18.05.1972
Efri deild: 90. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1746 í B-deild Alþingistíðinda. (1710)

268. mál, orlof húsmæðra

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Frv. þetta er stjfrv. komið frá hv. Nd. Það tók þar þeirri breytingu, að inn í það var bætt ákvæði, eins og fram kemur á þskj. 838, ákvæði um, að þar sem orlofsnefndir húsmæðraorlofs séu starfandi og þar sem mæðrastyrksnefndir séu starfandi, þar skuli húsmæðraorlofsnefndir leita samstarfs við mæðrastyrksnefndir. Þegar ég fór fyrst að kynna mér efni þessa frv. þegar það var lagt fram, saknaði ég þess frá núgildandi löggjöf, að ekki skyldi vera minnzt á í frv. samstarf við mæðrastyrksnefndirnar, né að þær höfðu verið brautryðjendur í starfrækslu húsmæðraorlofs, t. d. hefur mæðrastyrksnefnd hér í Reykjavík beitt sér fyrir og starfrækt orlofsdvöl fyrir bæði konur með börn og konur einar nú um 40 ára skeið. Ég vil því lýsa ánægju minni yfir, að þessi breyting hefur orðið á frv.

Þá vil ég einnig lýsa ánægju minni yfir því, að það skuli vera ætlunin að hækka framlag ríkisins til húsmæðraorlofs svo myndarlega sem gert er með þessu frv. Þegar núgildandi lög um húsmæðraorlof voru sett, var frv. um þau flutt hér á hv. Alþ. Það var að tilhlutan Kvenfélagasambands Íslands. Málið var flutt hér í þessari hv. þd., við stóðum að því þm. úr öllum þingflokkum sem þá voru. Ég minnist þess, að í því frv. var eitt ákvæði, sem Kvenfélagasambandið lagði áherzlu á, auk þess að það lagði mikla áherzlu á samstarf við mæðrastyrksnefndir, og það annað ákvæði, sem Kvenfélagasambandið lagði einnig ríka áherzlu á, var fellt út, en það var um það, að konurnar, sem orlofsréttinn áttu, skyldu skattlagðar með 10 kr. gjaldi á ári. Þetta ákvæði var fellt út í meðförum þingsins, vegna þess að það — sem auðvitað út af fyrir sig var rétt, — svaraði ekki kostnaði að innheimta svo lágt gjald, — 10 kr. voru þó snöggtum meira virði og meiri peningur þá en er í dag, — og féll það þannig út. En mér þykir ástæða til þess að rifja þetta upp hér, vegna þess að á bak við þetta bjó sú hugsun, að þær konur, sem orlofsins áttu að njóta, legðu einnig fram nokkuð á móti að sínu leyti og þeim fyndist þær þá kannske ekki vera algjörlega á snærum þess opinbera, að því er fjáröflunina snerti.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um frv. Eins og ég hef líklega tekið fram og fram kemur í nál., mælir heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. einróma með samþykkt frv. án breytinga, þ. e. eins og það liggur nú fyrir hv. þd.