26.11.1970
Efri deild: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í B-deild Alþingistíðinda. (778)

119. mál, Innheimtustofnun sveitarfélaga

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég átti þess ekki kost að taka þátt í 1. umr. um þetta mál, en ég var búinn að kynna mér þetta nokkuð og ég tel, að þetta sé til mikilla bóta, það fyrirkomulag, sem hér er gert ráð fyrir að taka upp. Ég vil gjarnan, að það komi fram, að ástæðan fyrir því, að ég hef sömu skoðun og hv. 5. þm. Sunnl. á því, að þessi innheimta muni takast miklu betur, þegar hún er á einni hendi heldur en hingað til hefur verið, er reynslan af því, hvernig þetta hefur gengið til hér í Reykjavík. Hér í Reykjavík, sem er stórt sveitarfélag, stærsta sveitarfélag landsins og áreiðanlega með sitt hundraðshlutfall í þessum málum, svo að ég taki nú ekki dýpra í árinni, hér hefur innheimtan gengið þannig, að Reykjavíkurborg mun vera með þeim allra hæstu hvað það snertir að innheimta útistandandi meðlög. Hér er prósentan um 60%, þ. e. a. s. af 66 millj., sem borgin lét úti, innheimtust 40 millj. á s. l. ári. Og það mun vera um 60% innheimta. Og ég hef fulla trú á því, að þegar þessi innheimta er komin á eina hendi, þá þurfi ekki að vera að metast um það endalaust, — í fyrsta lagi, hvaða sveitarfélag eigi að bera byrðarnar og í öðru lagi, hvar eigi að leita að viðkomandi aðila, og muni þá þessi innheimta ganga miklu betur. Ég vildi aðeins, að þetta kæmi fram hér, áður en málið gengur til atkv. Það er svo sem ástæðulaust að vera að gjalda jáyrði við máli, sem n. hefur einróma samþ., en ég vona, að mér verði fært það til betri vegar, þó að ég vildi láta þessar fáu aths. koma fram.