26.10.1970
Neðri deild: 5. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í B-deild Alþingistíðinda. (707)

38. mál, alþjóðasamningur um stjórnmálasamband

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt til staðfestingar á alþjóðasamningi um stjórnmálasamband. Hjá Sameinuðu þjóðunum á allsherjarþinginu 1952, sem var ekki 14., heldur 7. þing — allsherjarþing — Sameinuðu þjóðanna, ég bið menn að leiðrétta þá prentvillu, sem er í grg. frv., að það er ekki 14. allsherjarþingið, sem þarna var að störfum, heldur 7. — var samþ. ályktun um að fela þjóðréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna að skrásetja reglur þjóðréttarins um stjórnmálasamband ríkja. N. gekk frá frumdrögum að alþjóðasamningi um þetta efni árið 1957 og sendi þau aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna til umsagnar. Síðan endurskoðaði n. frumdrög sín í ljósi aths. þeirra, sem bárust. Árið 1959 tók svo allsherjarþingið þetta mál aftur upp á 14. þinginu og þar var ákveðið að kveðja saman alþjóðaráðstefnu í Vínarborg til að fjalla um málið. Ráðstefnan var haldin 1961 og þar voru mættir fulltrúar frá 81 ríki og gengið frá með shlj. atkv. samningi um þessi mál. Einnig voru þar samþykktar tvær bókanir við samninginn, þ. e. um öflun ríkisborgararéttar og kjörfrjáls bókun varðandi skyldubundna lausn deilumála, sem upp kynnu að koma um skilning á samningnum. Þessi samningur gekk í gildi 24. apríl 1964, þegar 22 ríki höfðu gerzt aðilar. En nú eru 92 ríki orðin aðilar að samningnum og utanrrn. telur, að Ísland geti varla lengur staðið þar fyrir utan og leggur þess vegna til, að þessi samningur verði samþykktur hér á Alþ.

Samningurinn sjálfur hefur ekki að efni til inni að halda mörg sérstök nýmæli, heldur eru þar tekin saman í eina heild þau ákvæði gömul, sem í gildi hafa verið, og sá venjuréttur, sem skapazt hefur við framkvæmd þessara mála. Samningurinn er frá orði til orðs prentaður sem fskj. við frv. og sömuleiðis þær tvær bókanir, sem ég gat um hér áður. Þessi samningur og bókanirnar eru hér prentaðar sem fskj. bæði á íslenzku og ensku, þannig að hv. alþm. geta séð þar, hvað þetta er allt, sem snertir málið, og ég tel óþarfa að rekja samninginn í heild, því að eins og ég segi, það eru ekki í honum nein nýmæli að heitið geti, en aðeins þeim ákvæðum, sem í gildi hafa verið, þjappað þar saman í eina heild og gerð að sérstökum samningi.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða frv. frekar, en það er sá hængur á, að þetta frv. á náttúrlega heima í utanrmn. til meðferðar, en hún er ekki hér til í þessari hv. d., þannig að ég vildi leyfa mér að leggja til, að málinu yrði að þessari umr. lokinni vísað til allshn. þessarar d., sem síðan hefði svo samráð við utanrmn.