09.02.1972
Neðri deild: 39. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1401 í B-deild Alþingistíðinda. (1126)

159. mál, lífeyrissjóður bænda

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 305 er frv. til l. til breyt. á l. nr. 101 frá 28. des. 1970, um lífeyrissjóð hænda. Þegar þau lög voru upphaflega sett, voru þau í veigamestu atriðum sniðin eftir hliðstæðum lögum, sem launþegar í Alþýðusambandinu höfðu fengið. Þær breytingar, sem gerðar eru með þessu frv., eru einnig sniðnar eftir breytingum á þeim lögum, sem gerðar hafa verið um lífeyrissjóð aldraðra í stéttarfélögum. Það er gert ráð fyrir því í lögum um lífeyrissjóð bænda, að þau yrðu endurskoðuð nú á þessu ári, en stjórn lífeyrissjóðsins hefur nú óskað eftir því, að það verði dregið, svo að frekari reynsla liggi fyrir, áður en heildarendurskoðun verði gerð.

Breytingar þær, sem þetta frv. gerir ráð fyrir frá gildandi lögum, eru: Í fyrsta lagi, að það eru rýmkuð skilyrði til lífeyrisréttinda með því að felld eru niður skilyrði um, að bóndi hafi búið til ársloka 1967. Þeir bændur, sem reiknaður er réttindatími frá 1954, fái lífeyri, hafi þeir búið til 1964. Maður, sem náð hefur 75 ára aldri, á rétt til eftirlauna óháð því, hvort hann er hættur búskap eða ekki, uppfylli hann önnur skilyrði laganna. Tekinn er upp einfaldari reikningsgrundvöllur, sem jafnframt gefur hærri ellilífeyri. Þetta er í samræmi við það, sem aldraðir félagar í stéttarfélögum fengu með I. nr. 63 1971. Við þetta hækkar ellilífeyrir úr 12.5% í 18%, ef réttindatími er 10 ár, úr 30 til 36%, ef réttindatími er 20 ár. Réttur til makalífeyris er rýmkaður, og komið er á gagnkvæmari tengingu við lögin um eftirlaun til aldraðra félaga í verkalýðsfélögum. Í þeim lögum eru ákvæði þess efnis, að t.d. verkamaður skuli fá reiknaðan með sem réttindatíma þann tíma, sem hann hefur verið bóndi, og þetta er nú gert gagnkvæmt. Einnig er dregið úr skerðingu lífeyris vegna vinnutekna. Þess er getið í grg., að hér eru ekki tekin upp verðtryggingarákvæði á eftirlaunagreiðslu, enda var við setningu laganna talið óraunhæft að hafa þau að óbreyttum tekjugrundvelli. Er því lagt til, að þetta atriði haldist óbreytt, og verði tekið upp við heildarendurskoðun laganna.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, enda er hér um það eitt að ræða að samræma löggjöfina um lífeyrissjóð bænda við löggjöfina um eftirlaun í stéttarfélögum, sem hún var upphaflega miðuð við. Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.