16.11.1970
Efri deild: 16. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í B-deild Alþingistíðinda. (96)

101. mál, atvinnuöryggi

Helgi Bergs:

Herra forseti. Þann 1. þ. m. var auglýst bann gegn verðhækkunum nema með sérstöku leyfi yfirvalda, eins og mönnum er minnisstætt, og þetta bann fól í sér sams konar atriði eins og 1. gr. þessa frv., sem hér liggur fyrir, gerir. Ég er ekki í neinum vafa um það, að almennt var þeirri ákvörðun, sem þessi auglýsing fól í sér, vel fagnað. Ríkisstj. hafði í fjóra mánuði tvístigið í málinu. Um mánaðamótin júní–júlí hafði ríkisstj. skrifað Alþýðusambandinu og vinnuveitendasamtökunum og óskað eftir viðræðum um ráðstafanir til þess að hafa hemil á víxlhækkunum kaupgjalds og verðlags, eins og það var orðað, og það verður að segjast, að það var ekki vonum fyrr, að þessir aðilar héldu svo fund með sér hinn 20. ágúst til þess að hefja þessar viðræður, en það var einmitt um það leyti, sem hæstv. ríkisstj. hætti við að gefa málið frá sér og láta ganga til haustkosninga. En síðan drógust þessar viðræður fram til októberloka, og því hefur síðar verið lýst yfir af hálfu sumra þeirra, sem þátt tóku í þeim, að þar hafi í rauninni ekkert gerzt. En á meðan þessu fór fram, gerðist sitt af hverju. Hver verðhækkunin rak aðra á flestum sviðum og ekki sízt hjá opinberum þjónustuaðilum. Það er enginn vafi á því og ég er sammála því, sem kom fram hjá hæstv. forsrh. hér áðan, að almenningur fagnaði hverri þeirri viðleitni, sem höfð var í frammi til þess að koma í veg fyrir, að þessar verðhækkanir héldu áfram. Hann fagnaði þess vegna þeirri verðstöðvun, sem auglýst var 1. nóv., þó að síðbúin væri og þó að menn hefðu heldur slæma reynslu af hliðstæðum ráðstöfunum hv. stjórnarflokka áður. Minnisstæð var verðstöðvunin 1959, í febrúar það ár, en þegar henni lauk, tóku, eins og kunnugt er, við ráðstafanir, sem fólu í sér mikla gengisfellingu. Hún var þó ekki svo ákaflega mikil miðað við það, sem við síðar höfum mátt kynnast, því að miðað við það raunverulega meðalgengi, sem ríkti fyrir þá gengisfellingu, hefur hún líklega numið 25% eða sem svarar fjórðungshækkun á erlendum kostnaði. Árið 1966 um haustið var aftur boðuð verðstöðvun, og áður en ár var liðið var enn komin gengisfelling, og áður en tvö ár voru liðin var komin önnur, en samtals námu þessar gengislækkanir um 50% eða tvöföldun erlends kostnaðar. Sannleikurinn var líka auðvitað sá, að þessar verðstöðvanir, sem svo voru kallaðar, voru fyrst og fremst kosningabrellur. Þær voru báðar gerðar á kosningaárum og voru gerðar og framkvæmdar með þeim hætti, að vandamálin hrönnuðust í raun og veru upp. Þessu hefur af orðhögum mönnum verið lýst bæði með því, að þetta væri eins og að stífla læk í gili án þess að veita vatninu fram hjá, þannig að það safnaðist upp, þangað til stíflan brysti, eða það væri eins og að festa lok á sjóðandi ketil yfir eldinum. Það heldur áfram að aukast þrýstingurinn, þangað til ketillinn springur. Reynslan af þessu vekur að sjálfsögðu ekki mikið traust, og menn taka að sjálfsögðu eftir því, að það virðist ekki hafa hvarflað að hæstv. ríkisstj. að gera verðstöðvunarráðstafanir á öðrum tíma en einmitt þegar kosningar standa fyrir dyrum.

En varðandi verðstöðvunarákvæðin með auglýsingu 1. nóv. s. l. þá er væntanlega af hálfu hæstv. ríkisstj. litið á þetta frv. sem fylgifisk hennar, en í því eru að mínum dómi ýmis algerlega óviðkomandi atriði, sem þar eiga ekki heima. Frv. felur í sér skerðingu á þeim kjarasamningum, sem í landinu gilda, og það felur í sér nýja skattlagningu. Frv. er eins og það liggur fyrir þess vegna óaðgengilegt. Eins og ég sagði, eru í frv. fólgin ýmis óskyld atriði, sem rétt er að gera að umræðuefni sérstaklega.

Í 1. gr. frv. eru staðfestar þær ráðstafanir, sem þegar hafa verið gerðar með auglýsingunni frá síðustu mánaðamótum. Og þó að þessi gr. feli ekki í sér nýjar heimildir í sjálfu sér, virðist mér það vera eðlilegt, að ákvæði af þessu tagi séu nú sett í þessi lög, því að í því kemur fram sá vilji Alþ. að stöðvun verðhækkana sé framkvæmd, þó að segja megi að þessara ákvæða sé ekki beinlínis þörf, þar sem þegar eru nægilegar heimildir í l., en þó er ekkert að því að samþykkja þessa gr. og ákvæði hennar. Sama máli gegnir um 6. gr., sem fjallar um húsaleigu og ég ætla ekki að gera frekar að umræðuefni.

Í 2. gr. eru svo ákvæði um 1.5% launaskatt, sem lagður skuli á atvinnureksturinn. Þegar þess er gætt, að í grg. þessa frv. kemur það fram, sem raunar er vitað, að mjög er enn óljóst um, hvernig fer um afgreiðslu fjárl. á þessu ári, þá verður það að teljast algerlega óviðeigandi að samþykkja slíkan skatt sem þennan, nokkrum vikum áður en fjárl. koma til afgreiðslu. Þessi skattur orkar í sjálfu sér mjög tvímælis, og væri hægt að ræða um það langt mál, en ég skal ekki gera það, heldur vísa til þess, að það er skoðun mín, að þessi þáttur málsins eigi að takast upp í sambandi við fjárlagaafgreiðslu og eigi hér ekki heima.

3. gr. frv. er eftir atvikum hægt að fallast á. Hún fjallar um hækkun á fjölskyldubótum. Raunar fjallar hún ekki bara um hækkun á fjölskyldubótum, heldur einnig um breytingu á þeirri skiptingu fjölskyldubótanna, sem gilt hefur fram að þessu, skiptingu eftir fjölskyldustærð. Undanfarið hefur sú regla verið, að fjölskyldubætur vegna fyrsta bótaskylds barns hafa verið allmiklu lægri, eða 22% lægri en annars og síðari barna, en samkv. þessum l. á þetta nú að verða jafnt. Hér er í sjálfu sér um að ræða mjög veigamikið atriði frá tryggingalegu sjónarmiði séð, sem oft hefur komið til umr., hvernig þessi skipting skuli vera eftir fjölskyldustærð. Og það rifjar það m. a. upp fyrir mönnum, að það er ekki ýkja langt síðan uppi voru miklar deilur um þetta atriði, sem þá vöktu mikla athygli. Þann 9. maí s. l. birtist stór fyrirsögn í Alþýðublaðinu. Þar var sagt frá ræðum, sem einn af ungtyrkjum Alþfl. hafði haldið, og í þeirri ræðu taldi hann Sjálfstfl. vera mikinn dragbít í tryggingamálum. Fyrirsögnin var „Sjálfstæðismenn vildu lækka tryggingabætur“, og það var þarna fullyrt, að sjálfstæðismenn hefðu sett fram till. um skerðingu tryggingabóta. Þann 14. maí birtist svo í Morgunblaðinu heilsíðuviðtal við þáv. hæstv. forsrh., Bjarna heitinn Benediktsson, þar sem hann neitaði þessum áburði Alþýðublaðsins, en gerði hins vegar grein fyrir því, að flokkarnir litu ekki með sama hætti á, hvernig haga skyldi fjölskyldubótum og orðaði það í þessu viðtali þannig, með leyfi forseta:

„Hins vegar höfum við lagt til, að athugað yrði, hvort betri árangri yrði náð með breytingu á fyrirkomulagi og þá einkum hvort hægt væri að jafna fjölskyldubótum niður á þann veg, að þeim verst stæðu, þ. e. a. s. þeim, sem stærsta fjölskyldu hafa, kæmi að mestu gagni“.

Tveim dögum síðar, þann 16. maí, birti svo Alþýðublaðið heillar opnu viðtal við hæstv. utanrrh., Emil Jónsson, þar sem í fyrirsögn er látið að því liggja, að hæstv. utanrrh. sé að staðfesta ásakanir Björgvins Guðmundssonar, sem hafði þær flutt, — ég nefndi víst ekki með nafni áðan, — en í viðtalinu kemur í rauninni fram, að hæstv. utanrrh. staðfestir það, sem forsrh. hafði sagt í viðtalinu við Morgunblaðið, og það kemur mjög ljóslega fram í þessum viðtölum báðum og þó ekki síður í þeim greinum í ýmsum stjórnarblöðum, sem um þessar mundir birtust, að þarna er uppi deila um grundvallaratriði tryggingamála milli stjórnarflokkanna. Þessi deila vakti athygli, vegna þess að það hefur ekki í svo ákaflega mörgum tilvikum komið fram opinberlega grundvallarágreiningur milli stjórnarflokkanna um prinsipmál af þessu tagi. En það var alveg ljóst, um hvað þá greindi á. Sjálfstæðismenn töldu, að eðlilegt væri, að fjölskyldubætur væru litlar, jafnvel engar, á fyrsta barn og yrðu þá heldur meiri á síðari börn, en Alþfl. taldi óbreytt hlutföll vera sáluhjálparatriði í þessu sambandi. Og það var vissulega ekki tekið létt á þessu máli, því að um þetta og fleiri atriði sem í kringum þetta spunnust, urðu talsverðar deilur milli stjórnarflokkanna, og það varð ljóst, að mönnum var mikið niðri fyrir. Það var ljóst bæði af því, hverjir þarna gengu fram á völlinn, og það má raunar einnig sjá það á orðalagi hæstv. utanrrh. í þessu viðtali, þar sem blaðamaður spyr hann um skrif hinna stjórnarblaðanna í garð Alþfl.-manna, en þá svarar hæstv. utanrrh. þannig, með leyfi forseta:

„Bæði Morgunblaðið og Vísir hafa stundað slíkar árásir á okkur samstarfsmenn Sjálfstfl. í ríkisstj. undanfarna mánuði. Þessi skrif eru bæði ódrengileg og ósanngjörn í fyllsta máta.“ Og ennfremur segir: „Morgunblaðið og Vísir hafa reynt að notfæra sér öll möguleg og ómöguleg tækifæri til árása á okkur. Hafa þau oft gengið feti framar en málgögn stjórnarandstöðunnar og sjást hvergi fyrir.“

Hér var því ekki um neitt smámál að ræða og auðséð, að mikið var lagt upp úr þessum ágreiningi. Raunar hefur talsvert gengið á í sambúð stjórnarflokkanna undanfarna mánuði, eins og minnisstætt er. Sjálfstfl. taldi, að haustkosningar samrýmdust bezt þjóðarhagsmunum og vildi þær þar af leiðandi, en Alþfl. vildi ekki kosningar, og við það sat. Og nú er raunar komið á daginn, að það nægði ekki Alþfl. að sigra og beygja Sjálfstfl. í þessu efni, heldur skyldi honum líka storkað, því að ekki hafði Alþfl. fyrr beygt hann til áframhaldandi sambúðar en hann hóf samvinnuviðræður við Alþb. og aðra pólitíska lausamenn stjórnarandstöðunnar.

Nú kastar 3. gr. þessa frv. ljósi á deiluna frá í vor. Nú er eðlilegt, að menn spyrji: „Kemur nú hækkunin á fjölskyldubótum aðallega til þeirra, sem stærsta fjölskyldu hafa, eins og sjálfstæðismenn töldu réttmætt og eðlilegt, eða urðu sjónarmið Alþfl. um óbreytt hlutföll ofan á?“ Og nú er það ljóst, að þau urðu ekki aðeins ofan á, — Alþfl. nægði ekki að beygja Sjálfstfl. undir sitt sjónarmið í þessu efni, — heldur voru bætur vegna fyrsta barns hækkaðar um 83.6%, þ. e. barnsins, sem Alþfl. bar fyrir brjósti, en til hinna um 44.6%. Þessi spaugilega viðleitni Alþfl.-manna til þess að storka samstarfsmönnum sínum virðist þess vegna takast þokkalega. A. m. k. virðist þeim fyllilega vera ljóst, hvað þeir geta boðið þeim samstarfsmönnum, sem í maí voru kallaðir bæði ódrengilegir og ósanngjarnir. En nú veit ég, að ýmsir munu segja, að á bak við þessar breytingar á fjölskyldubótunum liggi hreint enginn prinsip-ágreiningur. Það muni engin prinsip ráða því, hvernig þarna er að verki staðið, heldur eingöngu vísitöluleikfimi. Það muni vera sú staðreynd, að með þeim 218 millj. kr., sem í þessu skyni skal verja, er hægt að ná 1.55%-stiga lækkun á vísitölunni með þessari aðferð, sem hér er gert ráð fyrir, en ef þetta hefði verið haft óbreytt eða eitthvað gengið til móts við þau sjónarmið, sem Sjálfstfl. hafði uppi í vor, þá hefði vísitölulækkunin fyrir sömu fjármuni ekki orðið nema líklega eitthvað í kringum 1%-stig. Vel má vera, að svo sé, að hér liggi engin prinsip-afstaða að baki. En þá liggur það líka ljóst fyrir, að þessi grundvallar-prinsip Sjálfstfl. í tryggingamálum eru talin minna en ½%-stigs virði.

Með 4. og 5. gr. er svo breytt þeim ákvæðum, sem í gildi hafa verið um áhrif verðlagsvísitölu á kaupgjald. Með 5. gr. er gefin heimild til þess að greiða ekki á því tímabili, sem lög þessi gilda, 2 af þeim stigum, sem gert er ráð fyrir, að vísitalan hækki um, þ. e. a. s. bæta launþegum þau ekki með neinum hætti. Nú hefur hæstv. fjmrh. að vísu lýst því yfir áðan, að þessi heimild muni ekki verða notuð nú strax, og skal ég aðeins koma örfáum orðum að því síðar, en auk þessa er með 3, mgr. 4. gr. klipið 1%-stig af kaupgjaldsvísitölunni með því að taka ekki tillit til hækkunar á útsöluverði áfengis og tóbaks og heldur ekki til hækkunar á iðgjaldi til almannatrygginga frá ársbyrjun 1971. Það getur vel verið, að það megi fallast á þau sjónarmið, sem fram komu hjá hæstv. fjmrh. hér áðan, að iðgjald af þessu tagi eigi alls ekkert erindi inn í vísitölugrunninn og það getur líka vel verið, og ég er raunar fyllilega á því, að áfengi og tóbak eigi heldur ekkert erindi inn í vísitölugrundvöllinn. En þegar þessar vörur og þessi gjöld eru í vísitölugrundvellinum, þá hefur það nákvæmlega sömu áhrif fyrir launþegana, hvort þeirra hlutur er skertur með því að taka 1 stig út á móti þessum hlutum eða 1 stig út á móti hvaða öðrum hlut, sem vera skal. En í 1. og 2. mgr. 4. gr. eru einnig ákvæði, sem mér virtist hæstv. ráðh. hér áðan reyna að fara heldur létt yfir, ákvæði, sem eru launþegum síður en svo hagstæð. En það eru þær breytingar, sem þar eru gerðar á útreikningsgrundvelli kaupgreiðsluvísitölunnar. Í rauninni er aðalbreytingin, sem í þessum mgr. er fólgin, sú, að það er verið að lengja þann verðhækkanahala, sem launþegar mega bíða eftir bótum fyrir, um einn mánuð. Það er vissulega rétt, að launþegar, jafnvel þótt þeir hafi fullar vísitölubætur, tapa á verðhækkunum, vegna þess að vísitalan er ekki reiknuð út nema á þriggja mánaða fresti, og á þeim þremur mánuðum, sem á milli liða, koma ýmsar hækkanir, sem þeir fá ekki bætur fyrir fyrr en að einhverjum tíma liðnum. En það hefur því verið þannig, að launþegar hala fengið bætur fyrir þær verðlagshækkanir, sem orðnar eru, þegar vísitalan er reiknuð út. Nú er þessu breytt. Nú þarf ekki að greiða slíkar verðhækkanir niður þegar í stað, til þess að þær komi fram til lækkunar á kaupgreiðsluvísitölu, heldur nægir nú fyrirheit um, að það skuli greitt niður í næsta mánuði. Þetta þýðir það, að í stað þess, að nú hafa launþegar ekki þurft að bíða lengur en þrjá mánuði eftir að fá bættar þær verðhækkanir, sem þeir á annað borð fá bættar með vísitölunni, geta þeir nú þurft að bíða í fjóra. Verðhækkanir sem kynnu að reynast nauðsynlegar af einhverjum ástæðum og gert er ráð fyrir, að hægt sé að leyfa sbr. 1. mgr. 1. gr. t. d. í maí n. k., standa bótalaust út allt verðstöðvunartímabilið. Verðhækkun, sem kemur nú, rétt eftir að kaupgreiðsluvísitalan hefur verið ákveðin í þessum mánuði, kemur ekki fram í kaupgreiðsluvísitölu fyrr en í febr. og þá nægir hæstv. ríkisstj. að tilkynna það, að hún ætli að greiða þessa hækkun niður í marz, til þess að hún hafi ekki áhrif á kaupgreiðsluvísitöluna og þannig geta launþegar þurft að bera slíka hækkun bótalaust í fjóra mánuði. Það er þess vegna ekki hægt að fallast á það sem réttlætingu eða málsbætur fyrir 2%-stiga skerðingunni, að launþegar sleppi við allt tjón af því að þurfa að bíða eftir bótunum. Það er síður en svo.

Það er ljóst af því sem fram hefur komið frá Alþýðusambandi Íslands, að þessum breytingum, sem hér eru ótvírætt gerðar á þeim grundvelli, sem samið var á seinast, þegar samningar voru gerðir, er mótmælt af Alþýðusambandinu. Alþýðusambandið telur, að vegna þessara breytinga séu samningarnir ógiltir og burtu fallnir. Þeir telja að þessar lagabreytingar, sem hér er fyrirhugað að gera, séu óþörf ögrun við launþega og þær muni leiða af sér meiri vandræði en ávinning, og er ljóst að ábyrgð af því er þung á herðum hæstv. ríkisstj.

Í sambandi við það, sem áðan kom fram hjá hæstv. fjmrh., um það, að heimildin til 2% skerðingar á greiðslu verðuppbóta mundi ekki verða notuð að sinni, vil ég segja, að þeirri yfirlýsingu er vissulega ástæða til að fagna, og ég vil í framhaldi af því skora á hæstv. fjmrh. að fallast þá á að taka þessa heimild út úr þessu frv. Ef svo kynni að fara, að hæstv. ríkisstj. teldi þörf á því að hafa svona heimild síðar, þá gæti hæstv. ríkisstj. tekið upp það mál á öðrum tíma við Alþ.

En í ræðu hæstv. fjmrh. áðan komu fram fullyrðingar, sem mér skilst, að hafi nú líka heyrzt í hv. Nd., um það, að það væri í raun og veru verið að festa kaupmátt launa, sem væri svo og svo miklu hærri en hann hefði verið í maí s. l., og nefndi hæstv. fjmrh. tvær tölur í því sambandi. Hann sagði, að ef þetta frv., ef að lögum verður, yrði framkvæmt með þeim hætti, sem fyrirhugað var, áður en hann gaf yfirlýsingu sína hér áðan, þá hefði kaupmátturinn verið festur á 17.4 stiga hærra plani, — 17 stigum tók ég eftir, — en með þessari breytingu, sem nú hefur verið gerð, væri um að ræða 19% hækkun kaupmáttarins. Kannske hefur hæstv. fjmrh. þarna orðið mismæli og hann hafi átt við 19 kaupmáttarstig sambærileg við þessi 17, má vera, að svo hafi verið. En hvað sem um það er, þá eru báðar þessar tölur að mínu viti villandi. Ég hef haft tækifæri til þess að skoða útreikninga af þessu tagi, sem álitið er, að séu þeir sömu og hæstv. ráðh. byggir sitt mál á, og þar er gert ráð fyrir því, að vísitala kaupmáttar launa sé nú í nóvembermánuði 133 stig, en hafi í maí s. l. verið 116 stig. Þessi mismunur er 17 stig, það er rétt, það er hægt að orða það þannig, að það séu kaupmáttarstig, en það er samt villandi að orða það svo nema gera grein fyrir þeim grundvelli, sem þar er um að ræða. Þetta eru ekki nema 15%, og mér virðist, að dálítið hafi borið á því, að prósentum og alls konar stigum sé ruglað saman í þessum umr. og raunar oftar. Hins vegar hef ég ekki haft nein skilyrði til þess að átta mig á því, hve réttir þessir útreikningar kunna að vera, en svo mikið er víst, að áður en fallizt verður á þau sjónarmið, sem hæstv. fjmrh. setti fram um þetta efni, verður að gera miklu betri grein fyrir því, hvers konar stig og hvers konar prósentur er um að ræða og hvers konar reikningsgrundvöllur hér er á ferðinni.

En í sambandi við yfirlýsingu hæstv. fjmrh. hér áðan, vil ég þó endurtaka það, að ég vil fyrst og fremst af því tilefni skora á hann að fallast þá á að fella heimildina, sem er í fyrri mgr. 5. gr., úr lögunum, fyrst hennar er ekki þörf að sinni. (BJ: Þetta er ekki heimild í lögunum, það er prinsip.) Það er vakin athygli á því hér, að hér sé kannske ekki bara um heimild að ræða, heldur jafnvel fyrirskipun, og þá geri ég nú ráð fyrir, að hæstv. fjmrh. hafi hug á að athuga það og sú n., sem þetta fær til athugunar, því að ég tel víst, að hæstv. fjmrh. hafi fullan hug á því að standa með einhverjum hætti við yfirlýsingu sína hér áðan.

Ég hef nú gert grein fyrir því, að á þau ákvæði, sem er að finna í 2., 4. og 5. gr. þessa frv., verður af minni hálfu ekki hægt að fallast.

Herra forseti. Það var um mánaðamótin júní og júlí, sem hæstv. ríkisstj. ritaði Alþýðusambandi Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands bréf, þar sem stungið var upp á, að þessir aðilar hæfu viðræður, m. a. til þess að finna ráð til þess að stöðva hinar hættulegu víxlhækkanir kaupgjalds og verðlags, en það orðalag var einmitt notað þar. Ég tók eftir því í ræðu hæstv. forsrh., þegar hann gerði grein fyrir stefnu hæstv. ríkisstj. í upphafi þessa þings, að þá var einmitt oft notað þetta orðalag líka og einnig í ræðum hans um þetta mál í hv. Nd. og hér áðan. Ég vil hins vegar vara menn mjög við því að fara að reyna að einfalda verðbólguvandamálin þannig að tala um þau bara eins og einhvern einfaldan vítahring, þar sem verðhækkanirnar og kauphækkanirnar drífa hvað annað áfram sitt á hvað. Það er vitað, að það koma ekki allar verðhækkanir fram í vísitölu og þar af leiðandi ekki í þeim verðlagsuppbótum, sem við vísitöluna eru miðaðar, og ef þetta væri svona, að það væri ekki annar vandi á ferðinni en þessar víxlhækkanir, þá mundi vítahringurinn smátt og smátt hægja á sér, þangað til hann stöðvaðist. Það hafa raunar líka oft verið gerðar tilraunir til þess að stöðva þessar víxlhækkanir kaupgjalds og verðlags, sem verið er að tala um, ýmist með því að reyna að stöðva verðlagið um stuttan tíma eða þá með því að taka kaupgjaldið úr sambandi við verðlagið og stöðva það. En alltaf heldur verðbólgan áfram þrátt fyrir það, þó að þessar víxlhækkanir séu stöðvaðar um hríð eða þessi vítahringur stoppaður. Og mér virðist það þess vegna alveg ljóst, að í þessu vandamáli, sem nefnt er víxlhækkanir kaupgjalds og verðlags, er ekki að finna frumorsök þess vanda, sem við er að fást, verðbólguþróunarinnar í landinu. Með því að ráðast á það vandamál eitt út af fyrir sig er ekki tekið á rótum þess vandamáls, sem um er að fjalla. Slíkar ráðstafanir eru aðeins bráðabirgðaráðstafanir. Þær eru ráðstafanir til þess að kaupa sér einhvern frest, eins og raunar kom fram hjá hæstv. forsrh. hér áðan, og ber að fagna því, að sá skilningur skuli vera fyrir hendi.

Stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja gerði ályktun í sambandi við þetta frv., sem fyrir liggur til umr., sem er með þeim hætti, að ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa hana hér. Hún er svo hljóðandi:

„Vegna frv. ríkisstj. um ráðstafanir til stöðugs verðlags og atvinnuöryggis ályktar stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja: Almenningur er löngu þreyttur á síendurteknum bráðabirgðaráðstöfunum í dýrtíðarmálunum. Stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja skorar því á Alþ. að grípa nú til nýrra úrræða til þess að stöðva verðbólguþróunina. Stjórnin telur þær aðgerðir, sem frv. gerir ráð fyrir, alls ófullnægjandi til þess að leysa sjálfan vandann og stöðva verðbólguna. Aðgerðirnar eru með sama marki brenndar og allar dýrtíðarráðstafanir frá lokum heimsstyrjaldar. Þær eru bráðabirgðaúrræði nær algerlega á kostnað launþega, en árangurslausar sem framtíðarlausn. Stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja gerir það að till. sinni, að allar peningalegar tilfærslur, skuldir og innistæður, laun og vextir, verði tengdar réttri vísitölu og gengið gefið frjálst að mestu leyti. Takmarkaðar skammtímaráðstafanir auka aðeins á misréttið í þjóðfélaginu og viðhalda jafnvægisleysi efnahagslífsins. Aðeins með samræmdum heildaraðgerðum er von til að ráða niðurlögum verðbólgunnar, en hún er þjóðarböl. Í stað endurtekinna bráðabirgðaráðstafana verða að koma aðgerðir, sem koma á jafnvægi, jafnvel þótt þær skaði stundarhagsmuni einhverra.“

Nú kann að vera, að mönnum sýnist sitt hvað um einstök atriði, sem fram koma í þeim hugmyndum, sem lýst er í þessari ályktun. Ég fyrir mitt leyti hef hvað eftir annað lýst áhuga mínum fyrir því, að fjárskuldbindingar yfirleitt væru í sem ríkustum mæli verðtryggðar til þess að forða frá því ranglæti og margvíslega órétti, sem verðbólgan hefur í för með sér í sambandi við fjárhagsviðskipti manna. Um það að gefa gengið að mestu leyti frjálst vil ég nú kannske áskilja mér frekari umhugsunarfrest, en eigi að síður á Bandalag starfsmanna ríkis og bæja þakkir skildar fyrir það að setja fram ályktun af þessu tagi. Það er með henni undirstrikaður vilji þeirra, sem að henni standa, til þess að það sé reynt að taka á vandamálunum í fullri alvöru og ekki kaupa sér stundarfrið, þegar kosningar eru fáa mánuði undan.

Ég hef tekið svo eftir því, sem hæstv. forsrh. hefur sagt, að hann bæði hér í d. og einnig í því, sem ég hef í blöðum séð haft eftir honum úr hv. Nd., að hann telji það eðlilegt að nota verðstöðvunartímabilið til þess að finna önnur og varanlegri úrræði í verðbólguvandamálinu. Það er gott, að sá skilningur skuli vera fyrir hendi hjá hæstv. forsrh., þó að gallinn sé að vísu sá, að yfirlýsingar af þessu tagi voru líka gefnar haustið 1966, og hæstv. ríkisstj. hefur nú haft 11 ár til þess að finna leiðir til þess að fást við þetta vandamál. Það hefur á þeim áratug orðið meiri aukning á verðbólgunni en á nokkrum öðrum tíma að undanteknum ef til vill sjálfum stríðsárunum. Á þessum seinasta áratug, 1960–1970, hefur verðbólguaukningin numið 250%. En á árunum 1950–1960, sem þóttu nú ekki allt of góð, nam hún ekki nema 123%. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé engin tilviljun, að svona hefur farið. Ég álít, að til þess liggi mjög ljósar orsakir, sem ekki sé sérstökum erfiðleikum bundið að benda á. Og í stuttu máli er þær fyrst og fremst að finna í rangri stjórnarstefnu. Í því sambandi má nefna þætti stjórnarstefnunnar eins og þá oftrú, sem hæstv. ríkisstj. hefur á því, sem hún byrjaði fyrir 10 árum að kalla „rétta gengisskráningu“, „rétt gengi“. Það er alveg ljóst, að ef eitthvað er til, sem heitir „rétt gengi“ hjá þjóð eins og okkur Íslendingum, þá er það breytilegt frá mánuði til mánaðar, jafnvel frá viku til viku stundum, því að ef menn meina eitthvað með því, þegar þeir tala um „rétt gengi“, þá er það það gengi, sem gefur útflutningsatvinnuvegunum hæfilegar tekjur til þess að reka sinn rekstur miðað við erlent verð á hverjum tíma. En erlent verð á afurðum okkar Íslendinga er, eins og kunnugt er, mjög breytilegt. Þessi oftrú hæstv. ríkisstj. á því, sem hún kallar „rétt gengi“ og sem er auðvitað innflutt hugmynd frá þjóðum, sem búa við algerlega stöðugt verðlag á sínum útflutningsafurðum, hefur leitt til gengisbreytinga oftar en einu sinni á þessu tímabili, sem hafa verið byggðar á röngu mati, og reynzt óþarfar eða of miklar. Það er enginn vafi á því, að gengislækkunin 1961 var algerlega ástæðulaus, og ég held, að það hafi raunar ekki verið liðnir mjög margir mánuðir, þegar enginn maður reyndi af verulegri sannfæringu að mæla henni bót. Það er enginn vafi á því heldur, að gengislækkunin 1968 var miðuð við aðstæður á okkar mörkuðum, sem menn áttu að sjá, að voru ekki varanlegar, enda hefur tíminn leitt það í ljós, að þau vandamál, sem þá var við að etja, hefði mátt ráða við með öðrum hætti en þeim að fella gengið svo mikið sem gert var og skapa þar með óafturkallanlegar verðhækkanir, sem auðvitað eiga sinn þátt í verðbólguþróuninni.

En það er ekki bara oftrúin á „rétt gengi“, þetta orðalag, sem í rauninni hefur aldrei verið skilgreint, heldur einnig oftrúin á peningapólitíkina, sem er einn sá þáttur stjórnarstefnunnar, sem örlagaríkastur hefur verið í þessu sambandi. Þegar verðlagsþróunin er einna óhagstæðust, þá er hrópað á Seðlabankann að krefja nú viðskiptabankana um að takmarka nú útlánin. Nú megi útlánin ekki aukast, því að það sé verðbólgumyndandi. En peningapólitík af þessu tagi er tilgangslítil, nema henni fylgi rétt fjármálapólitík. Ég trúi því ekki, að menn haldi það í raun og veru, að peningapólitík, sem er fólgin í því að takmarka útlán, geti komið að gagni á sama tíma og ríkissjóður er með stórfelldum greiðsluhalla ár eftir ár, ef milljónahundruð eru tekin að láni erlendis til þess að koma áfram framkvæmdum hér heima fyrir og borga innlendan kostnað þeirra, þegar bruðlið í ríkissjóði er búið að gleypa allar tekjurnar frá nauðsynlegum framkvæmdum. En sú stefna, sem hófst hér með enska kosningaláninu, sem tekið var veturinn 1962–1963, og hefur síðan verið haldið áfram í sívaxandi mæli, er með þeim hætti, að það þarf enginn að halda og heldur væntanlega heldur enginn, að það þýði mikið að vera að heimta það, að smáviðskiptabankar hér innanlands takmarki útlán sín, á meðan þannig er stefnt af hálfu ríkissjóðs sjálfs. Þessi stefna er svo komin fram í því, að greiðslubyrði þjóðarinnar af vöxtum og afborgunum af erlendum lánum, sem árið 1959 var 8.4% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar, var á árinu 1969 samkv. upplýsingum, sem ég hef undir höndum frá Seðlabanka Íslands, 16.9%. Þar voru vextir og afborganir af lánum samtals 2697 millj. kr., en heildargjaldeyristekjurnar námu á því ári 15910 millj. kr. Af þessum 2697 millj. kr., sem vextir og afborganir af erlendum lánum námu, voru nærri 1500 af opinberum lánum og um 1200 rúm af einkalánum, þar með töldum öllum skipa- og bátalánum.

Ég ætla ekki að rekja þessi mál frekar, tel þetta raunar nægja til þess að slá því alveg föstu, að það getur ekkert afstýrt þeim voða, sem framundan er, ef verðbólgan leikur áfram lausum hala, eftir að þessari verðstöðvun, ef hún þá tekst, lýkur, nema gerbreytt stjórnarstefna. Það er ekki satt og það hefur aldrei verið satt, að það mætti leysa verðbólguvandann með einu pennastriki. Hann verður ekki leystur nema með langri og harðri baráttu á mörgum vígstöðvum, og þó að mér þyki leitt að sjá það, að hæstv. fjmrh. var einmitt fjarverandi, meðan ég var að tala um þá hluti, sem ég helzt hefði viljað tala við hann, þá er hann nú kominn hér inn aftur, og ég vil ljúka máli mínu með því að segja það, að sú barátta, sem hefja verður gegn verðbólgunni á mörgum vígstöðvum og af fullri alvöru og einurð, verður að hefjast með því að taka til í ríkissjóði sjálfum.