02.02.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í D-deild Alþingistíðinda. (4450)

340. mál, Kennaraháskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég stend ekki upp til þess að karpa við hv. þm. um byggingarmálefni Kennaraskólans. Hér er um mikilvægari og alvarlegri mál að ræða en svo, að rétt sé eða hyggilegt að gera það að kappsefni hér okkar í milli í fsp.tíma. En ég stend upp til þess eins að veita örlitlar viðbótarupplýsingar við það, sem ég sagði í svari mínu við fsp. Ég tel rétt, að það komi fram, hvers vegna ríkisstj. flutti ekki á s. l. ári till. um sams konar breytingu á kennaranáminu og nú er flutt hér í heilsteyptu frv.-formi.

Það er rétt, sem hv. þm. sagði, að í febrúarmánuði s. l., — ég ætla, að ég fari þar rétt með, — þá skilaði nefndin till. til ríkisstj. um bráðabirgðabreytingu á gildandi lögum um Kennaraskóla, þar sem gert var ráð fyrir því, að inntökuskilyrðum í Kennaraskólann yrði breytt, án þess þó að fullmótuð yrði sú stefna, sem ríkja ætti framvegis varðandi kennaraskólanám á háskólastigi. Breytingin var m. ö. o. um það að takmarka inngöngu í Kennaraskólann á s. l. hausti við stúdenta eina, án þess að nefndin hefði lokið tillögugerð sinni um það, hvernig háskólanámi þessara stúdenta og væntanlegra kennaraefna skyldi hagað. Mér var fullkomlega ljós sá vandi, sem Kennaraskólinn og kennaramenntunin var stödd í, en að vandlega athuguðu máli í ríkisstj. og stjórnarflokkunum varð það niðurstaðan, að ekki væri rétt að efna til bráðabirgðabreytingar á kennaranáminu, þó að það væri að vissu leyti komið í óefni, sem ég skal sízt bera á móti, að átt hefur sér stað sökum þeirrar sprengiþróunar, sem hv. þm. nefndi svo, sem átt hefur sér stað í málefnum Kennaraskólans á undanförnum árum af ástæðum, sem ég er áður búinn að rekja.

Ég ræddi málið líka rækilega við kennarasamtökin, og þau reyndust á þeirri skoðun, að heppilegt væri að ljúka endurskoðun þeirri, sem yfir stóð á kennaramenntuninni, í stað þess að grípa til skyndibreytinga, án þess að vitað væri með vissu, hvert væri stefnt. Þetta var ástæðan til þess, að við fluttum ekki till. um bráðabirgðabreytingu kennaraskólalöggjöfinni í marzmánuði í fyrra, þegar aðeins 1–2 mánuðir voru eftir af starfstíma þingsins. Ég lagði hins vegar sérstaka áherzlu á það við nefndina, að hún hefði lokið störfum nógu tímanlega, til þess að ég gæti lagt frv. fyrir í byrjun þessa þings. Það er kannske eitt með öðru til marks um, hversu flókin og vandasöm mál hér er um að ræða, að nefndin skipuð jafnágætum mönnum og hún er, gat ekki skilað till. fyrir þennan tíma. Það er ástæðan. Ekki ásaka ég hana. Mér er fullljóst, hversu flókið og vandasamt mál hér er um að ræða. Þetta er ástæðan fyrir því, að ríkisstj. hefur ekki getað flutt þetta mál fyrr en nú, eftir að þingið kemur saman aftur að loknu jólaleyfi, en einmitt vegna þess, að málið hefur verið þrautrætt síðan í nefndinni og í kennarasamtökunum og að fjölmörgum þm. hefur verið kunnugt meginefni þess, þá vona ég, að það takist að afgreiða málíð á þeim tíma, sem eftir er þessa þings. Á það legg ég megináherzlu, að það takist, og vona sem sagt, að þar sem þetta mál er rækilega undirbúið, verði þinginu kleift að afgreiða málið, þó að stórt sé, á nokkrum mánuðum. En sannleikurinn er sá, að það hefur t. d. tekið langan tíma að móta samræmda afstöðu til þess, hvort kennaraháskólanámið eigi að taka tvö eða þrjú ár. Um það hafa verið skiptar skoðanir til tiltölulega skamms tíma. Ég veit ekki einu sinni, hvort fullkomin eining er orðin um þetta mál enn, t. d. innan kennarastéttarinnar. En í nefndinni varð niðurstaðan sú, að kennaraháskólanámið skyldi skipulagt sem þriggja ára nám og ríkisstj. hefur gert þá stefnu nefndarinnar að sinni. Þess vegna er frv. eins og það er.

Auðvitað hefur Kennaraskólinn yfir meira húsnæði að ráða en nýju byggingunni. Það hefur þurft að notast við fleiri byggingar en hana eina, og það hefur tekizt, þó að vissulega hefði þurft að vera miklu rýmra um bæði kennara og nemendur en tekizt hefur, en vonandi á það nú að geta staðið til bóta. Hitt ítreka ég, að það er ekki eðlilegt, að endanlegar ákvarðanir hafi verið teknar undanfarin 2–3 ár um framtíðarhúsnæði Kennaraskólans, eftir að komin var upp sú hugmynd að gerbreyta öllu kennaraskólanáminu og gera á því svo stórkostlega breytingu að breyta því úr framhaldsskólanámi, úr menntaskólanámi á sérsvíði í háskólanám. Þar er um að ræða stórkostlega stökkbreytingu, og það hefði verið fullkomið ábyrgðarleysi að taka endanlegar ákvarðanir um það, yfir hvers konar kennsluhúsnæði Kennaraskólinn skyldi hafa að ráða, fyrr en stefna hefði verið mörkuð í þessu máli. Og það vildi ég staðhæfa, að varðandi þá stefnumörkun hefur ekki staðið á ríkisstj. Þetta segi ég skýrt og undirstrika.

Um stefnumörkunina í menntunarmálum kennarastéttarinnar hefur ekki staðið á ríkisstj., heldur á því, að samræmd tillögugerð hafi fengizt af hálfu sérfróðra manna og af hálfu þeirra manna, sem láta sig kennaramenntunina mestu varða. Það þarf enginn að vera hissa á því, sem þekkir til endurskoðunar löggjafar um skólamál hér og erlendis, þó að það taki 3–5 ár að marka samræmda og skynsamlega lokastefnu í jafngeysilegu vandamáli og það er, hvernig kennaramenntun landsins skuli hagað. Ég þekki ekkert dæmi þess, að undirbúningur þeirra breytinga, sem gerðar hafa verið eða er verið að gera í kennaramenntunarmálum nálægra landa, hafi tekið skemmri tíma en 3–5 ár. Norðmenn eru t. d. núna að endurskoða löggjöf sína um kennaramenntun. Ég held, að ég fari með rétt mál, að samning frv. um það efni hafi tekið ein þrjú ár. Það var lagt fyrir Stórþingið árið 1968 og hefur ekki verið afgreitt enn. Það eru m. ö. o. 4–5 ár síðan endurskoðun þess máls í Noregi hófst og er ekki lokið enn. Þess vegna held ég, að enginn þurfi að vera hissa á því, þó að það hafi þurft að taka nokkur ár hér að mynda sér skynsamlega og rökstudda stefnu í þessum málum, en meðan mál eins og þetta eru á döfinni, er auðvitað ekkert vit í því að taka endanlegar ákvarðanir um byggingarmál. Hitt þarf að koma á undan, eins og ég sagði í svari mínu. Þegar stefnan hefur svo verið mörkuð, þá treysti ég því, að fjárveitingavaldið fallist á að veita það fé, sem nauðsynlegt er til þess, að hægt sé að halda þessari menntun uppi, svo að sómasamlegt sé.

Varðandi það, að ég hafi bannað skólastjóranum að láta teikna byggingar á s. l. ári, er það að segja, að það er rétt, að skólastjórinn orðaði þá hugmynd í menntmrn., hvort ekki væri rétt að láta hefja teikningar. En ég veit ekki betur en orðið hafi fullkomið samkomulag um það, að það væri ekki tímabært fyrr en betur sæi fyrir endann á því, hvaða stefna yrði ofan á í kennaraskólamálinu. Þegar síðan skólastjórinn óskaði eftir því í lok ársins, að undirbúningur yrði hafinn undir byggingar með hliðsjón — þetta legg ég áherzlu á — með hliðsjón af þeirri stefnu, sem þá var nokkurn veginn talið víst, að mundi verða ofan á um menntunarmálin sjálf, þá féllst ég á það, að þessi undirbúningur hæfist. Og sá undirbúningur, sem nú er í gangi, — og það vona ég, að hv. Alþ. hafi ekki við að athuga, — er að verulegu leyti gerður í trausti þess, að það frv., sem hér hefur verið lagt fram, nái samþykki á þessu Alþ. Allur undirbúningur, sem miðaður er við gömlu kennaraskólalöggjöfina, yrði út í hött og verri en gagnslaus. Þar væri verið að fleygja peningum og vinna að hugmyndum, sem aldrei mundu koma til framkvæmda. Ég segi þetta til frekari skýringa á því, sem ég sagði í svari mínu við fsp. hv. þm.