16.12.1970
Neðri deild: 35. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

6. mál, Lífeyrissjóður bænda

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., enda ástæðulaust. Það hefur áður komið fram, og ég vil aðeins leggja á það áherzlu, að þó að þetta frv. hafi verið undirbúið af stjórnskipaðri n. — að tilhlutan hæstv. landbrh. á sínum tíma — þá var það í framhaldi af samþykktum bæði Stéttarsambands bænda og Búnaðarþings, sem eru þeir aðilar, sem út á við hafa komið fram fyrir hönd bænda. Varðandi það atriði, sem hv. 9. þm. Reykv. nefndi hér, að stéttarsamtök bænda héngju í lausu lofti og stéttarsambandið mundi ekki hafa vald til þess að binda bændur að þessu leyti, þá er það vitanlega rétt, að stéttarsambandið hefur það ekki, og það má vera, að það sé nauðsyn að koma fastara formi á félagsskap bænda. En mér er ekki heldur kunnugt um, að Alþýðusamband Íslands hafi neina heimild til að binda verkalýðsfélögin, t. d. í sambandi við það að leggja á þau kvaðir um lífeyrissjóð og annað. (Gripið fram í.) Ekki nema stéttarfélögin hafi samþykkt það, nei. Þannig að . . . (Gripið fram í.) Já, en sú forsenda þarf að vera fyrir hendi, að stéttarfélögin hafi samþykkt það, til þess að Alþýðusambandið geti gert slíkt. Og meira að segja var það talið nauðsynlegt að festa með l. ákvæðin um lífeyrissjóð stéttarfélaganna. Og það var óskað eftir því af viðkomandi aðilum, að það yrði gert með l., því að öðruvísi er það auðvitað ekki hægt. Það er rétt, að stéttarsambandið hefði auðvitað ekki getað komið þessu á, nema þetta yrði gert með l., og því var samþykkt áskorun um það að óska eftir því, að ríkisstj. undirbyggi þetta mál, og það var gert í samráði við stéttarfélögin.

Ég vil taka það skýrt fram út af því, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði, að þetta er ekkert úrslitakostamál af hálfu ríkisstj., þ. e. hvort þetta mál verður samþ. hér á Alþ. eða ekki. Það er síður en svo. Og ríkisstj. lítur ekki á það sem neitt vantraust á sig, þó að það verði ekki samþ. Ég tók það fram, þegar málið var lagt hér fram, að þetta yrði að vera algerlega mat hv. þm., hvort þeir teldu, að þetta væri til hagsbóta fyrir bændur eða ekki. Og það er auðvitað jafnfjarri lagi, að ríkisstj. fari að afturkalla þetta frv., ef það hefur fylgi hér á hinu háa Alþ. Ég hef áður lýst því yfir, að það sé sjálfsagt og óumflýjanlegt að endurskoða þessi lög. Þau eru nýsmíði á margan hátt, og það sýnir sig, eins og kom fram hjá hv. talsmönnum verkalýðshreyfingarinnar, að það sé þörf á að endurskoða ýmis atriði í þeim l., sem sett voru um lífeyrissjóð verkalýðsfélaganna. En ég sé ekki, að það breyti neinu um það, að það geti verið rétt að setja þessi lög núna og sjá síðan, hverju fram vindur. Hvort menn vilja samþykkja þá till., sem hér var sett fram um, að l. skuli endurskoðuð innan tveggja ára, skal ég ekkert segja um og læt hv. þm. algerlega um að meta það, hvort rétt sé að gera þá breytingu á frv. eða ekki. Það felur auðvitað ekki í sér neina efnisbreytingu á frv., en ég tel, að enda þótt slík ákvæði væru ekki sett, þá leiddi það þegar af eðli málsins, að frv. mundi verða endurskoðað samstundis og ástæða þykir til —hvort sem það verður innan tveggja ára eða eins árs — að gera breytingar, ef gallar koma í ljós við framkvæmd laganna.

Hvað því viðvíkur að hafa lífeyrissjóðinn frjálsan, þá er það auðvitað alveg út í hött. Enda kom það fram hjá hv. 3. þm. Norðurl. v., að hann taldi, að útgjöld ríkissjóðs — sem hann vildi, að borgaði 50% á móti í sjóðinn — mundu verða lítil vegna þess, að fáir mundu nota sér þetta. Enda er sannleikurinn sá, að frjálsir lífeyrissjóðir hafa ákaflega litla þýðingu, og ég held, að það mundi ekki legg a traustan grundvöll eða vera til neinna bóta. Ég fyrir mitt leyti mundi ekki vilja standa að neinni löggjöf um það að koma á frjálsum lífeyrissjóði og tel, að það mundi ekki þjóna neinum tilgangi, enda hygg ég, að allir, sem standa að lífeyrissjóðum, telji, að það komi að litlu gagni.

Þetta er auðvitað alveg rétt, að það eru mikil útgjöld, sem ríkissjóður hefur vegna Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins við verðtryggingu þess sjóðs, og það er náttúrlega meira en verðtrygging, sem fólgin er í þeim sjóði, vegna þess að lífeyrisþegarnir njóta beinlínis þeirra kauphækkana, sem verða, þannig að verðtryggingin er hér mjög fullkomin, og enginn annar sjóður hefur hliðstæðan rétt. Það er alveg rétt. Og það hefur oft verið rætt um það, hvort það væri hægt að koma á verðtryggingu annarra lífeyrissjóða, t. d. á þann hátt að nota ráðstöfunarfé sjóðanna til þess að ávaxta þá með einhverjum þeim hætti, að sjóðirnir gætu tryggt fé sitt og verið þess umkomnir að borga a. m. k. að einhverju leyti verðtryggingu. Þetta er auðvitað mál, sem er hárrétt, að hefur grundvallarþýðingu varðandi það, að lífeyrissjóðirnir geti náð fullkomlega sínum tilgangi. Engu að síður hefur það verið skoðun allra, að ég hygg — og ég hygg, að það sé sameiginleg skoðun allra, sem standa að lífeyrissjóðum — að enginn þeirra vildi missa sína lífeyrissjóði, enda þótt það hafi ekki tekizt enn þá að verðtryggja þá.