17.04.1972
Neðri deild: 62. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1376 í B-deild Alþingistíðinda. (1052)

227. mál, virkjun Lagarfoss

Frsm. (Sigurður Magnússon):

Herra forseti. Iðnn. Nd. hefur fjallað um frv. til l. um breyt. á l. nr. 111 30. des. 1970, um virkjun Lagarfoss, 227. mál, og mælt með samþykkt þess. Eins og fram kemur í nál., var einn nm., Pétur Pétursson, fjarverandi. Þessar breytingar á lögunum eru gerðar vegna tilboðs í orkuvélar, sem reyndist öðruvísi en ætlað var. Um þetta segir í aths. við frv.:

„Þegar vélar til virkjunarinnar voru boðnar út á s.l. sumri, var að sjálfsögðu miðað við þá vélastærð, sem lögin gera ráð fyrir. Eins og hæstv. rn. er kunnugt, bárust hagstæðustu vélartilboðin frá Skodaexport í Tékkóslóvakíu, og það enda þótt stærð á túrbínu þeirri, sem boðin var, væri 10 þús. hestöfl.“

Við þessar upplýsingar í aths. við lagafrv. þetta er litlu að bæta. Það getur þó komið hér fram, að tilboð í vélar og útbúnað bárust frá 11 framleiðendum, flest þannig, að hver framleiðandi bauð í einstaka þætti útbúnaðarins. Tilboðinu var tekið frá Skodaexport í allan vélaútbúnað að undanskildum fjarskiptabúnaði, en tilboði í hann var tekið frá Brown Boveri. Heildarverð tilboðsins voru rúmar 93 millj. ísl. kr., en það tilboð, sem næst kom, hljóðar upp á 105 millj. ísl. kr., í báðum tilvikum miðað við fob-verð. Greiðsluskilmálar voru svipaðir hjá öllum aðilum.

Það er ekki ástæða til þess að hafa fleiri orð um þetta. N. hefur fjallað um frv. og telur eðlilegt að gera þessar breytingar á lögunum um virkjun Lagarfoss til að hægt sé að ganga að fyrrnefndu tilboði.