23.03.1971
Sameinað þing: 36. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í D-deild Alþingistíðinda. (4628)

361. mál, læknadeild háskólans

Fyrirspyrjandi (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það eru ekki fáir hv. alþm. í þessum sal, sem hafa barizt við læknamál dreifbýlisins áratugum saman, og vitaskuld er þetta okkur mörgum afar ofarlega í huga og leiðir til þess að bæta úr læknaskortinum. Það hafa verið gerðar margar skynsamlegar ráðstafanir til þess að búa í haginn fyrir héraðslækna, og satt að segja hélt maður, að læknaskortur dreifbýlisins væri að leysast smátt og smátt, eftir því sem miðað hefur þó í áttina í þessu efni. En þó fer því náttúrlega fjarri, að héraðslæknum séu enn sem komið er búnir nægilega góðir kostir, þó að margt hafi verið lagfært í því efni. En til þess að hafa ekki langan formála að þessari fsp., þá vil ég snúa mér beint að því að segja þá skoðun mína, að ég er orðinn alveg sannfærður um, að tæknaskorturinn í dreifbýlinu verður aldrei læknaður, hversu vel sem búið er í haginn fyrir héraðslæknana, nema fleiri læknar útskrifist en verið hefur. Læknarnir eru ekki til. Það vantar lækna. Við getum ekki bannað íslenzkum læknum að leita sér atvinnu erlendis. Slíkt kemur ekki til greina. Það fer alltaf nokkur hluti þeirra, sem útskrifast, utan til þess að vinna, og við því er ekkert að segja. Það verður að hafa það. En við fáum alltaf verulegan kvóta til þess að starfa innanlands af þeim, sem útskrifast, og ég er alveg sannfærður um, að þessi hópur er hreinlega of lítill. Það þarf að útskrifa fleiri lækna. Ég held, að þeir, sem eru nauðakunnugir þessum málum, eins og við erum margir þm. eftir áratuga starf að þessum efnum, séu alveg sannfærðir um þetta. Ég þori ekki að nefna neina tölu í þessu sambandi. Ég býst ekki við, að það þyrfti að vera stór hópur, sem bættist við tölu þeirra, sem nú þegar útskrifast, til þess að sæmilega væri séð fyrir þessum málum, en hitt vil ég fullyrða, að læknarnir eru of fáir.

Út frá þessu vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. menntmrh., því ég vil gjarnan fá umr. um þetta og skýringar á því, hvers vegna ekki útskrifast fleiri læknar. Varla er það vegna þess, að það séu ekki fleiri Íslendingar hæfir til þess að nema læknisfræði en þeir, sem verða læknar, eða að það séu svo fáir af þeim, sem hæfir eru, sem vilja leggja þetta nám fyrir sig. Það hlýtur að vera eitthvað annað, sem hér kemur til greina. Það hljóta að vera einhverjir þröskuldar í læknadeildinni af einhverju tagi, sem þyrfti að vinna að því að lækka eða taka á brott. Eitt af því, sem manni kemur í huga, er þetta, sem hér er spurt um, en fsp. er á þessa lund:

„Skortir læknadeild Háskólans húsrými eða aðra aðstöðu til þess að útskrifa fleiri tækna en gert hefur verið undanfarin ár?“