26.01.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í D-deild Alþingistíðinda. (4377)

346. mál, dreifing raforku

Fyrirspyrjandi (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin. Það er nú kannske ekki alveg nákvæmlega hægt að bera saman það, sem gert var og gert verður, af þeim tölum, sem fyrir liggja, en þó sýnist mér hætta á, að hér sigi aftur á ógæfuhlið og dragi úr framkvæmdahraðanum á þessu ári. Tel ég það mjög miður farið, ef svo reyndist.

Það eru viss þýðingarmikil atriði, sem ekki komu fram í svörunum, eins og t. d. það, hvað miklu fé þarf að verja til þess að endurgreiða fyrri framkvæmdalán.

Með þessari fsp. hef ég enn viljað undirstrika og leggja áherzlu á nauðsyn þess, að haldið verði áfram dreifingunni af fullum hraða. Þó að það sé seint, sem snúizt hefur verið við því að gera áætlun um lok dreifingarinnar, þá ber að fagna því, að nú hefur þó loks verið snúizt við því að gera áætlun um lokaframkvæmdina. Það kom fram hjá hæstv. ráðh., að þess væri að vænta, að sú áætlun yrði lögð fyrir það þing, sem nú situr, þannig að þá gefst væntanlega kostur á að fara nánar út í einstök atriði þess, sem nú er eftir.

Mér þóttu það líka þýðingarmiklar upplýsingar, sem komu fram, þegar hæstv. ráðh. gat þess, að til sérstakrar athugunar hefði verið að undanförnu hjá Orkustofnun vandamálið um vegalengdir á milli héraða. En eins og unnið hefur verið að framkvæmdum til þessa, þá hafa vegalengdir á milli héraða verið taldar með vegalengdum innbyrðis á milli bæja. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að í reyndinni mun það þykja hagkvæmt að fara langt yfir það mark, sem menn hafa sett sér til þessa, og mér þykir vænt um að heyra það einnig hjá hæstv. ráðh., að það er ekki meiningin að binda sig við einhver alveg ákveðin kílómetramörk á lokasprettinum, heldur verði málin metin hverju sinni án þess að binda sig fyrir fram við slík mörk. Það má kannske segja, að það hafi ekki verið í höfuðatriðum óeðlilegt að fara þá leið, sem farin hefur verið, að taka fyrst þau svæði, þar sem vegalengdirnar eru minnstar, því að þannig var hægt að koma orkunni til fleiri notenda á stuttum tíma, en mér þykir vænt um að heyra, að á lokasprettinum á ekki að binda sig þannig fyrir fram við ákveðnar vegalengdir.