21.04.1972
Efri deild: 60. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1399 í B-deild Alþingistíðinda. (1112)

210. mál, Stofnlánadeild samvinnufélaga

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft til athugunar þetta frv. um Stofnlánadeild samvinnufélaga, og mælir n. með því, að frv. verði samþ.

Aðalatvinnugreinar í þjóðfélaginu hafa hver um sig aðgang að stofnlánadeildum við þá banka, sem þessar atvinnugreinar skipta aðallega við, og hefur þessi aðstaða reynzt ómetanleg í sambandi við uppbyggingu í atvinnurekstrinum. Með lögum frá árinu 1966 var sett á stofn Stofnlánadeild verzlunarfyrirtækja, og starfar sú deild við Verzlunarbanka Íslands og veitir þjónustu einkaverzlun landsmanna. Forvígismenn samvinnuhreyfingarinnar hafa árum saman rætt um það, að það væri nauðsynlegt fyrir samvinnuhreyfinguna, að komið yrði á fót sérstakri stofnlánadeild til stuðnings samvinnuverzluninni í landinu. Og með þessu frv., sem flutt er af hæstv. ríkisstj., er komið til móts við þessar óskir samvinnuhreyfingarinnar.

Samkv. þessu frv. á að vera heimilt bankaráði Samvinnubankans, að fengnu samþykki hluthafafundar, að stofna sérstaka deild við bankann, er nefnist Stofnlánadeild samvinnufélaga. Tilgangur stofnlánadeildarinnar er að styðja verzlunarrekstur samvinnufélaga með hagkvæmum stofnlánum vegna byggingar verzlunar- og skrifstofuhúsnæðis samvinnufélaga og fyrirtækja innan þeirra vébanda, sem verzlun stunda, svo og til meiri háttar endurbóta á slíku húsnæði. Það er oft á það minnzt, að koma þurfi á aukinni hagræðingu í atvinnurekstri, og hlýtur það að ná til verzlunarþjónustunnar eins og ýmissa annarra atvinnugreina. Til þess að koma slíkri hagræðingu á þarf oft að ráðast í nýjar framkvæmdir og leggja í allmikinn stofnkostnað og nær þetta vitanlega til samvinnuverzlunarinnar eins og annarra atvinnugreina. Með því að koma á þeirri stofnlánadeild, sem frv. mælir fyrir um, þá verður mjög létt undir á þessu sviði með samvinnuhreyfingunni.

Frv. þetta er í öllum meginatriðum samhljóða lögum frá 1966, um Stofnlánadeild verzlunarfyrirtækja. Stofnlánadeildin er hugsuð sem sjálfstæð deild með sjálfstæða fjárábyrgð, sérstakar fjárreiður og sjálfstætt bókhald. En hún verður tengd Samvinnubankanum m.a. á þann veg, að bankaráð Samvinnubankans fer með stjórn stofnlánadeildarinnar og stjórnin á að taka ákvarðanir um lán úr deildinni.

Eins og ég tók fram í upphafi þessa máls, þá leggur fjhn. til, að frv. þetta verði samþykkt.