04.05.1972
Efri deild: 75. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1497 í B-deild Alþingistíðinda. (1291)

209. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Aðeins vegna þess að vísað hefur verið til þess í umr. hér, að ég var í þeirri nefnd, sem undirbjó þetta frv., og hafði um það nokkra sérstöðu, vil ég leyfa mér að segja örfá orð. Raunar þurfa þau ekki að verða mörg, því að ég hafði áður gert grein fyrir minni afstöðu við 1. umr. þessa máls.

Það er rétt, að í hinni svonefndu niðursuðunefnd var ég í minni hl. hvað viðvíkur skipun stjórnar þessarar stofnunar. Ég taldi eðlilegt, að meiri hl. yrði í höndum framleiðenda, og þarf ekki að rökstyðja það með mörgum orðum. Mér sýnist, að hið opinbera sé fyrst og fremst sameiginlegt þjónustufyrirtæki okkar allra, sem innheimtir fjármagn með sköttum og tollum og beinir því aftur út í atvinnulíf og þjóðlífið á þann máta að styrkja það, sem styrkja þarf, og sem betur fer er það yfirleitt gert, án þess að krefjast þess, að hið opinbera hafi meirihlutaákvörðunarvald í einstökum greinum atvinnulífsins. Þetta gerir hið opinbera í dag á fjölmörgum sviðum. Það er rekin hér viðamikil rannsóknastarfsemi. Það eru reknar hér athuganir á útflutningi iðnaðarvara með miklu fjármagni, bæði erlendis frá og innlendu, og þannig mætti lengi telja. Mér er að vísu ekki vel kunnugt af eigin raun, hvernig þróun frystiiðnaðarins var, en þó veit ég, að það opinbera lagði þar mjög mikið af mörkum upphaflega og kom raunar þeirri grein á fót, en afhenti síðan samtökunum sjálfum, sem síðan hafa rekið þetta af miklum myndarbrag.

Ég er einnig þeirrar skoðunar, að framleiðendur eigi stærstra hagsmuna að gæta í öllu slíku sambandi. Þeir, sem tengjast slíkri stofnun einu sinni, fara ógjarnan frá henni aftur. Þeir eiga ekki hægt um vik að losa sig þaðan. Þeir eru orðnir háðir henni meira eða minna um alla framtíð.

Ég taldi hins vegar eðlilegt, að hið opinbera hefði eftirlit með því fjármagni, sem það ráðstafar til þessara atvinnugreina, t. d. á þann máta, að fjárhagsáætlun væri háð samþykki ráðh., meðan fjármagn kæmi frá hinu opinbera til þessa fyrirtækis, og einnig gæti hið opinbera að sjálfsögðu haft endurskoðanda og aðrar leiðir til að fylgjast þar með.

Um þetta varð ekki samkomulag. Ég taldi aftur á móti svo nauðsynlegt fyrir þennan atvinnuveg að fá þetta frv. fram, því að það er sannfæring mín, eftir að ég tel mig hafa kynnzt þessum málum vel, við störf í umræddri nefnd, að fyrst og fremst hái þessari atvinnugrein mjög veik eða nánast því engin sölu- og markaðsstarfsemi eða skipulag. Og því taldi ég rétt að fallast á það, sem hér er orðið samkomulagsatriði milli þeirra, sem undirbjuggu frv., að hið opinbera hafi meiri hl. í stjórn þessarar stofnunar fyrstu fimm árin, en eftir það snúist það við. Ég skal viðurkenna, að þó að ég hefði kosið hina leiðina fremur, sé ég ekki, að mjög miklu sé fórnað. Ég geri ráð fyrir því og vænti þess, að áhrifa einstaklings, sem hefur hagsmuna að gæta í þessari grein, gæti verulega í þessari stjórn þegar frá upphafi, og ég treysti því, að þeir menn, sem þarna verða skipaðir af hinu opinbera, og sé enga ástæðu til annars, taki fyllilega tillit til sjónarmiða framleiðenda. Ég held, að annað komi ekki til greina, enda ljóst, að eftir tiltölulega skamman tíma fá framleiðendur meiri hl. í stjórninni eins og er með önnur sölufyrirtæki sjávarútvegsins.

Ég vil taka undir það með hæstv. iðnrh., að það er afar nauðsynlegt, að samstaða náist um þetta mál. Ég held, að það sé svo með hvert mál, að fyrst og fremst verði það til farsældar, að góð samstaða náist, og ekki sízt með þetta mál. Framkvæmd þessa máls er afar mikið háð því, að framleiðendur verði með í þessum samtökum frá upphafi, og ég held, að allir hv. þm. ættu að stuðla að því, að svo gæti orðið. Ég fyrir mitt leyti tel, að miðað við þann ágreining, sem er, sé það skásta leiðin að fallast á þetta mál eins og það er nú. Ég mun gera það, styðja málið eins og það er lagt fram, og vil beina því til annarra hv. þm., að þeir geri það sama með það í huga, að sem bezt samstaða náist.