07.12.1970
Efri deild: 27. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í B-deild Alþingistíðinda. (448)

161. mál, tollskrá o.fl.

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki hér við 1. umr. um þetta mál að stofna til neinna allsherjarumræðna og skal ekki gera það. Ég ætla aðeins að víkja að þeim atriðum, sem komu fram í ræðu hæstv. fjmrh. og snerta það mál, sem ég flutti áðan.

Ég vil þá til að taka þetta í sömu röð og hann gerði lýsa því yfir hér, að ég get vel fellt mig við það, að athugun á bráðabirgðaákvæðinu bíði, þangað til n. fær frv. til meðferðar, og skal ekki orðlengja frekar um það hér. En ég mun þar fara fram á frekari og skýrari rökstuðning fyrir þessu heimildarákvæði — þótt hugsanlegt sé, að það verði ekki notað — hvers vegna það er nauðsynlegt eða telst nauðsynlegt og hvaða tilgangi það á að þjóna. Hæstv. ráðh. sagði, að það mundi ekki við þetta tækifæri gefast tóm til þess að skoða tollalöggjöfina í heild. Það má vel vera, að svo sé, og raunar vék ég að því í minni fyrri ræðu.

En ég vil, og til þess stóð ég upp, undirstrika það, að þær till., sem ég lýsti, að fulltrúar Framsfl. hefðu flutt við meðferð málsins í janúarmánuði s. l., lúta mjög eindregið að þeim breytingum, sem þá voru gerðar á tekjuöflun ríkissjóðs. Annars vegar er þar um að tefla frekari hagræðingu í iðnaði til þess að mæta þeim innflutningi, sem hann fyrirsjáanlega verður að mæta, þegar tollarnir lækka, svo sem gert var og svo sem áfram verður gert. En hins vegar er sú verðhækkun á tækjum og vélum til landbúnaðar og sjávarútvegs, sem varð bein afleiðing af því raski, sem gert var á skattlagningu af ríkisins hálfu, þar sem tollur er annars vegar lækkaður ofurlítið og hins vegar ekkert lækkaður til þess að mæta söluskattshækkun, sem lögð er á og leiðir beint af því, sem hér hefur margsinnis verið tekið fram, þ. e. aðild okkar að Fríverzlunarsamtökum Evrópu. Þess vegna get ég með engu móti fallizt á, að þessar brtt. séu þessu máli óviðkomandi, hvað sem segja má, og ég get tekið undir það að nokkru leyti, sem hæstv. ráðh. sagði um endurskoðun tollskrárinnar að öðru leyti. Þess vegna endurtek ég það, að ég mun flytja þessar brtt., og ég mun fara fram á stuðning hv. þdm. við þær, vegna þess að ég tel það fullkomlega eðlilegt og samkv. eðli málsins, að þær séu til umr., þegar breytingar vegna EFTA-aðildarinnar komast hér á dagskrá.

Hæstv. ráðh. vék að því, sem ég gerði að umtalsefni, að afgreiðslu tollskrárbreytinganna í fyrra var frestað. Hann greindi frá þeim ástæðum, sem hæstv. ríkisstj. hafði til þess að óska hraðrar afgreiðslu. Því hef ég aldrei mótmælt. Ég veit það vel, að ástæðan var þessi, sem hæstv. ráðh. greinir. En það breytir ekki því, sem ég hér sagði, að við endurskoðun frv. kom það í ljós, að það voru á því svo margir gallar, að það þurfti um 200 brtt. til þess að koma því í það horf, sem hæstv. ríkisstj. vildi endanlega hafa l., því að allar þær brtt., sem samþykktar voru við frv., voru fluttar af talsmönnum hæstv. ríkisstj. í fjhn. beggja d., svo að ég held, að það sé nokkuð ljóst, að sú frestun, sem varð á afgreiðslu málsins, hafi verið mjög svo þörf, að ekki sé meira sagt og hitt sé þá einnig rétt frá greint, að vegna þess að komast átti hjá þinghaldi í janúar, þá var það ætlun hæstv. ríkisstj., að frv. yrði að l. fyrir jól.