03.03.1971
Efri deild: 56. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (652)

23. mál, framleiðnisjóður landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta var flutt í Nd. og fékk þar lítils háttar breytingu, þannig að 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. l. verður felldur niður. Sú grein fjallar um það að ákveða, að ekki sé heimilt að veita nema 1/3 af fé sjóðsins í slíkt, en nú er þetta sett á vald sjóðsstjórnarinnar, hvort það er veittur styrkur eða lán úr sjóðnum. Framleiðnisjóður landbúnaðarins var stofnaður með lögum 1966 með 50 millj. kr. framlagi. Hlutverk sjóðsins skyldi vera að veita styrki og lán til framleiðniaukningar og hagræðingar í landbúnaði og atvinnurekstrar í landbúnaði. Það er sérstaklega þrennt, sem talið var nauðsynlegt, að sjóðurinn léti sig varða. Það var tankvæðing í sambandi við mjólkurflutninga, tæknibúnaður sláturhúsa í sambandi við nýjar vinnuaðferðir við slátrun og rannsóknir á bættri vinnutilhögun í gripahúsum. Og sjóðurinn hefur lánað samtals 26 millj. kr.: til heimilistanka 7.9 millj., tækniútbúnaðar sláturhúsa 5.9 millj., djúpfrystingarstöðva 2 millj., endurskipulagningar ræktunarsambanda 2 millj. og rannsókna á vinnutilhögun í gripahúsum 12.9 millj. kr.

Með þessu frv. er lagt til, að á árunum 1972–1976 verði greiddar úr ríkissjóði til framleiðnisjóðs 50 millj. kr., 10 millj. kr. ár hvert. Ekki er gerð till. með þessu frv. um að breyta verkefni sjóðsins frá því, sem það var mótað með fyrstu löggjöfinni.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa lengri framsöguræðu um þetta mál. Hv. þm. þekkja það og vita, til hvers er ætlazt með þessu frv. Það er, að sjóðurinn geti haldið áfram að veita nokkur lán og styrki til nauðsynlegra framkvæmda í landbúnaðinum. Það er hlutverk sjóðsins. Það hefur komið fram í Nd., að mönnum þótti þetta ekki há fjárveiting á ári. Ég tel það mikils virði, að haldið sé áfram að veita fé til sjóðsins og gera honum fært að starfa. Um hitt má svo alltaf deila, hvort framlögin, sem ákvörðuð eru með löggjöfinni, séu nógu há. Og það er vitanlega alltaf hægt, ef menn treysta sér til og möguleikar eru á, að hækka framlögin til sjóðsins. Og ég tel, að það sé hægara að gera það, ef sjóðurinn með starfsemi sinni sannar ágæti sitt og nauðsyn, þá er hægara að hækka framlögin, ef fjárhagsaðstæður leyfa, heldur en ef sjóðurinn væri starfslaus og getulaus, vegna þess að ríkissjóður hefði alveg hætt að greiða styrki.

Ég vil, herra forseti, leggja til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn.