15.03.1971
Efri deild: 64. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í B-deild Alþingistíðinda. (960)

231. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Efni þessa frv., eins og hv. þdm. mun vera kunnugt, er það að auka nokkuð tollaívilnanir hvað snertir takmarkaða tölu bifreiða, sem keyptar eru af atvinnubílstjórum annars vegar og úthlutað er til lamaðra og fatlaðra hins vegar. Nú má auðvitað deila um, hvort slíkar undanþáguheimildir eigi rétt á sér, það geti alltaf verið hætta á vissri misnotkun á þeim, en þessar heimildir eru þegar fyrir hendi, þannig að frv. breytir ekki öðru þar um heldur en að auka þetta nokkuð. Eins og nál. á þskj. 462 ber með sér, þá hefur fjhn. orðið sammála um að mæla með því, að frv. yrði samþ. óbreytt, en ég vil rétt aðeins geta þess, að eftir að n. hafði afgreitt álit sitt, barst mér sem formanni n. bréf frá Félagi ökukennara, þar sem þeir óska sérstaklega eftir því, að þeir njóti í þessu efni svipaðra fríðinda eins og verið hefur, eða verði gerðir hliðstæðir atvinnubifreiðastjórum eins og verið hefur. Nú eru þessir menn vitanlega þeim hliðstæðir að því leyti, að atvinna þeirra krefst þess, að þeir hafi bifreiðar til afnota. Í núgildandi heimildarákvæðum þar að lútandi er ekki sérstaklega talað um þessi fríðindi til handa ökukennurum og svo er heldur ekki í því frv., sem hér liggur fyrir. Nú vil ég taka það fram, þar sem þetta erindi hefur ekki verið lagt fyrir fjhn., að ég tala um þetta atriði ekki í neinu umboði hennar, en vildi þó lýsa því sem persónulegri skoðun minni, að ég tel eðlilegt, að þetta frv. raski ekki stöðu ökukennara í þessu sambandi, þannig að ég teldi óeðlilegt annað en að framkvæmdin í þessu efni væri eins og hún hefði verið, að þeir nytu í þessu efni svipaðra fríðinda og þeir hafa notið, auðvitað með tilliti til þeirra breytinga, sem nú hafa verið gerðar. Að gefnu þessu tilefni vildi ég lýsa þessu sem mínum skilningi og komi ekki fram sérstakar aths. við það af hálfu hæstv. fjmrh. eða annarra þdm., þá mundi ég lita þannig á, að hv. þd. féllist einnig á þessa skoðun. Að öðru leyti, hæstv. forseti, þá leggur n. til, að frv. verði afgreitt óbreytt til 3. umr.