26.01.1972
Efri deild: 40. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1359 í B-deild Alþingistíðinda. (1027)

11. mál, stöðugt verðlag

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Brbl. þau, sem hér eru til umr., hafa í raun og veru runnið skeið sitt til enda, og þess vegna má segja, að óþarfi sé að fjölyrða um frv. það til l. um staðfestingu á þeim, sem hér er til afgreiðslu. Ég get þó ekki stillt mig um að nefna nokkur atriði í þessu frv. með örfáum orðum og vil þá minna á það, að það er alveg rétt, sem frsm. n. sagði, að hér er ekki um ágreining að ræða um aðalatriði málsins, eins og raunar kom fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. við I. umr. um þetta frv. í haust. Það var í raun og veru svo, að það var yfirlýst stefna fráfarandi ríkisstj. að framlengja svokölluð verðstöðvunarlög allt til áramóta, en aftur á móti var það staðhæfing þáv. stjórnarandstöðu í kosningabaráttunni, að slíkt væri ekki gerlegt nema með sérstökum öðrum ráðstöfunum. Þessi röksemd þáv. stjórnarandstöðu er nú að engu gerð af henni sjálfri, þegar hún fer í stjórnaraðstöðu, með flutningi og gerð brbl., sem í raun og veru framlengja verðstöðvunina fram til síðustu áramóta. Um þetta meginatriði málsins er sem sagt ekki ágreiningur og aðeins ástæða til þess að benda á ósamræmi í málflutningi stjórnarsinna nú annars vegar og fyrir kosningar hins vegar. Þá er það rétt að nefna, að að hluta til hafa þessi lög eða efni þessara laga verið framlengd fram yfir síðustu áramót og eru nú í gildi, og á ég þar við framlengingu á launaskatti, 1.5%, og framlengingu á svokölluðum verðstöðvunarákvæðum sjálfum, en þessar framlengingar hafa átt sér stað með alleinkennilegum hætti, þar sem á seinustu dögunum fyrir jólaleyfi þm. var skotið inn framlengingunni um launaskattinn, 1.5%, í tryggingalagabálk sem ákvæði til bráðabirgða, ef ég man rétt, og hins vegar voru verðstöðvunarákvæðin sett sem ákvæði til bráðabirgða í frv., er fjallaði um skipun verðlagsnefndar. Ég held, að þessi vinnubrögð sýni mjög skýrlega, hve handahófskennd vinnubrögð stjórnarinnar eru og hve lítillar forsjálni gætir almennt í þeim, þegar svo mikilvæg atriði eru gerð að löggjafaratriði með þessum hætti á síðustu dögum fyrir jólaleyfi algerlega að þarflausu, vegna þess að eftir misseris setu gat stjórnin hafa gert sér grein fyrir, hvernig með þessi mál ætti að fara eftir áramótin.

Það var að vísu svo, að ákvæðinu um áframhald verðstöðvunarinnar fylgdi yfirlýsing hæstv. viðskrh. á þá leið, að hér væri ekki um framlengingu verðstöðvunar að ræða eða réttara sagt væri það ekki vilji stjórnarinnar, að þessi ákvæði héldust með fyrra nafni, verðstöðvun. En engu að síður voru meginatriði þeirra ákvæða tekin upp óbreytt og þ. á m., að allar verðbreytingar þyrftu að hljóta samþykki ríkisstj. allrar til þess að öðlast gildi og vera lögmætar. Þannig er það nú svo, að ríkisstj. viðurkennir nauðsyn og þörf á endurskoðun á verðlagi ýmiss konar vöru og þjónustu, en áskilur sér rétt til þess og raunar krefst þess, að hún fjalli um hverja einustu þeirra. Ég vek athygli á, hve slík vinnubrögð eru óeðlileg. Þau hljóta að vera tafsöm, þegar sjálf ríkisstj. þarf að vasast í slíkum málum. Slíkt er réttlætanlegt, ef verðstöðvun stendur um stuttan tíma og ætlunin er í raun og veru, að verðlag allt sé óhreytt, en hitt er algerlega út í hött og raunar óframkvæmanlegt, nema ríkisstj. vilji drekkja sér í meðferð slíkra mála, að hafa slík vinnubrögð til lengdar.

Þá er rétt enn fremur að vekja athygli á í sambandi við þetta frv., sem hér er til umr., að sú sýndarmennska var viðhöfð við setningu brbl. 21. júlí s.l., að frestun sú á greiðslu verðlagsuppbótar á laun, sem samsvaraði tveimur vísitölustigum, var stytt um einn mánuð frá því, sem upprunalega var ráð fyrir gert, og enn fremur var afnumið það ákvæði, að í kaupgreiðsluvísitölu skyldi ekki taka tillit til þeirrar verðhækkunar, sem varð á útsöluverði áfengis og tóbaks og á iðgjaldi til almannatrygginga. Að þetta sé sýndarmennska hefur komið því betur í ljós, sem ráðagerðir núv. hæstv. ríkisstj. hafa séð dagsins ljós, nefnilega þær, að við afnám svokallaðra persónuskatta eða nefskatta fellur niður réttur launþega til kauphækkunar að því er tekur til fjögurra vísitölustiga, vegna þess að í stað þess að greiða persónuskatta, iðgjöld almannatrygginga og iðgjöld sjúkratrygginga með persónusköttum, sem gengu inn í vísitöluna og hefðu leitt til hækkaðra launa, greiða launþegar nú sömu útgjöld í sköttum, sem ekki ganga inn í vísitöluna, þá er í raun og veru verið til frambúðar að taka af launþegum rétt til kauphækkunar, er svarar til fjögurra vísitölustiga.

Í frv. því til l., er var hér til meðferðar á Alþ. í nóv. 1970, var ekki farið í grafgötur með það, að ætlunin væri að taka vísitöluskrúfuna úr sambandi að því er tók til ákveðinnar hækkunar á áfengi og tóhaki og almannatryggingaiðgjaldi og að því er tók til frestunar á þeim vísitölustigum, þá var gengið beint framan að vandamálinu og það ekki dulið fyrir launþegum, hvað gera skyldi. Nú hins vegar er reynt að fara aftan að þeim og ætlun löggjafans eða ríkisstj. er bersýnilega að fara á bak við þá. Þetta hljótum við að átelja um leið og þetta mál er rætt, og ég tel rétt, að þessi atriði komi hér fram, en þau m.a. urðu til þess, að við fulltrúar Sjálfstfl. í fjhn. skrifum undir nál. með fyrirvara. En að öðru leyti munum við ljá efni þess fylgi okkar.