18.12.1970
Efri deild: 39. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (477)

161. mál, tollskrá o.fl.

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það er auðvitað gott og sjálfsagt að hafa tollskrárlögin eins fullkomin og verða má, en ég lýsi nokkurri furðu á því, að hæstv. fjmrh. skuli upplýsa, að þær brtt., sem gerðar voru í Ed. á frv., hafi við nánari athugun reynzt svo ófullkomnar, að það hafi þurft 20–30 brtt. til þess að skýra þær. Ég er út af fyrir sig ekki hissa á því, þó að við, sem eigum sæti í d., séum ekki kannske menn til þess að búa tollskrána þannig úr garði, að hún sé 100% fullkomin, en ég minni á, að til aðstoðar n. voru embættismenn fjmrn. og þeir voru með í ráðum um að útbúa þessar till. Og ég lýsi því hér með yfir, að við vorum í góðri trú í því — a. m. k. nm. fjhn., að við værum að gera tollskrána þannig úr garði, að hægt væri að starfa eftir henni. Og furða ég mig á því, að það skuli hafa komið í ljós, að svo reyndist ekki, þegar þess er gætt, hvaða aðstoðar við nutum. Það er alveg rétt, sem hv. form. fjhn. Ed. upplýsti hér, að mörg atriði af því, sem bætt er við í Nd., vildum við, að ég hygg, flestir, ef ekki allir nm. gjarnan taka inn, en það var vegna þeirra upplýsinga, sem lágu fyrir frá starfsmönnum fjmrn. um, að málin væru ýmist svo örðug í framkvæmd eða svo kostnaðarsöm, að það þætti ekki fært. Ég vildi gjarnan að þetta kæmi fram, að það, sem form. okkar upplýsti um það, er algerlega rétt.