16.05.1972
Efri deild: 83. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1787 í B-deild Alþingistíðinda. (1784)

276. mál, staðfesting Bernarsáttmálans til verndar bókmenntum og listaverkum

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Það mál. sem hér er lagt fyrir, frv. um heimild ríkisstj. til handa til að staðfesta Bernarsáttmálann í nýjustu gerð hans, er í rauninni fylgifrv. með frv. til höfundalaga, sem áður hefur verið borið fram. Frv. þetta fjallar um það, að ríkisstj. sé heimilað að staðfesta þá gerð Bernarsáttmálans, sem gengið var frá á ráðstefnu Bernarsambandsríkja í París í júlí 1971. Þar sé heimilt að gera fyrirvara um einstök ákvæði og þær takmarkanir varðandi aðild, sem ríkisstj. þykir við eiga og heimilt er að gera samkv. Bernarsáttmálanum. En eftir að sáttmálinn hefur verið staðfestur með þeim takmörkunum og þeim fyrirvörum, sem gerðir kunna að verða, skulu þau ákvæði hans, sem Ísland er við bundið, hafa lagagildi hér á landi frá þeim tíma, sem ríkisstj. ákveður. Ísland gekk í Bernarsambandið 1947 og var þá bundið við þá gerð Bernarsáttmálans, sem frá var gengið 1928. Nú eru ný höfundalög loks langt komin í afgreiðslu Alþ„ og er því eðlilegt, að þeim fylgi heimild til staðfestingar á þeirri gerð Bernarsáttmálans, sem nú gildir á alþjóðavettvangi.

Ég vil svo leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.