15.12.1970
Sameinað þing: 17. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í D-deild Alþingistíðinda. (4370)

335. mál, ísingarhætta

Dómsmrh. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi hefur beint þessari fsp. til hæstv. sjútvrh., en vegna þáttar Landhelgisgæzlunnar í öryggisþjónustu við bátaflotann sem og nokkurra afskipta dómsmrh. af veðurþjónustu við hann nú nýverið, þá skal ég, hér upplýsa nokkur atriði.

Hv. þm. minnist þess e. t. v., og reyndar býst ég við, að svo sé um þm. yfirleitt, að dómsmrn. sendi fjölmiðlum fréttatilkynningu þann 26. f. m., þar sem m. a. var rakinn aðdragandi þeirra aðgerða, sem þá voru komnar til framkvæmda í bættri veðurþjónustu við bátaflotann. Sá aðdragandi var í stuttu máli sá, að þann 4. nóv. komu til fundar í dómsmrn. allir þm. Vestf., en fundinn sátu auk okkar þm. einnig forstjóri Landhelgisgæzlunnar og veðurstofustjóri. Á þessum fundi voru rædd öryggismál bátaflotans á Vestfjarðamiðum, þ. á m. veðurþjónusta, en á þessum slóðum og víðar á miðunum við strendur landsins hafa næturútsendingar á veðurfréttum og veðurspám heyrzt illa eða ekki, en þær hafa á þeim tímum sólarhrings, sem útvarpið starfar ekki, þ. e. að næturlagi, verið sendar frá loftskeytastöðinni hér í Reykjavík. Einnig var þar rætt um möguleika á að fá starfsmann frá Landhelgisgæzlunni vistaðan um borð í brezka eftirlitsskipinu, sem hér er allajafna á þessum slóðum vetrarmánuðina til þjónustu við brezka togara, sem halda sig aðallega á þessum miðum. Að þessum fundi loknum var forstjóra Landhelgisgæzlunnar og veðurstofustjóra falið að gera till. um úrbætur á veðurþjónustunni. Till. þeirra bárust rn. nokkru síðar, föstudaginn 13. nóv., og strax næsta mánudag voru þær svo sendar samgrn. til athugunar og fyrirgreiðslu.

Till. þeirra veðurstofustjóra og forstjóra Landhelgisgæzlunnar voru í fyrsta lagi þær, að æskilegt væri að senda út veðurlýsingu og veðurspá á nóttunni frá aðalstrandstöðvum Landssímans úti á landi, vegna þess hve veðurfregnirnar, sem útvarpað væri frá Reykjavík á þessum tíma, heyrðust illa á stórum svæðum við landið.

Í öðru lagi, að veðurathuganir, sem gerðar eru um borð í varðskipunum á miðnætti og þá helzt ekki nær landi en þrjár sjómílur og sendar strax til Veðurstofunnar, mundu mjög vel þegnar. Sama gilti um athuganir frá fiskibátum á djúpmiðum á þessum tíma, sem varðskipin gætu svo aðstoðað við að koma til Veðurstofunnar, ef ástæða þætti til.

Í þriðja tagi benda þeir á í sínum till., að þá vetrarmánuði, sem aðstoðarskip brezku togaranna séu á miðunum hér við land, þá gæti verið mikil bót að því, að þar um borð væri maður kunnur staðháttum, t. d. yfirmaður frá Landhelgisgæzlunni, sem milligöngumaður um upplýsingar um veður og önnur atriði, sem gætu komið brezkum og íslenzkum fiskimönnum að gagni.

Helgina næstu eftir að þessar till. voru sendar samgrn. var athugun lokið og tekin ákvörðun um framkvæmd till. á þá leið, að veðurspár og lýsing yrðu send út frá þrem strandstöðvum Landssímans, sem næturvörzlu hafa, Ísafirði, Siglufirði og Neskaupstað. Þessar útsendingar hófust þegar nóttina á milli 23. og 24. nóv. Veðurathuganir varðskipanna hófust svo hins vegar í lok sömu viku, og hef ég ekki vitneskju um annað en að að þessu hafi orðið stórbót.

Í fsp. og í ræðu sinni getur hv. fyrirspyrjandi sérstaklega ísingarhættunnar, sem eðlilegt er, og hún er geigvænleg á þessum slóðum, miðunum út af Vestfjörðum, þar sem veðrabrigði eru ákaflega snögg, og einmitt sem liður í baráttu gegn þeirri hættu, sem af ísingunni stafar, er veðurþjónustan eitt sterkasta vopnið.

Þá vil ég taka það fram, að þegar þessar útsendingar um strandstöðvar Landssímans komu til framkvæmda, hafði þegar verið leitað hófanna við brezk yfirvöld um heimild til þess að hafa starfsmann frá Landhelgisgæzlunni um borð í brezka eftirlitsskipinu og yrði hann þá milligöngumaður íslenzka fiskiflotans og skipsins. Ég get upplýst, að sú málaleitan hefur fengið mjög vinsamlegar undirtektir. Brezka eftirlitsskipið, sem hér var í haust, Orzino mun það heita, ef ég man rétt, er fyrir alllöngu farið héðan af miðunum, en von mun á öðru skipi nú um áramótin. Það standa því, eins og ég áður sagði, vonir til að leyfi fáist til að hafa þar um borð starfsmann frá Landhelgisgæzlunni. Ég er ekki viss um, að það sé nauðsynlegt, að hann sé endilega veðurfræðingur, vegna þess að í skipinu mun vera slík þjónusta, sem hinn íslenzki fulltrúi, sem þarna yrði, hefði þá væntanlega aðgang að og gæti komið áleiðis til sinna landa.

Þetta var nú um veðurþjónustuna, en ég vil þá bæta við nokkrum orðum um úthaldstíma varðskipanna á Vestfjarðamiðum. Ég get þar vitnað til fréttatilkynningar þeirrar, sem ég áður gat um, sem send var út frá rn., en um það atriði segir þar orðrétt:

„Um gæzlustörf varðskipanna við Vestfirði upplýsir stjórn Landhelgisgæzlunnar, að áherzla er lögð á, að varðskip sé að staðaldri við Vestfirði, einkum vetrarmánuðina, og hefur hin síðari ár verið lögð æ ríkari áherzla á, að stærstu og bezt útbúnu skipin séu við þá gæzlu. Sem dæmi er tekið, að í jan.–apríl og okt.–des. á s. l. ári var varðskip að jafnaði 23 sólarhringa á mánuði á svæðinu frá Látrabjargi að Horni. Ef með væri tekin varðgæzla við Breiðafjörð og austur að Húnaflóa, er varðgæzlan talsvert meiri, og erfiðasta mánuðinn, janúar, var hún fullur mánuður. Verði lögð áherzla á að halda einnig uppi fyllstu gæzlu við Vestfirði framvegis.“

Svo sem ráða má af framangreindum upplýsingum, er varðgæzla við Vestfirði verulega meiri en á nokkru öðru svæði við landið, enda kemur þar til sérstök nauðsyn vegna veðurfars á þessum slóðum.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en ég hef þá upplýst þau atriði, sem af hálfu dómsmrn. hefur verið hlutazt til um, að úr yrði bætt, eftir því sem ástæður leyfðu, og var þá aðaláherzlan lögð á, að þær úrbætur gætu komið til framkvæmda sem allra skjótast.