23.03.1971
Sameinað þing: 36. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í D-deild Alþingistíðinda. (4622)

360. mál, friðlýsing Eldborgar

Birgir Kjaran:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að láta Eldborgina gjósa neitt, en aðeins að segja nokkur orð frá sjónarmiði Náttúruverndarráðs um þetta atriði, sem hér er á dagskrá.

Það er alveg rétt, að þetta er búin að vera nokkuð löng saga um kannske ekki mjög stórt mál. Eysteinn Jónsson hreyfði málinu fyrst 1968, að mig minnir, og síðan var það tekið til meðferðar í Náttúruverndarráði, og ég er hér með það, sem þar gerðist, ef ég mætti lesa upp, með leyfi forseta, bréf, sem var skrifað menntmrn. á sínum tíma og hljóðar þannig:

„Náttúruverndarráð hefur samþykkt að friðlýsa gíginn Eldborg við Drottningu í Gullbringusýslu. Nánari grein er gerð fyrir staðsetningu og mörkun hins friðlýsta svæðis á meðfylgjandi korti og frummynd.

Eldborg við Drottningu er ein af þremur eldborgum, sem vitað er um í landinu, en þessi tegund eldstöðva er ekki þekkt utan Íslands. Fyrirhuguð vegarlagning til þessa staðar mun auka mjög umferð almennings, en gígmyndun þessi er mjög viðkvæm fyrir átroðningi og umferð gangandi fólks. Náttúruverndarráð mun beita sér fyrir því, að komið verði upp leiðbeiningum fyrir ferðamenn á merktum gönguleiðum.

Ráðið leyfir sér hér með að senda hinu háa rn. uppkast að auglýsingu um friðlýsingu Eldborgar við Drottningu ásamt loftmynd, korti, sem sýnir staðsetningu friðaða svæðisins.“

Við fengum svo svar, sem hæstv. ráðh. las hér upp áðan, og þar var okkur ætlað að kanna, hvaða kostnað þetta mundi hafa í för með sér. Okkur hefur ekki tekizt það fremur en honum, og hef ég ekki heyrt áður, hversu mikla vinnu rn. hefur lagt í að kanna það. Hitt held ég, að augljóst sé, að aldrei munu verða gerðar mjög háar fjárkröfur af hendi eigenda fyrir þessa spildu, sem þarna er um að ræða, svo að mér er nær að halda, að óhætt væri að friðlýsa þennan stað, án þess að mjög mikil áhætta væri tekin. Það hvarflar ekki að mér, að háar fjárkröfur geti komið þarna til greina, þótt enn hafi ekki tekizt að fá það staðfest, hverjar þær mundu verða, ef nokkrar yfirleitt.

Ég ætla ekki að fara að ræða hér náttúruverndarmál almennt, vegna þess að þau koma hér til umr. í deildinni vonandi fljótlega eftir að frv. það, sem nú liggur fyrir þinginu, hefur verið rætt í Ed. og afgr. þaðan, en ég vildi mjög taka undir það, sem þm. Eysteinn Jónsson, 1. þm. Austf., sagði um þetta mál. Það er ágætt út af fyrir sig, að það skapist umr. um það á löggjafarsamkundunni, því að þetta sýnir okkur, hvað við höfum verið skammsýnir og smámunalegir í okkar náttúruverndarmálum. Þegar náttúruverndarfrv. verður rætt, skal ég færa fram tölur, sem sýna, hvað hlutur Íslands í náttúruverndarmálum stendur langt að baki því, sem þekkist í öðrum siðmenntuðum löndum, hvað fjárframlög ríkis og hins opinbera til þeirra hluta áhrærir.

Ég vil vænta þess, að þessu frv. verði vel tekið hér í d., en sé ekki ástæðu til að deila um þetta Eldborgarmál að öðru leyti en því, að upp hefur komið allsmámunalegur ágreiningur um, hjá hverjum auglýsingarskyldan sé í þessu efni. Sá háttur hefur verið á hafður að undanförnu, að eftir að menntmrn. hefur samþykkt aðgerðir eða gert samþykktir um friðlýsingu eða þjóðgarða eða annað því um líkt, hefur það auglýst þau fyrirmæli, en nú virðist vera ætlunin, að Náttúruverndarráð annist það. Nú skal það ekki vera til fyrirstöðu út af fyrir sig, þó að við höfum ekki mikla peninga til auglýsingakostnaðar.