31.01.1972
Neðri deild: 36. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1522 í B-deild Alþingistíðinda. (1325)

149. mál, Íþróttakennaraskóli Íslands

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil fagna því, að hæstv. menntmrh. hefur lagt hér fram þetta frv. um Íþróttakennaraskóla Íslands, en eins og hann tók fram, var þetta frv. lagt fram á síðasta þingi af fyrrv. menntmrh., en varð þá ekki útrætt. Ég verð að segja það, að mér finnst, að það hafi verið alllangur dráttur á því frá því, að nefnd var skipuð til þess að semja frv. um Íþróttakennaraskóla Íslands og þar til frv. var lagt fram á s. l. ári. Ég vænti þess því, að hæstv. menntmrh. og hv. menntmn. þessarar d. leggi á það áherzlu, að þetta frv. fari nú í gegn á þessu þingi.

Uppbyggingu Íþróttakennaraskólans á Laugarvatni hefur miðað fremur seint áfram þangað til nú á síðustu árum, að veitt hefur verið talsvert fé til að byggja þar mjög myndarlegt heimavistarhús, og fjárframlög síðustu fjögur árin hafa verið mjög myndarleg, og þau mál hafa verið leyst m. a. með góðri samvinnu við Íþróttasamband Íslands. En hins vegar skaut nokkuð skökku við í sambandi við afgreiðslu síðustu fjárl., að þá er ekki farið eftir till. skólastjóra Íþróttakennaraskólans um áframhaldandi fjárveitingar til skólans og þær eru skornar niður það mikið, að þær nægja vart til þess að ljúka endanlega við frágang á heimavistarhúsnæði. Þó að vitað sé, að frá því að þessi skóli var gerður að ríkisskóla, eru liðin, að mig minnir, tæp 30 ár, þá er enn þá kennt í bráðabirgðahúsnæði í þessum skóla, og þegar breytt er nú um stefnu og námstími tvöfaldaður í þessum skóla, þá er ekki jafnframt hægt að draga úr eða jafnvel fella niður framkvæmdir til uppbyggingar á þessum skóla. Ég vil mjög ákveðið vænta þess, að hæstv. menntmrh. taki það upp í till. síns rn. við gerð fjárl. fyrir árið 1973, að myndarlegt stofnframlag verði til þessa eina íþróttakennaraskóla á landinu.

Hæstv. menntmrh. gat þess, að ekki væru allir sammála um, að Íþróttakennaraskóli Íslands ætti að vera á Laugarvatni. Þetta kemur fram í bréfi, sem er prentað hér sem fskj. með þessu frv., en það er bréf frá Íþróttakennarafélagi Íslands varðandi staðsetningu skólans, en þar segir svo um staðsetningu skólans að Laugarvatni:

„Í þessu sambandi vill stjórnin . . .“ þ. e. stjórn þessa félags, Íþróttakennarafélags Íslands, „. . . taka fram, að hún telur, að staðsetning skólans að Laugarvatni hafi ýmsa ókosti í för með sér og geri til að mynda skólanum illmögulegt að fá sérmenntaða kennara til starfa.“

Mér finnst rétt og mér fannst vænt um það, að það kom órækt fram hjá hæstv. ráðh„ að hann telur óráð að hverfa frá því, að Íþróttakennaraskólinn verði á Laugarvatni, þar sem honum var á sínum tíma ætlaður staður og þar sem búið er að byggja mikið fyrir hann. Þess vegna kemur manni þessi hugmynd mjög á óvart í umsögn félags eins og félags íþróttakennara, og í raun og veru má segja það sama um það álit svo margra, að það sé eiginlega ekki hægt að staðsetja neina stofnun nema í Reykjavík. Ég skil ekki í því, að við getum haldið áfram að byggja allt landið, ef þessi sjónarmið eiga að vera lengur ráðandi. Og þá spyr maður: Var þessi skóli settur niður á einhverjum stað, þar sem erfitt var um samgöngur og þar sem lítil byggð var? Ég held, að flestir verði að viðurkenna það, að Laugarvatn er stór og vaxandi staður. Þar eru fimm menntastofnanir staðsettar: 1) Barnaskóli Laugardalshrepps, 2) Húsmæðraskóli Suðurlands, 3) Héraðsskólinn á Laugarvatni, 4) Menntaskólinn á Laugarvatni og 5) Íþróttakennaraskóli Íslands. Ég held, að hver sæmilega dómbær maður sé mér sammála um það, að slík staðsetning ætti að tryggja það, að það væri hægt að fá kennslukrafta að þessum skóla eins og öðrum skólum á þeim stað. Ég held, að þetta sjónarmið sé orðið svo ríkt hjá mörgum, að a. m. k. Alþ. verði að fara að taka harðar á þessu en hefur verið gert oft áður. Mér fannst eiginlega ekki hægt að láta þessa umr. fara fram, án þess að þessu sjónarmiði væri mótmælt, því að ég tel, að fyrst skólanum var ákveðinn staður á Laugarvatni í upphafi og fyrst búið er að vinna þar að framkvæmdum upp á tugi millj. kr., þá sé nú eiginlega varla hægt að hlusta á þá aths., að nú þurfi endilega að hlaupa frá því og færa þennan skóla til Reykjavíkur. Það er líka búið að koma upp aðstöðu til íþróttaiðkana og íþróttakeppni á Laugarvatni á undanförnum árum, og enginn ætti að gera lítið úr því, sem þegar hefur verið gert, þó að margt sé ógert við þennan skóla, og ég held, að það væri stigið spor aftur á bak, ef taka ætti tillit til slíkra sjónarmiða sem þessara.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég endurtek það, að ég fagna því, að hæstv. menntmrh. hefur lagt fram þetta frv. að nýju svo til óbreytt, eins og fyrrv. menntmrh. lagði það fram hér á síðasta þingi, og ég vænti þess, að þetta frv. fari nú í gegn á þessu þingi og í framhaldi af því beiti hæstv. menntmrh. sér fyrir því, að upp verði teknar í fjárl. næsta árs myndarlegar upphæðir til framkvæmda við þessa einu menntastofnun sinnar tegundar hér á landi.