23.02.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í D-deild Alþingistíðinda. (4530)

204. mál, Sementsverksmiðja ríkisins

Daníel Ágústínusson:

Herra forseti. Ég vil benda hv. flm. þessarar fsp., Jónasi Árnasyni, á það, að orðalag hennar er á þá lund, að óvissa og bráðabirgðaástand hafi þjakað rekstur verksmiðjunnar á þriðja ár og skapað óánægju og óvissu hjá starfsliði hennar. Nú sagði hann í ræðu sinni hér áðan, að hann hefði átt við þjakaðan verksmiðjurekstur en ekki þjakað starfsfólk, en þetta hangir nú raunar allt saman samkv. fsp., og þess vegna vildi ég alveg sérstaklega benda á það, að sú óánægja og sú óvissa og sú þjökun, sem þar ræðir um, kom ekki fram hjá starfsliðinu, eins og ég gat um áðan.

En það er vert að minnast á það, fyrst ég fór aftur upp í ræðustólinn, að það er önnur þjökun, sem verksmiðjan hefur orðið fyrir. Árin 1967 og 1968 hækkuðu skuldir hennar úr 300 millj. kr. upp í 500–600 millj. kr., og var það vissulega mjög erfitt á sama tíma sem sementssalan stórminnkaði, og hefur þetta valdið verksmiðjunni gífurlegum erfiðleikum og verið mikil þjökun í sambandi við viðskipta- og fjármál hennar.

Þá er önnur þjökun, sem ég vil líka koma að í þessu sambandi. Það er, að hæstv. ráðh., sem með þessi mál hefur farið, hefur tekið ákaflega einkennilega afstöðu til þeirra erinda, sem ég hef sent honum í sambandi við þá rannsókn, sem staðið hefur yfir vegna misferlis á rekstri verksmiðjunnar, og ég tel, að ekki sé viðhlítandi, vegna þess að það er, skoðun mín, að hv. rn. og ekki sízt dómsmrn. þurfi að halda fast á þessum málum, en láta það ekki viðgangast, að farið sé með fjármuni ríkisins eftir geðþótta einstakra manna. Það er mjög miður farið, að hæstv. ráðh. hefur ekki tekið þá afstöðu í þessu máli, sem ég tel, að hann hefði átt að gera, hreina og skýra afstöðu til þess að bjarga heiðri verksmiðjunnar og heiðri ríkisins í þessu sambandi. En þar hefur skort mikið á. Endurteknar gengisfellingar og linleg afgreiðsla hæstv. ráðh. á misferli verksmiðjunnar er þjökun, sem vert er að vekja athygli á og ræða.