30.03.1971
Sameinað þing: 38. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í D-deild Alþingistíðinda. (4657)

363. mál, Fræðslumyndasafn ríkisins

Fyrirspyrjandi (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Á þskj. 454 hef ég leyft mér að flytja svo hljóðandi fsp. til menntmrh. um starfsemi Fræðslumyndasafns ríkisins:

„Er það með vitund og vilja menntmrn., að Fræðslumyndasafn ríkisins sendir frá sér áróðursmyndir frá NATO til notkunar við landafræðikennslu í barna- og unglingaskólum?“

Tilefni þessarar fsp. er kvikmynd, sem sýnd var við landafræðikennslu í einum bekk unglingaskóla hér á næstu grösum fyrir um það bil fjórum vikum eða nokkrum dögum áður en ég flutti þessa fsp. Kennarinn hafði ákveðið að nota þennan tíma til þess að sýna nemendum kvikmyndir frá ýmsum þeim löndum, sem þeir höfðu verið að læra um undanfarið, og af hálfu skólans hafði því fyrir þennan tíma verið leitað til Fræðslumyndasafns ríkisins og beðið um kvikmyndir frá þessum löndum. Myndirnar höfðu verið sendar og kennslustundin hófst með því, að sýndar voru myndir frá Egyptalandi, Hong Kong og Japan. Þessar myndir voru eðlilegar landafræðikennslumyndir, þar sem sýnt var landslag, byggingar og atvinnuvegir þessara þjóða. Aðalgalli þessara kvikmynda var sá, að þær voru hvorki með íslenzku tali eða íslenzkum texta. Að öðru leyti voru þær góð og gild kennslugögn í landafræði. Þá var gripin mynd, sem var innan um hinar og var frá Tyrklandi. Fyrst birtust á tjaldinu nöfn ýmissa ríkja ásamt nafni Tyrklands, nöfn, sem hvorki nemendur né kennarar, sem viðstaddir voru, sáu í hendingu, hvað komu sérstaklega Tyrklandi við né hvað áttu yfirleitt sameiginlegt, þar til yfir allt tjaldið birtust bókstafirnir NATO. Þá rann ljós upp fyrir áhorfendum. Þeim var ljóst, hvaða þjóðir voru hér spyrtar saman í upphafi landafræðikennslumyndarinnar um Tyrkland. Þessi kvikmynd, sem Fræðslumyndasafn ríkisins sendi til notkunar við landafræðikennslu, var með öðrum orðum búin til af NATO, enda þótt þess sæjust engin merki á umbúðunum. Þar stóð aðeins Tyrkland.

Um myndina er það að segja, að hún hafði það fram yfir allar hinar myndirnar frá Fræðslumyndasafninu, að hún, þessi NATO-mynd, var með íslenzku tali. Þar var lögð áherzla á mikilvægi Tyrklands fyrir Atlantshafsbandalagið og hversu ómissandi liður í hernaðarbandalaginu her þessarar þjóðar væri. Það er sá sami her, sem þessa dagana er að segja stjórnmálamönnum þar fyrir verkum og hótar beinni valdatöku inn á milli landslagsmynda og kafla í kvikmyndinni, sem gátu talizt eðlilegir þættir í fræðslumynd og kennslumynd fyrir skóla, var skotið köflum frá heræfingum, þar sem sýnd var meðferð á tilheyrandi morðtólum, sprengjuvörpum, skriðdrekum, fallbyssum og þess háttar útbúnaði hersins. Enn eitt í þessari NATO-kvikmynd kom áhorfendum kynduglega fyrir sjónir. Svo mikil áherzla sem lögð hefur verið á fræðslu um skaðsemi reykinga og áróður gegn sígarettunotkun, einkum unglinga, þá þótti áhorfendum undarlegur sá kafli myndarinnar, þar sem sýndir voru saman við borð bandarískur hershöfðingi, grískur hershöfðingi og tyrkneskur í kófi af sígarettureyk, en frá andlitum þeirra og reykkófinu umhverfis þau var kvikmyndavélinni síðan beint að öskubakka á borðinu og út í myndrammann fylltu þrír sígarettupakkar hlið við hlið, Lucky Strike frá Bandaríkjunum, Hellas frá Grikklandi og einhver tegund, sem augsýnilega hlaut að vera frá Tyrklandi. Þarna var auk hernaðarbandalagsins búið að koma á einhverju táknrænu sígarettubandalagi, sem sérstaklega varð að vekja athygli skólabarnanna og unglinganna á. Þessi sígarettusvipmynd var eitt af því, sem Fræðslumyndasafni ríkisins virðist þykja brýn þörf á að koma fyrir augu íslenzkra ungmenna í landafræðikennslu. Og þessi áróðurskvikmynd fyrir tiltekið hernaðarbandalag, sem Fræðslumyndasafnið læðir inn í skólana með öðrum nothæfum og ágætum myndum, var sú eina, sem svo mikið var haft við, að henni fylgdi íslenzkt tal. Hinar, sem voru án áróðurs og voru eðlilegar kennslukvikmyndir, eru sendar út án íslenzks tals eða íslenzks texta.

Í lögunum um Fræðslumyndasafn ríkisins er á þann hátt lögð áherzla á pólitískt hlutleysi þessarar stofnunar, að sérstaklega er tekið fram, að auk útlána til skóla og fræðslusafna skuti einungis lána myndir til félaga, sem standa öllum opin án tillits til stjórnmálaskoðana, þ. e. í lögunum er gert ráð fyrir svo mikilli varfærni, að bannað er í rauninni að lána pólitískum flokkum venjulegar fræðslumyndir. Mönnum getur sýnzt sitt hvað um þörfina á svo ströngum reglum, en þær sýna afstöðu löggjafans á sínum tíma. Þrátt fyrir þennan anda laganna leyfir stofnunin sér að senda skólum áróðursmyndir frá hernaðarbandalagi til kennslu í landafræði. Ég veit til þess, að skólar hafa fengið kvikmyndir frá erlendum sendiráðum og tekið þeim með eðlilegri varfærni og aðgát. En að sjálfsögðu hafa skólayfirvöld talið, að óhætt væri að treysta sjálfu Fræðslumyndasafni ríkisins, en reynslan sýnir, að því trausti hefur stofnunin brugðizt.

Samkv. því, sem ég hef hér rakið og ég veit með fullri vissu, að hefur átt sér stað, tel ég óumdeilanlegt, að Fræðslumyndasafn ríkisins er bert að því að hafa sent frá sér til landafræðikennslu áróðurskvikmynd, útbúna af NATO, og það tel ég gróft hneyksli. Ég tel, að hv. Alþ. eigi rétt á að fá að vita, hvort þær athafnir stjórnenda Fræðslumyndasafnsins hafa verið með vitund og vilja menntmrn., og því er þessi fsp. borin fram. Sé það svo, að þessi útbreiðslustörf Fræðslumyndasafnsins í þágu NATO hafi verið unnin án vitundar og vilja menntmrn., þá óska ég eftir upplýsingum frá hæstv. ráðh., sem er æðsta yfirvald þessarar stofnunar, hvernig hann hyggst bregðast við því, sem orðið er, hvort rn. muni beita sér fyrir því, að Fræðslumyndasafnið leggi í eitt skipti fyrir öll niður þessa þjónustu fyrir hernaðarbandalagið, eða hvort hæstv. rn. hyggst láta það afskiptalaust, að stofnunin haldi áfram uppteknum hætti í þessu efni.