfs þeirra fyrir þjóðina og fullur vilji á því að ganga eins langt í aðstoð við þá og fjárhagsaðstæður frekast leyfa hverju sinni, eins og ég vona, að allir sanngjarnir menn sjái, ef menn athuga þær breytingar, sem hafa orðið á félagsaðstæðum námsmanna á undanförnum árum, og er þó verið að stíga stærsta sporið núna. Þetta er inngangur, sem ég vona, að ekki þurfi að leiða til neinna frekari umr. um þetta mál, sem er liðin saga, og ég held, að bezt sé fyrir alla, að sem minnst sé um talað framvegis.

En svar mitt við fsp. er þannig: Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1971 er gert ráð fyrir, að ríkisframlag til Lánasjóðs ísl. námsmanna verði 90 millj. 625 þús. kr. En það er hækkun um 32 millj. 635 þús. miðað við fjárlög 1970 eða hækkun um 56.3%, og hefur í einu aldrei átt sér stað jafnmikil hækkun á þessari fjárveitingu. Fjárhæðin er í samræmi við till. þær, sem stjórn lánasjóðsins gerði við undirbúning fjárlagafrv., og þó nokkru ríflegri, þar sem bætt var við framlagi til að fjölga hinum svo kölluðu 5 ára styrkjum úr 7 í 10 á ári. Um fjárveitingatillögurnar var alger samstaða í stjórn lánasjóðsins, en þar eiga m.a. sæti fulltrúar námsmanna. Till. og þar með ríkisframlagið samkv. fjárlagafrv. voru við það miðaðar, að veruleg hækkun gæti orðið á hlutfalli námsaðstoðarinnar af svo kallaðri umframfjárþörf, en með henni er átt við mismun heildarnámskostnaðar og eigin tekjuöflunar námsmanna bæði atvinnutekna og styrkja. Þetta hlutfall hefur verið mismunandi eftir því, hvort nám var stundað hér heima eða erlendis, svo og eftir námsárum. Nú er gert ráð fyrir, að mismunur að þessu leyti milli námsmanna heima og erlendis hverfi, og enn fremur, að námsaðstoðin á fyrstu námsárunum verði aukin að mun.

Samkv. áætlun lánasjóðsins um dreifingu lána má áætla, að lán sjóðsins hafi numið 53–54% af umframfjárþörf að meðaltali samkv. reglum þeim, sem giltu við síðustu úthlutun. En gera má ráð fyrir, að þetta hlutfall hækki við næstu úthlutun upp í 65–66%. Hefur þannig með samþykkt tillagna stjórnar lánasjóðsins verið stigið stórt skref í átt að því markmiði laga um námslán og námsstyrki, sem um getur í fsp. Með sama áframhaldi mundi ekki taka nema um þrjú ár til viðbótar að ná þessu markmiði að fullu, en svo sem jafnan hefur verið lögð áherzla á af hálfu ríkisstj., er það að sjálfsögðu undir Alþ. komið með ákvörðun fjárveitinga, hversu hratt þeirri sókn miðar, en ég tel, að að þessu marki eigi að stefna, þ.e. að halda þeim vaxtarhraða á fjárveitingum til sjóðsins, sem markaður hefur verið í fjárlagafrv. fyrir 1971.

Auk framangreindrar hækkunar á hlutfalli námsaðstoðarinnar í heildarnámskostnaði gerðu tillögur stjórnar lánasjóðsins, sem ríkisstj. féllst á, ráð fyrir ýmsum öðrum breytingum, sem horfðu til aukningar á útgjöldum sjóðsins, m.a. inntöku nýrra hópa námsmanna í lánakerfið og aukningu ferðastyrkja. Alls var gert ráð fyrir, að ráðstöfunarfé sjóðsins þyrfti að aukast úr 86 millj. kr. 1970 í um 135 millj. kr. árið 1971 eða um 49 millj. kr. Auk hækkunar á ríkisframlaginu var því gert ráð fyrir, að bankalán til lánasjóðsins yrðu aukin, og hefur ríkisstj. beitt sér fyrir því við bankana, að sú aukning næði fram að ganga, þannig að ráðstöfunarfé sjóðsins verði á næsta ári 135 millj. kr. Með þessu móti vona ég, að fsp. geti talizt svarað.