24.11.1970
Sameinað þing: 11. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í D-deild Alþingistíðinda. (4290)

329. mál, virkjunarmöguleikar í Skjálfandafljóti

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég hef hér með höndum alveg nýlega skýrslugerð frá Orkustofnuninni, sem ég mun byggja á svör við þessum spurningum, að svo miklu leyti sem skýrslan tekur til þeirra. Ég vil þá leyfa mér fyrst að víkja að Jökulsá á Fjöllum, þó að það sé síðari spurningin.

Rannsóknir á virkjunum í Jökulsá á Fjöllum hafa á yfirstandandi ári verið fólgnar í jarðfræðiathugunum í fyrsta lagi, jarðfræðiathugunum í efsta hluta Jökulsársvæðisins með hliðsjón af hugsanlegum vatnsflutningi austur og nýtingu þess vatns í Austurlandsvirkjun, og í öðru lagi áætlunargerð um virkjanir í sjálfri Jökulsá, einkum við Dettifoss. Tekið skal fram, að fyrri þátturinn, jarðfræðirannsókn á efsta hluta vatnasvæðisins, kemur einnig að verulegum notum, þótt ekki yrði af neinum vatnaflutningum austur. Í sambandi við vatnaflutninga vil ég taka það fram, að Orkustofnunin hefur þar unnið að eigin frumkvæði, en ekki fyrir nein tilmæli frá iðnrn., en hins vegar hefur iðnrn. lagt áherzlu á virkjun Dettifoss í sambandi við störf nefndar, sem vinnur að hugsanlegri stóriðju eða staðsetningu álbræðslu á Norðurlandi, eins og síðar kemur fram. Fyrri rannsóknir og áætlanir um virkjun við Dettifoss hafa einkum miðazt við neðanjarðarframkvæmdir. Allt bendir til þess, að reynist slík tilhögun á annað borð gerleg, sé hún heppilegasta tilhögunin. Á hinn bóginn virðist koma æ betur í ljós, að jarðfræðilegar ástæður gera slíka neðanjarðartilhögun æði vafasama. Virkjunarjarðfræðingar telja meira að segja hæpið, að unnt sé með venjulegum rannsóknaraðferðum, eins og borholum, að fullvissa sig um það, áður en framkvæmdir hefjast, að neðanjarðarstöð við Dettifoss sé efnahagslega gerleg. Til þess að ganga úr skugga um þetta þyrfti hugsanlega mjög kostnaðarsamar rannsóknir, eins og t.d.. tilraunajarðgöng. Af þessum sökum er nú sem stendur unnið að athugun á breyttri virkjunartilhögun, þar sem virkjunin yrði að mestu ofanjarðar og þannig reynt að forðast vafasamar jarðfræðiaðstæður. Búast má við, að slík tilhögun komi í áætlun eitthvað dýrari út en neðanjarðarvirkjun, en hún ætti að vera til muna áhættuminni. Búizt er við, að þessari áætlunargerð ljúki nú um áramótin. Einnig er nú unnið að svo nefndum aðgerðarannsóknum á hugsanlegri virkjun Jökulsár við Dettifoss, en slíkar rannsóknir beinast að samstarfi virkjunar við þann markað, sem hún á að sjá fyrir, ef svo má að orði komast. Þær gefa t.d. til kynna, hvort slík virkjun yrði hæf til þess að sjá norðlenzkri stóriðju fyrir raforku. Tekið skal fram, að virkjun við Dettifoss hentar ekki núverandi almennri orkunotkun á Norðurlandi, jafnvel þótt allt Norðurland eða Norður- og Austurland yrði tengt saman í eitt kerfi og jafnvel þótt rafhitun húsa stórykist frá því, sem nú er. Ástæðan er sú, að virkjun við Dettifoss er allt of stór fyrir slíkan markað. Virkjun við Dettifoss getur því með engu móti komið í stað virkjunar í Laxá. Áætlanir, sem hingað til hafa verið gerðar um Dettifossvirkjun, benda til nokkru hærri orkukostnaðar en frá beztu valkostum á Þjórsársvæðinu, en þó vel innan marka þess, sem hagkvæmt getur talizt. Ekki þarf að taka fram, að forsenda slíkrar hagkvæmni er, að nægur markaður sé fyrir orkuna, strax og virkjunin tæki til starfa. Unnið er nú einnig að frumáætlunum um nýtingu fallsins í Jökulsá neðan Dettifoss. Í rannsóknaráætlun næsta árs er gert ráð fyrir rannsóknum á vettvangi við Jökulsá.

Þá vil ég koma að hugsanlegri virkjun í Skjálfandafljóti við Íshólsvatn. Í yfirliti, sem raforkumálastjóri lét gera og gaf út 1962, um tæknilega nýtanlegt vatnsafi á íslandi, er m.a. nefnd virkjun Skjálfandafljóts við Íshólsvatn. Var þar gert ráð fyrir að nýta um 100 m fall. Hugmyndin að virkja á þessum stað er því gömul. Þegar virkjunarkostnaður við Íshólsvatn var athugaður, kom strax í ljós, að hann var miklu hærri en á mörgum stöðum öðrum, þ. á m. hærri en í Laxá við Brúar. Sömu sögu er að segja um fjölda annarra virkjunarstaða í áðurnefndu yfirliti. Þeir hafa verið lagðir til hliðar, en rannsóknarfé og mannafla beint að hinum, sem ódýrari orku virðast geta gefið. Á yfirstandandi ári hefur hugmyndinni um Íshólsvatn aftur verið hreyft. Af þeim sökum lét Orkustofnunin líta aftur til öryggis á þær athuganir, sem á sínum tíma voru gerðar varðandi virkjun við Íshólsvatn. Var virkjunin áætluð að nýju með nútíma verðlagi og borið saman við ýmsa virkjunarstaði, þ. á m. í Laxá við Brúar. Niðurstöður liggja fyrir, en ekki hefur enn verið gengið frá skýrslu. Eru þær staðfesting á fyrri niðurstöðum og sýna, að orka frá Íshólsvatnsvirkjun yrði a.m.k. 30–40% dýrari en frá Laxá við Brúar, og er þá átt við virkjun þar með 23 m vatnsborðshækkun, eins og nú er verið að tala um. Það hefur einnig verið talað um og gerðar athuganir á öðrum virkjunarmöguleikum í Skjálfandafljóti, sem er ekki beint spurt um hér, þá með vissum vatnaflutningum, sem ég skal ekki fara út í, en um það segir á einum stað í þeirri skýrslu, sem ég hef milli handa, að ekki sé búizt við, að þarna gæti verið um slíka stórvirkjun að ræða, að hún gæti keppt við efri hluta Þjórsár, Austurlandsvirkjun eða Dettifossvirkjun.

Að lokum vil ég segja það, að virkjunarrannsóknir á Norðurlandi til þessa benda til þess, að Dettifossvirkjun sé eina virkjunin á Norðurlandi, sem til greina komi til þess að sjá norðlenzkri stóriðju fyrir raforku. Ekki er enn búið að bera saman orkukostnað frá Dettifossvirkjun annars vegar og aðflutningslínu að sunnan eða austan hins vegar. En rn. hefur sérstaklega óskað eftir slíkum samanburði hjá Orkustofnuninni. Þessum samanburði verður væntanlega lokið í byrjun næsta árs, en allt bendir til þess, að þessar orkuöflunarleiðir fyrir stóriðju norðanlands verði kostnaðarlega mjög svipaðar. Sömu rannsóknir benda og til þess, að ekki sé önnur virkjun á Norðurlandi hagkvæmari til almennra nota í fjórðungnum en virkjun Laxár við Brúar. Það var nú ekki að vísu spurt um þetta, en mér var þetta dálítið ofarlega í huga.