16.03.1971
Sameinað þing: 34. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í D-deild Alþingistíðinda. (4599)

357. mál, stofnlán fiskiskipa

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki bæta miklu við þessar umr., en þannig er mál með vexti, að lán þau, sem hér hefur verið rætt um, er numið hafa 10% af stofnverði fiskibáta, hafa undanfarið verið veitt í erlendum gjaldeyri, þannig að þar er um gengistryggingu að ræða. Nú á ekki að veita þessi lán lengur, en í staðinn koma lán, sem eru aðeins 5% af stofnverði, og ég vil spyrja hæstv. forsrh., hvernig fari með þau lán, hvort þau verði veitt í íslenzkum eða erlendum gjaldeyri. Má vera, að hann hafi upplýst það áðan, en ég hef þá ekki tekið eftir því, en ég vil gjarnan fá þetta upplýst. Jafnframt vil ég nota tækifærið til að taka undir það, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði hér áðan, að eðlilegast væri nú, að fiskveiðasjóðslánin yrðu hækkuð upp í 85% og að auki kæmu svo þessi 5%, sem Atvinnujöfnunarsjóður veitir eða telur á sínu starfssviði að veita.