16.12.1970
Neðri deild: 35. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í B-deild Alþingistíðinda. (517)

6. mál, Lífeyrissjóður bænda

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég held, að allir þeir hv. ræðumenn, sem tekið hafa til máls um þetta frv., hafi mælt á þá leið, að reynslan þurfi að skera úr því, hvernig þessi lög muni reynast, og ég held, að allir beri nokkurn kvíðboga fyrir því, að hér sé um mjög gallað frv. að ræða. Þeirrar skoðunar er ég líka. En einn hv. þm., 3. þm. Norðurl. v., hefur mælt hér mjög harðlega gegn frv. og talað af fullri alvöru og flutt margar röksemdir gegn málinu. Nú er það varla á færi okkar að hrekja eða samþykkja allar þær tölulegu upplýsingar, sem hann hefur komið með. En ég er sannfærður um, að hann hefur ákaflega mikið til síns máls. Það kann að vera, að hann hafi eitthvað ofmælt eins og oft vill koma fyrir, en ég efast ekkert um það, að hann hafi líka margt rétt að mæla. Mér finnst því full ástæða til, að það sé sett það ákvæði inn í þessi lög, að þau skuli endurskoðuð innan skamms tíma, og þess vegna höfum við þrír þm. leyft okkur að flytja skrifl. brtt. við frv., sem hljóðar þannig:

„Lög þessi skulu endurskoðuð fyrir árslok 1972.“ Með þessu viljum við tryggja það, að ágallar þessa frv. verði ekki til frambúðar, og með því erum við að gefa bændastéttinni, samtökum bænda í landinu, vísbendingu um það, að þeir skuli nú þegar, eftir að lög þessi hafa verið sett, bera saman ráð sín, skoða rækilega þessi nýju lög og undirbúa till. um breytingar á þessum lögum, svo að þau verði endurskoðuð innan tveggja ára eða eftir tvö ár. Við, sem flytjum þessa till., erum Sigurvin Einarsson, Þórarinn Þórarinsson og Ágúst Þorvaldsson. Ég vil því biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir þessari skriflegu brtt., svo að hún geti komið hér til umr. og atkvgr. Hún er ósköp einföld og felur ekkert annað í sér en þetta að tryggja það, að l. verði endurskoðuð ekki síðar en fyrir árslok 1972.