10.05.1972
Efri deild: 78. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1416 í B-deild Alþingistíðinda. (1148)

159. mál, lífeyrissjóður bænda

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Lög um lífeyrissjóð bænda voru afgreidd á síðasta þingi. Þar var um nýmæli að ræða og því ekki óeðlilegt, að við framkvæmd laganna kæmu fram ýmis atriði, er reynslan sýndi, að ástæða væri til að breyta, bæði til lagfæringar og til að gera framkvæmd laganna auðveldari en ella. Þegar lög um lífeyrissjóð bænda voru sett, voru höfð til hliðsjónar lög, sem áður höfðu tekið gildi um lífeyri til handa öldruðum félögum í stéttarfélögum.

Ríkisstj. flutti nokkuð snemma á þessu þingi frv. það, sem hér liggur fyrir, og var það borið fram eftir ósk stjórnar lífeyrissjóðs bænda. Þetta frv. felur ekki í sér neinar stórbreytingar á þeirri löggjöf, en nokkur atriði, sem aðallega miða að samræmingu og nokkurri rýmkun á lífeyrisgreiðslum í vissum tilvikum frá því, sem lögin, er sett voru í fyrra, heimila. Við þessar tiltölulega smávægilegu breytingar er einnig höfð hliðsjón af lögum um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum, eins og þau lög eru orðin nú.

Þetta frv. felur í sér aðallega þrjú atriði. Það er gert ráð fyrir að fella niður það skilyrði, að þeir bændur, sem njóti lífeyris, þurfi að hafa stundað búskap í árslok 1967, og er nokkuð rýmkað til í þessu efni frá því, sem lögin kveða á um, þau er sett voru í fyrra.

Í öðru lagi er ákveðið í þeim breytingum, sem hér liggja fyrir, að allir bændur, sem náð hafa 75 ára aldri, eigi rétt á eftirlaunum samkv. þessum lögum, án tillits til þess, hvort aðili hefur látið af búskap eða ekki, enda uppfylli hann öll önnur skilyrði laganna. Þetta miðar að því að gera framkvæmdina ótvíræðari og einfaldari en annars væri. Það liggur í augum uppi, að sá maður, sem orðinn er 75 ára, hefur þegar misst starfsorku til að geta unnið erfiðisvinnu, en sumir aldraðir bændur hafa þann hátt á að minnka smám saman bústofn sinn og búrekstur, en láta jörð sína ekki af hendi að fullu, jafnvel þótt þeir hafi náð þessum aldri.

Í þriðja lagi er rýmkað nokkuð skerðingarákvæði laganna, sem kveður á um það, að lífeyrir úr þessum sjóði skerðist, ef bóndi aflar sér tekna af eigin vinnu eða eigin framleiðslu. Þetta skerðingarákvæði er nokkuð rýmkað og leiðir af því nokkra útgjaldaaukningu fyrir sjóðinn, eftir að þetta hefur orðið að lögum og er komið til framkvæmda.

Þetta frv. var tekið til athugunar í hv. fjhn. N. mælir með því, að frv. verði samþ. eins og það kom frá hv. Nd. og liggur hér fyrir.