02.03.1971
Sameinað þing: 29. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í D-deild Alþingistíðinda. (4550)

355. mál, þingskjöl og Alþingistíðindi

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Fsp. hv. þm. á þskj. 371 hefur skrifstofustjóri Alþingis svarað eða látið mér í té svör við á eftirfarandi hátt. Ég vil aðeins segja það, áður en ég vík að því, að það er góðra gjalda vert, að þm. hafa áhuga fyrir því að koma þessum málum í sem hagkvæmast horf á hverjum tíma.

Spurt er í fyrsta tagi, hver hafi verið árlegur útgáfukostnaður síðustu þrjú árin á þingskjölum og skjalaparti Alþingistíðinda og umræðuparti Alþingistíðindanna.

Útgáfukostnaðurinn síðustu þrjú árin hefur verið þessi: 1968, á skjalaparti, þar með talin þingskjöl, 1 millj. 334 þús. kr., á umræðuparti 2 millj. 147 þús. kr.; 1969, á skjalaparti 1 millj. 172 þús. kr., á umræðuparti 2 millj. 904 þús. kr.; 1970, á skjalaparti 2 millj. 698 þús. kr., á umræðuparti 1 millj. 122 þús. kr.

Í öðru lagi er spurt, hve mikið sé óprentað af umræðuparti Alþingistíðinda.

Prentun umræðna á þinginu 1964–1965 er lokið að mestu. Prentun umræðna á þinginu 1965–1966 er langt á veg komin. Prentun er hafin á umræðum á þingunum 1966–1967, 1967–1968 og 1968–1969, en skemmra á veg komin. Ekki er enn hafin prentun á umræðum á síðasta þingi, 1969–1970, og ekki heldur umræðum á yfirstandandi þingi.

Í þriðja lagi er spurt, hvort ekki séu ráðagerðir um breytingar á útgáfufyrirkomulagi þingskjala og Alþingistíðinda, sem leitt gætu jöfnum höndum til aukinnar hagkvæmni og sparnaðar.

Ríkisprentsmiðjan Gutenberg hefur jafnan annazt prentun þingskjala og skjalaparts Alþingistíðinda. Hvert þskj. er sett einu sinni og sama sátur notað við sérprentun þess, prentun þess á skjalaparti, stundum tvisvar eða oftar títt breytt, og enn fremur er það notað við sérprentun laga og prentun laga í Stjórnartíðindum, þegar frv. hafa verið samþ. sem lög. Er af þessu fyrirkomulagi mikill vinnusparnaður við setningu og prófarkalestur, og er ekki sýnt, að önnur aðferð henti betur, eins og nú standa sakir. Ríkisprentsmiðjan Gutenberg prentaði á tímabili allan umræðupart Alþingistíðinda, en hefur nú um 30 ára skeið ekki haft starfskrafta til að annast þá prentun nema að litlu leyti. Hefur því verið leitað til annarra prentsmiðja og samið við þær um prentun umræðna á svipuðu verði og er hjá Ríkisprentsmiðjunni Gutenberg.

Útgáfa umræðuparts Alþingistíðinda hefur lengst af þennan tíma dregizt lengur en skyldi. Hefur þó verið stefnt að því að vinna upp það, sem dregizt hefur aftur úr, og nú er unnið í sex prentsmiðjum að prentun umræðuparts frá fimm þingum, og standa vonir til, að unnt reynist að koma prentun umræðupartsins í gott horf, þótt óhjákvæmilega taki það talsverðan tíma. Á viðskiptum við hinar sex prentsmiðjur eru þó þau vandkvæði, að þær hafa allar ýmis verkefni frá öðrum viðskiptamönnum sínum, misjafnlega mikil eftir árum og árstímum, en flest þeirra bundin við bókaútgáfu á haustin. Er yfirleitt auðsótt að fá prentsmiðjur til að vinna að prentun framan af ári, en örðugra um vik frá því er sumarleyfi hefjast og fram undir árslok.

Ef vel ætti að vera, þyrfti að vinna að útgáfu umræðuparts Alþingistíðinda sem jafnast allt árið. Undanfarið hefur það ekki reynzt unnt, og er því reynt að vinna sem hraðast að útgáfu með þeim hagkvæmasta og ódýrasta hætti, sem kostur er á. Ekki er því að neita, að óhagræði er að þeim töfum, sem orðið hafa á prentun umræðuparts Alþingistíðinda, en sú er bót í máli, að aðgangur er að óprentuðum umræðum í handriti og afrit af þeim eða ljósrit látin í té, þegar þörf krefur.

Engar ráðagerðir eru uppi um breytingar á útgáfu Alþingistíðinda, sem leitt geti til verulegs sparnaðar, enda kappkostað, að vinna við útgáfu þeirra sé sem hagstæðust og prentun á sanngjörnu verði. Að sjálfsögðu eru jafnan athuguð þau úrræði, sem leitt geta til aukinnar hagkvæmni og aukins sparnaðar við útgáfu Alþingistíðinda, og ný tækni í prentiðn kann áður en langt um líður að leiða til hagkvæmra breytinga á því sviði.