26.01.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í D-deild Alþingistíðinda. (4399)

341. mál, endurvarp sjónvarps frá Reykhólum

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hv. 4. þm. Norðurl. v., þau, sem hann sagði nú síðast. Þetta gildir að sjálfsögðu um svo að segja allar opinberar framkvæmdir hér á landi, að það er hagstæðara að geta unnið þær á þeim tíma, sem veðurfar er bezt. Og verkin tefjast að sjálfsögðu ekki vegna þess, að framkvæmdastjórar útvarpsins (útvarpsráð hefur ekki með þessa hlið málanna að gera) eða verkfræðingar Landssímans sitji á þessum málum og komist ekki til að taka ákvarðanir um framkvæmdir, heldur eru það eingöngu fjárhagsörðugleikarnir, sem valda því.

Það hefur verið útvegað á ýmsan hátt meira fé en eðlilegir fjárstofnar hafa veitt síðustu 3–4 ár. En sú fjármagnsútvegun hefur stundum dregizt, þannig að ekki hefur verið hægt að taka úrslitaákvarðanir um nýjar stöðvar fyrr en svo seint, að til erfiðleika hefur komið við framkvæmdir að hausti til, eins og hv. þm. nefndi.

Ég vil þó taka fram, að þetta á eingöngu við um þær stöðvar, sem reistar eru á stöðum, sem ekki eru aðgengilegir hvað samgöngur snertir, aðallega stærri stöðvarnar. Flestar litlu endurvarpsstöðvarnar eru á öðrum stöðum og ekki meira fyrirtæki en svo, að það skiptir ekki máli, hvenær ársins að þeim er unnið. En þetta er rétt hvað snertir stærri stöðvarnar og stafar eingöngu af því, að það er verið að spenna þessar framkvæmdir áfram til þess að verða við óskum fólksins, sem eru svo eindregnar, að menn taka sig saman í heilum sveitum og bjóða fram lánsfé. Með velvilja fjöldamargra aðila hefur oftast nær verið hægt að vinna meira og vinna verk hraðar en menn höfðu gert sér vonir um í fyrstu. En það hefur stundum kostað þann vanda, sem hv. þm. lýsti.