08.12.1970
Sameinað þing: 14. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í D-deild Alþingistíðinda. (4354)

332. mál, fiskiræktarmál

Fyrirspyrjandi (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér fsp. til hæstv. landbrh. um fisk­ ræktarmál. Fsp. er í þremur liðum á þskj. 171 og er svofelld:

„Hvað liður framkvæmdum á eftirtöldum þál.:

a) þál. frá 17. apríl 1968 um fiskeldisstöðvar,

b) þál. frá 2. apríl 1968 um, að bændaskólarnir veiti fræðslu í fiskirækt og fiskeldi,

c) þál. frá 29. apríl 1966 um stofnun klak- og eldisstöðvar fyrir laxfiska?“

Tilefni fsp. skýrist raunverulega af henni sjálfri að mestu leyti, en svo er mál vaxið, að hv. Alþ. hefur við nokkur tækifæri lýst yfir mjög ákveðnum vilja sínum í þá átt, að efld verði ræktun laxfiska og að því stefnt, að hún geti orðið arðvænleg atvinnugrein. Þessi vilji hefur m. a. komið fram í þeim þál., sem hér er gerð fsp. um. Hér er í fyrsta lagi um að ræða þál., sem samþ. var hér á hinu háa Alþingi 17. apríl 1968 að till. minni og hv. þm. Jónasar G. Rafnar, Jónasar Péturssonar og Jóns Árm. Héðinssonar. Með leyfi hæstv. forseta. hljóðaði sú ályktun svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta hið fyrsta fram fara athugun sérfróðra manna á því, hverjar gerðir fiskeldisstöðva, er reknar yrðu sem aukabúgrein, hentuðu bezt íslenzkum bændum, og jafnframt að láta gera athugun á kostnaði við byggingar og rekstur slíkra eldisstöðva. Þá verði og rannsakað; hver opinber stuðningur sé nauðsynlegur, til þess að þessi búgrein geti eflzt með eðlilegum hætti. Niðurstöður framangreindra athugana verði kynntar bændum rækilega, í samráði við Búnaðarfélag Íslands.“

Í öðru lagi er hér um að ræða þál. um, að bændaskólar veiti fræðslu í fiskirækt og fiskeldi, en sú till. var samþ. í hv. Ed. 2. apríl 1968 að till. hv. landbn. deildarinnar, sem undir meðferð málsins tók inn í ályktunina till. mína og hv. þm. Einars Ágústssonar um, að gerðar yrðu ráðstafanir til að ráðunautar í fiskirækt og fiskeldi yrði ráðnir til starfa.

Loks er svo um að ræða þál. frá 29. apríl 1966, sem samþ. var að till. þm. Norðurl. e., um stofnun klak- og eldisstöðvar fyrir laxfiska, og var sú till. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta fram fara athugun á því, hvort tímabært sé, að stofnsett verði á Norðurlandi klak- og eldisstöð fyrir lax og silung. Skal í því sambandi athugað, hvort ekki sé heppilegt að hafa það fyrirtæki við vatnasvæði Laxár í S.-Þingeyjarsýslu, m. a. vegna góðra skilyrða til hagnýtingar á volgu vatni frá jarðhita þar um slóðir.“

Fsp. mín er fram borin af þeirri ástæðu, að mér og vafalaust ýmsum öðrum hv. þm. er ekki ljóst nema þá að mjög takmörkuðu leyti, hver örlög hinna umræddu þál. hafa orðið og hvern áþreifanlegan árangur þær hafa borið. En það er hins vegar skoðun mín, að framkvæmd þessara ályktana hv. Alþ. gæti orkað mjög til þess að leggja traustari undirstöðu að fiskræktinni en áður og efla þannig nýja atvinnugrein í landinu, atvinnugrein, sem flestir eru á einu máli um, að gæti verið lyftistöng í okkar þjóðarbúskap og ekki síður fyrir bændastéttina í landinu.