03.05.1972
Efri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1711 í B-deild Alþingistíðinda. (1617)

124. mál, Tækniskóli Íslands

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja nokkur orð um þetta mál, þar sem ég hef átt nokkurn þátt í því að móta þá stefnu, sem felst í till. menntmn. varðandi það frv., sem hér er til umr.

Menntmn. tók þetta mál til umr. á mörgum fundum sínum og þá frá mörgum hliðum, og niðurstaðan varð þessi, sem lýst er á þskj. 658. Ég vil lýsa því almennt yfir, að ég er hlynntur því að flytja ríkisstofnanir út á land, og ég tel mestu nauðsyn, að undinn sé bráður bugur að því að reyna að skipuleggja það meira en gert hefur verið fram að þessu. Ég er sammála því, sem hér hefur áður komið fram, að þó að mótbárur séu ætíð uppi hafðar, þegar um slíkt er að ræða, þá er það ekki nema eðlilegt. Það veldur alltaf vissum sársauka og vissum erfiðleikum að flytja stofnanir út á land. Það er alltaf hægt að finna mótrök gegn því. Satt að segja er hægt að rökstyðja það með góðum rökum, að hverja einustu stofnun eða fyrirtæki sé hentugast að reka í Reykjavík eða á Reykjavíkursvæðinu. En staðreyndin er auðvitað sú, að hvað snertir skólastarfsemi, þá er einkar auðvelt að færa hana út á land og reka hana úti á landi. Það er nú svo með ýmsar stjórnarstofnanir, sem fela í sér miðstjórnarvald, að það er erfitt að hafa þær langt í burtu frá ráðuneytum eða Alþ., en það liggur nokkuð í augum uppi, að hvað skólastofnanir snertir, þá er sérstaklega auðvelt við það að eiga að staðsetja þær annars staðar.

Varðandi þetta mál, þá er kjarninn sá, að það er enn allt í óvissu með það, hvaða stefna verður tekin um skipulagningu tæknimenntunar í landinu. Sú stefna er ekki fullmótuð, og málið er í heild í athugun. Það hefur komið fram í nál. n„ sem falið var að gera till. um þetta mál, að skynsamlegast gæti verið að sameina verkfræðideild Háskólans og þann hluta Tækniskólans, sem felur í sér raunverulegt tæknifræðinám, þannig að þá yrðu ekki eftir nema tækniskólar með undirbúningsdeild og raungreinadeild, og ég tel persónulega, að það sé algjörlega fráleitt, að það sé farið að togast á um það hér í þinginu, hvort Tækniskóli Íslands skuli staðsettur norðan eða sunnan heiða, ef svo fer, að eftir 1 eða 2 ár verði tekin ákvörðun um það, að tækniskóli í núverandi mynd skuli alls ekki starfræktur, það skuli vera skólar, sem séu aðeins með brot af þeirri kennslu, sem í dag er talin eiga að tilheyra tækniskóla. Þess vegna finnst mér einkar skynsamlegt, að þessu máli í heild sé raunverulega slegið á frest, staðsetningarspursmálinu sjálfu, og það sé haldið áfram uppbyggingu tækniskólans á Akureyri með því að bæta þar við einni deild, raungreinadeild, en málið í heild skoðað enn frekar og þá að sjálfsögðu athugað, eins og hér kemur fram í till., hvort ekki kæmi til greina, að væntanlegur tækniháskóli yrði þá staðsettur á Akureyri. Ég vil lýsa því yfir sem minni skoðun, að ég tel þetta vel hugsanlegt og að allt tæknifræðinám og þá verkfræðinám yrði sem sagt flutt til Akureyrar og það væri þar starfrækt.

Ég vil taka það fram í sambandi við tilmæli 2. þm. Norðurl. e., Magnúsar Jónssonar, að ég tel það alveg sjálfsagt, að ábendingar hans séu teknar til nánari athugunar. Það er áreiðanlega skynsamleg ábending, sem hann kemur fram með, að það kæmi til greina að orða 1. gr. frv. á annan veg en gert er, og sem formaður n. ætla ég að lýsa því yfir, að ég mun beita mér fyrir því, að málið verði tekið til athugunar.