22.02.1971
Neðri deild: 49. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í B-deild Alþingistíðinda. (746)

183. mál, Vatnsveita Vestmannaeyja

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Mér þykir hlýða að flytja hæstv. fjmrh. þakkir fyrir flutning þess frv., sem hér liggur fyrir, en eins og fram kemur af 1. gr. þess, þá er það efnislega um heimild til handa ríkisstj. að taka sjálfskuldarábyrgð á láni að upphæð allt að 60 millj. kr. vegna vatnsveituframkvæmda Vestmannaeyjum. Við afgreiðslu fjárlaga gerði ég í stórum dráttum grein fyrir þessum framkvæmdum og skal ekki fara út í að endurtaka hér aftur það, sem ég sagði þá, en mér þykir rétt að gera hv. þd. grein fyrir fjárhagshlið málsins, þeim lánum, sem tekin hafa verið í sambandi við þessar framkvæmdir, og ástæðunum fyrir því, að nú er farið fram á ríkisábyrgð, og er það í fyrsta sinn, sem það skeður síðan hafizt var handa um þessa framkvæmd.

Um s. l. áramót hafði Vestmannaeyjakaupstaður tekið lán vegna vatnsveituframkvæmdanna samtals að upphæð 83 millj. Þar af voru erlend lán 48.2 millj., en innlend lán 34.8 millj. Eftirstöðvar þessara lána voru þá 76 millj. og höfðu þau því á undanförnum árum verið greidd niður um 7 millj. Ég skal geta þess, að aldrei hefur komið til, að ríkissjóður hafi þurft að taka á sig eða veita ábyrgð fyrir þeim lánum, sem tekin hafa verið, hvorki hinum erlendu lánum né hinum innlendu. Þegar fyrri vatnsleiðslan var keypt til landsins, þá var fengið fyrir henni lán hjá dönsku bankafyrirtæki, og var það gert án ríkisábyrgðar. Þegar samið var í sept. s. l. um kaup á síðari vatnsleiðslunni, að upphæð nálægt 60 millj. ísl. kr., þá lá það einnig fyrir, að kaupstaðurinn átti kost á því að fá lán í Danmörku fyrir þeirri upphæð og þá einnig án ríkisábyrgðar. En það lá einnig fyrir, að vextir voru á þeim tíma og eru reyndar enn mun hærri hjá dönskum lánafyrirtækjum heldur en við áttum kost á hjá Scandinavian Bank í London, en þar var það skilyrði sett, að sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs væri fyrir hendi. Við töldum það mjög eðlilegt — ekki einasta vegna Vestmannaeyjakaupstaðar, heldur einnig þjóðhagslega séð — að taka heldur lánið, þar sem vextirnir voru mun lægri, því að þetta sparar fyrirtækinu í vaxtagreiðslum nær 1½ milljón kr. á ári, a. m. k. fyrstu árin.

Af þeirri ástæðu var farið fram á við ríkisstj., að hún veitti sjálfskuldarábyrgð fyrir allri lánsupphæðinni og hefur hún orðið við þessum tilmælum ráðamanna byggðarlagsins með því frv., sem hér er flutt, ef það nær fram að ganga, eins og ég vona að verði. Þar sem segja má, að hér sé um ríkisábyrgð fyrir óvenjulega hárri upphæð að ræða fyrir ekki stærra bæjarfélag heldur en Vestmannaeyjar eru, þá hlýtur það kannske að hvarfla að einhverjum, hvort kaupstaðurinn muni verða þess megnugur að standa undir þessu láni. Við höfum heima í héraði að sjálfsögðu gert okkur fulla grein fyrir, hvernig það mætti verða, og teljum sjálfir og höfum trú á því, að ekki komi til þess, að ríkissjóður þurfi að taka á sig neinar kvaðir í sambandi við þessa sjálfskuldarábyrgð. Þegar síðari vatnsleiðslan hefur verið lögð, sem stendur til að gert verði í júlímánuði n. k., þá verður flutningsgeta þeirra tveggja vatnsleiðslna, sem liggja milli lands og Eyja, samtals 6600 tonn á sólarhring. Miðað við aðstæður í dag og miðað við það, sem við gætum gert okkur grein fyrir um þróun byggðarlagsins, — og reiknum við þá að sjálfsögðu með eðlilegri íbúafjölgun og auknum iðnaði — tel ég, að búið sé að ganga svo frá þessum málum hvað leiðslur milli lands og Eyja snertir, að nægja muni næstu 20–30 árin eða allt fram undir næstu aldamót.

Einhverjum kann nú að þykja þetta stangast á við raunveruleikann, að vatnsnotkun verði eftir 20–30 ár ekki meiri en þetta, en þess ber að geta, að ekkert vatn er selt í Vestmannaeyjum nema í gegnum mæli. Við hverja einustu íbúð og við hvert einasta fiskiðjuver, þar sem inntak er frá vatnsveitunni, er einnig vatnsmælir, og verður það án efa til þess að halda niðri allri óeðlilegri vatnsnotkun. Það er komin nokkur reynsla á það, hver vatnsnotkun verður hjá almenningi, þar sem ekki er um annað vatn að ræða. Öll hin nýrri hús í byggðarlaginu eru nú byggð án þess að hafa þar nokkur vatnsból til að taka við regnvatni eins og áður var, og það hefur sýnt sig, að notkun þessara heimila er 200–250 lítrar á mann á sólarhring. Þetta er mjög í samræmi við það, sem við vitum að vatnsveitur hér á Norðurlöndum byggja allar sínar áætlanir á, en auk þess kemur að sjálfsögðu inn vatnsnotkun fiskiðnaðarins. Við fengum einnig á síðasta ári nokkra reynslu af því, að þegar iðnaðurinn komst í hámark í marzmánuði, þar sem bæði var mjög mikið um löndun á loðnu og einnig mikil aflabrögð önnur, þá kom glöggt í ljós, hvað þau fyrirtæki, sem nú eru þar starfandi, þurfa mikið vatn til sinna nota, þegar þau eru með hámarksafköst. En árið 1970 var metafli í Vestmannaeyjum, eins og ég hygg að mörgum sé e. t. v. kunnugt. Vatnsnotkunin reyndist þá vera um 10–11 hundruð tonn á sólarhring til iðnaðarins, þegar mest var, þannig að við teljum, að allar okkar áætlanir um vatnsþörf í framtíðinni séu byggðar á fenginni reynslu og nokkuð traustum grundvelli, og höfum við gert ráð fyrir stærð leiðslnanna í samræmi við það, að í byggðarlaginu haldi íbúum áfram að fjölga og iðnaður vaxi þar.

Ég vil láta það koma fram hér, að ég tel, að bæði fyrir Vestmanneyinga og þjóðfélagið í heild hafi það verið heppilegt, að svo snemma skyldi þó byrjað á þessum framkvæmdum sem raun varð á, því að nú berast til forráðamanna fiskiðnaðarins kröfur erlendis frá um mjög aukið hreinlæti, sem útheimtir að sjálfsögðu meiri vatnsnotkun heldur en nú er. Á Vatnsveita Vestmannaeyja að vera við því búin að þessu leyti að verða við þeim kröfum, sem gerðar verða í framtíðinni um aukið hreinlæti í sambandi við fiskiðnaðinn. Samkvæmt þeim skýrslum, sem Fiskifélag Íslands birtir nú eftir áramótin um heildarfiskmagn landsmanna, sem landað var hérlendis, sýnir það sig, að í Vestmannaeyjum var árið 1970 landað rösklega 25% af heildarmagninu, þannig að það hefur vissulega þjóðfélagslega þýðingu, að aðstaða fiskiðnaðarins sé þar ekki lakari heldur en annars staðar gerist, hvorki varðandi aðgang að nægjanlegu fersku vatni né að ýmsu öðru leyti. Að vísu eru menn ánægðir yfir því, að við þessum tilmælum Vestmanneyinga hefur verið orðið að veita sjálfskuldarábyrgð fyrir þetta hárri upphæð, eins og frv. gerir ráð fyrir, en ég vil undirstrika það, að það sparar bæði okkur og þjóðfélaginu verulegar vaxtagreiðslur, eins og ég sagði áðan, um 1½ millj. á ári næstu árin.