22.03.1971
Efri deild: 71. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í B-deild Alþingistíðinda. (922)

73. mál, útvarpslög

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að ræða mál þetta efnislega nú á þessu stigi, en niðurlagsorð hæstv. menntmrh. gefa mér tilefni til þess að gera aths., sem ég held að sé viðeigandi að gera hér í hv. Ed. Eins og hann skýrði sjálfur frá, þá var þetta mál lagt fram í Nd. s. l. vetur og þar var það til meðferðar þingtímann. Það var svo á þessu þingi lagt fram í Nd. í byrjun þings, ef ég veit rétt, og þar hefur það verið síðan. Ég dreg það ekki í efa, að hv. Nd. hafi lagt af mörkum mikla vinnu við að athuga það. En nú loks, þegar eftir er væntanlega u. þ. b. hálfur mánuður eða svo af þingi, þá er komið með þetta mál upp í Ed. og farið fram á, að það sé afgreitt. Ég held, að þetta séu vinnubrögð, sem ástæða er til að veita athygli og hafa sem víti til varnaðar. Auðvitað var ekkert sjálfsagðara en að leggja þetta frv. fram í Ed. á þessu þingi, úr því að það var búið að þvælast í Nd. á þinginu í fyrra, í staðinn fyrir að hafa þennan háttinn á, sem ég tel mjög vítaverðan og í raun og veru einnig meðferðina í Nd., að hafa mál svona lengi hjá sér og ætla að skammta Ed. svo stuttan tíma til þess að fjalla um svo mikilvægt mál. Því sannleikurinn er auðvitað sá, að hér er um mikilvægt mál að ræða. Það eru ýmis nýmæli í þessu frv., eins og hæstv. menntmrh. drap á, sem þurfa auðvitað athugunar við. Að vísu hafa verið gerðar á því nokkrar breytingar í Nd., eins og hann gerði grein fyrir og því má ætla, að það verði síður ágreiningur um málið eftir að þær breytingar hafa verið gerðar, en eigi að síður vil ég láta mótmæli koma hér fram gegn þessum starfsháttum, að það sé misskipt með þessum hætti svona herfilega á milli deildanna og ætlazt til þess, að Ed.-menn afgreiði það með hraði, sem Nd.-menn hafa þurft nær því tvö þing til þess að velta fyrir sér.