08.05.1972
Efri deild: 77. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1748 í B-deild Alþingistíðinda. (1718)

240. mál, eftirlit með skipum

Frsm. (Bjarni Guðbjörnsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, var rætt á fundi sjútvn. hinn 3. maí og leggur n. einróma til, að frv. verði samþ. óbreytt. Í lögum um eftirlit með skipum, sem samþ. voru í maí 1970, er gert ráð fyrir því, að fimm manna nefnd skipuð af ráðherra til 6 ára í senn fylgist eftir föngum með starfi sjódóma, safni upplýsingum, sem skýrt geti eða upplýst orsakir sjóslysa, og á nefndin m. a. að gera till. um ráðstafanir til þess að draga úr slysahættu á sjó. Það er alkunnugt, að oft er skemmdum veiðarfærum eða hlutum úr veiðarfærum fleygt í sjóinn af fiskiskipum. Síðustu árin hefur orðið mikil breyting á efnum til veiðarfæra í sjó, en nú er almennt farið að nota gerviefni, sem eru miklu sterkari og endingarbetri en þau efni, sem áður voru notuð, og þessi gerviefni fúna seint eða aldrei og sökkva ekki, heldur fljóta í sjónum til tjóns fyrir dýralíf og eru auk þess hættuleg fyrir siglingar, þar sem þessir úrgangshlutir flækjast oft í skrúfur skipa og hafa oft og iðulega valdið gífurlegu tjóni. Er skammt að minnast þess, er vélbátinn Lunda frá Vestmannaeyjum rak stjórnlaust upp í hafnargarðinn í Vestmannaeyjahöfn og gereyðilagðist, eftir að trolldræsa lenti í skrúfu bátsins. Var mesta mildi, að ekki varð manntjón í það skiptið.

Nefnd sú, er ég gat um áðan og kölluð hefur verið sjóslysanefnd, hefur vakið athygli á þessu vandamáli og talið nauðsynlegt, að lögfest verði bann við því að henda ónýtum veiðarfærum eða hlutum úr þeim í sjóinn, en engin lagaheimild er fyrir hendi, sem bannar slíkt. Þess vegna hefur þótt nauðsynlegt að lögfesta bann við slíku, og það er tilgangur þessa frv., sem hér liggur fyrir.

Sjútvn. hefur einróma samþ. að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt.