17.05.1972
Neðri deild: 82. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1829 í B-deild Alþingistíðinda. (1874)

255. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þannig er nú komið þinghaldi, að ekki er tími til langra ræðuhalda um þau mál sem menn hafa áhuga á að fái endanlega afgreiðslu. Þær miklu ræður, sem hér hafa verið fluttar, gætu leitt til mjög langra umræðna, en ef ég tæki þátt í þeim. mundi ég stofna afgreiðslu málsins í fulla tvísýnu, og það ætla ég ekki að gera.

Svo að ég komi fyrst að því, sem síðast var sagt hér, hvað líði fjárútvegun til húsbyggingasjóðsins, vil ég aðeins segja það, að ekkert er um það í þessu frv. og um það þurfum við ekki að deila í sambandi við afgreiðslu þess, en unnið hefur verið að því að reyna að ná samningum við lífeyrissjóði, samband þeirra, um lánveitingu til húsnæðismálasjóðsins, 200–250 millj. kr. Atvinnuleysistryggingarnar hafa greitt úr með upphæð, sem nemur um 60 millj. kr., og ef þessir samningar takast, þá er þarna um að ræða fjárútvegun, sem nemur um 300 millj. Ég býst við því, að svo geti farið, að það þurfi að útvega meira fé á þessu ári, til þess að starfsemin sé rekin af fullum þrótti, sem auðvitað verður að gerast, og þetta er eingöngu af því, að búið var að nota svo mikið af fé Byggingarsjóðs á árinu 1972 fyrir fram, að samkv. skýrslu húsnæðismálastjórnar voru ekki eftir nema 50.4 millj. af tekjum þessa árs. Það er það, sem skapar vandann. Að öðru leyti hafa þetta verið tiltölulega litlar upphæðir á ári hverju, sem hefur vantað umfram, en þannig er komið, að nú er búið að éta þetta fyrir fram. Það er því sá vandi, sem blasti við, þegar hæstv. fyrrv. ríkisstj. fór frá, og aðallega er undirrótin að fjárskorti Byggingarsjóðsins á árinu í ár. En úr því þarf að bæta eftir sem áður. Það er alveg sama, hverjum það er að kenna, bæta þarf úr þessu, því að féð er ekki fyrir hendi, það er búið að verja því, búið að nota það.

Hv. meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. með nokkrum breytingum, og vil ég taka það fram. að sú breyting. sem er mest samkv. till. meiri hl., er sú að fella 4. gr. niður. Hún er um það, að ráðh. skuli skipa í stjórn verkamannabústaða í sveitarfélögum og í stjórn þessari skuli eiga sæti fjórir menn, sem skipa skuli þannig, að tveir séu þar tilnefndir af sveitarstjórn, einn eftir tilnefningu verkalýðsfélags í sveitarfélaginu og einn án tilnefningar, sem jafnframt skuli vera formaður stjórnarinnar. Varamenn skuli skipaðir á sama hátt. Kjörtímabilið verði fjögur ár. Þetta er 4. gr., sem lagt er til nú að verði felld niður. Í henni er breyting frá því, sem nú er í gildandi lögum, á þann veg, að það er fækkað þarna verulega í stjórn verkamannabústaðanna úti um landið. Núna er þetta sjö manna fylking og sjö varamenn, 14 manns, og hefur tekið óratíma hjá mörgum sveitarfélögum að safna þessu saman. Þrír skulu tilnefndir af sveitarfélaginn, af hreppsnefndinni eða sveitarstjórn, þrír skulu tilnefndir af húsnæðismálastjórn suður í Reykjavík og einn af verkalýðsfélagi. Þegar þessar tilnefningar hafa svo allar verið komnar, hefur félmrn. skipað formann úr hópi þessara manna. Þetta er þunglamalegt fyrirkomulag og alveg áreiðanlega ekki hægt að tengja það við störf þessara manna, að þeir þurfi að vera svona margir. Það er eitthvað annað, sem þarna er á bak við. Þarna er sem sé í 4. gr. lagt til, að þessum mönnum sé fækkað. Svo báglega hefur gengið að undanförnu að tilnefna þessa 14 menn, sjö aðalmenn og sjö varamenn í stjórn verkamannabústaðanna víða úti um land, að stjórnirnar eru rétt fyrir skömmu komnar á laggirnar sums staðar, og eru þó nærri tvö ár síðan lögin voru sett. Ég hef því sagt við hv. þingnefnd: Ég get fallizt á það, að við látum þessar fjölmennu fylkingar starfa að stjórn verkamannabústaðanna úti um landið og fáum reynslu af, hvernig þessar fjölmennu stjórnir gefast og starf þeirra, og verum ekki að svipta þá þeirra umboði núna, þegar þeir eru rétt setztir á rassinn í stólana sína. Þannig er nú þessi breyting gerð, að felld er niður 4. gr. frv. með fullu samþykki mínu til þess að reynsla komist á þessar fjölmennu stjórnir, sem eiga að sjá um byggingu verkamannabústaða, sjö aðalmenn og sjö varamenn, jafnvel í hinum fámennustu sveitarfélögum.

Ekki deilum við um það, rétt er það, að engin fjárútvegun er í því að hækka 50 millj. kr. framlagið til kaupa á eldri húsum í 70 millj., það er aðeins breyting, sem er í samræmi við fengna reynslu. Þessi heimild til þess að verja meira fé til kaupa á eldri húsum hefur verið of naum, hún er rýmkuð þarna. Rétt er það, að með því kreppir að hinni almennu lánagetu sjóðsins. Það er alveg rétt og það fellur því ásamt öðru undir þann vanda, sem fyrir hendi er hvort eð er, að útvega meira fé til hinna almennu lána. Meginefni frv. er hins vegar þetta: Settir skulu meðaltalsársvextir yfir allt lánstímabilið, 25 ár, og skulu þeir að meðtalinni þóknun veðdeildarinnar aldrei vera hærri en 73/4%, þ. e. vextirnir sjálfir 71/2% meðaltalsvextir yfir allt lánstímabilið. Frá fyrsta degi að lánið var tekið og þangað til lánstíminn er útrunninn sé meðaltalið 71/2%, og 1/4% komi svo fyrir þjónustu veðdeildarinnar að því er snertir afgreiðslu lána. Þetta er meginefni þessa frv. Þetta ákvæði kemur í staðinn fyrir þau vaxtakjör, sem nú eru, sem byrja með 4% og taka síðan á sig kaupgjaldsvísitölu frá ári til árs, og menn hafa nú komizt að niðurstöðu um það, að í lok lánstímans og á síðari hluta hans séu þessir vextir með vísitöluálaginu orðnir óhóflega háir eða langt fyrir ofan það að geta heitið okurvextir. Menn gerðu sér, þegar þetta ákvæði var tekið upp, vonir um, að stjórnvöldum á Íslandi kynni að heppnast að hemja svo verðbólgu og dýrtíð, að þróunin yrði ekki slík. Annað atriði kom líka til, og þetta var samkomulag milli ríkisstj. og verkalýðshreyfingar, — það er alveg hárrétt, sem hv. 10. þm. Reykv. sagði hér áðan, — en það var gert í þessari góðu trú, að með því væri verið að setja einmitt vísitöluálag á lánastarfsemina í landinu, og því var heitið, að það skyldi gert að því er snerti öll verðtryggð lán. Frá því hvarf svo ríkisstj., og þá varð sú skoðun almenn, a. m. k. í verkalýðshreyfingunni, að forsendur væru svo breyttar, að sjálfsagt væri að breyta þessu kerfi. Fráfarandi ríkisstj. hafði haft góð orð um það, að þarna stefndi greinilega í ófæru og þessu yrði að breyta, og setti menn til þess að rannsaka þetta mál ofan í kjölinn, tvo frá Seðlabankanum og tvo frá Alþýðusambandinu. Niðurstaðan er sú, að þetta verði óhóflega há og dýr lán til húsnæðismálanna einna með þessu kerfi, og þess vegna hélt ég, að enginn ágreiningur væri um að afnema vísitölukvöðina af húsnæðislánum. Og ég trúi því ekki, að það sé ágreiningur um það.

Menn segja: Það á bara að setja 4% vexti nú og þeir hækki svo upp í 71/2 eða 8% og látið þar við sitja. Það á að vera lausn málsins. En það er ekki viðunandi lausn málsins. Með þessari till., sem hér er í 3. gr., um 71/2% meðaltalsvexti, nær það til allra lána, sem veitt hafa verið til 1965, og fyrir allan þann lánstíma, og með tölvu, segja hagfræðingar, þjónustumenn Seðlabankans, að auðvelt sé að reikna út meðaltalsvextina frá byrjun. Þó að þeir séu komnir núna yfir markið upp í 8.1% u. þ. b., þá sé hægt að reikna út með tölvu, hverjir meðaltalsvextirnir skuli vera yfir allt tímabilið. En ef þetta er ekki gert, eru hæstir vextir á lánunum, sem tekin voru 1965, vegna þess að þau lán eru búin að taka á sig mestar vísitöluhækkanir, svolítið lægri á lánunum, sem tekin voru 1964, enn lægri á þeim, sem tekin voru 1963, og lánin, sem voru veitt núna. . . Nei, þetta er vitanlega alveg öfugt, að vextirnir eru hæstir á þeim lánum, sem eru búin að taka á sig mestar vísitölukvaðir, komnir á níunda %. Það þarf að laga, er það ekki? Það verður ekki gert með því að ákveða fasta vexti frá gildistöku þessara laga. Þeir menn, sem fengu síðan afgreidd lán núna á árinu 1971, með hvaða vexti eru þeir? Þeir eru með 4% vexti. Og þeir yrðu það áfram, ef ekki væru teknir upp meðaltalsvextirnir. Þannig væru menn, sem hefðu tekið lán á hinum ýmsu árum, með mismunandi vexti hjá sömu stofnun frá ári til árs. Það er lítt viðunandi. Nú er hins vegar lagt til, að lánin, sem veitt eru á þessu ári og framvegis, byrji með 4%, taki síðan á sig hækkanir þangað til komið er upp í það, að þan bera í lok lánstímans meðaltalsvextina 71/2% og eldri lánin sömuleiðis. Það verða einir og sömu vextirnir hjá öllum lántakendum Húsnæðismálastofnunarinnar frá því 1965 og til loka lánstímans á hverjum tíma með þessari reglu, og það er aðalvinningurinn með þessari tillögu. Ég efast um, að hv. þingnefnd hafi áttað sig á þessu, að verið er að reyna að ná þessu öllu saman undir eina og sömu vexti, ein og sömu vaxtakjör. Menn hafa ekki mér vitanlega dottið niður á aðra aðferð en þessa til þess. Og sérfræðingar segja, að þetta sé framkvæmanlegt, að tryggja, að þeir, sem eru orðnir of háir nú, lækki ofan í meðaltalið, og vextirnir af lánunum, sem tekin voru eftir gildistöku þessara laga, hækka þar til meðaltal þeirra til loka lánstímans á hverjum tíma verður 7½%. Það er þetta, sem verið er að seilast eftir, að fá sömu vaxtakjör hjá öllum þeim, sem lán hafa tekið og taka hjá Húsnæðismálastofnuninni, í staðinn fyrir að láta þá bera þá vexti, sem koma út að loknum lánstíma miðað við vísitöluálagið. Menn segja: Það liggur ekkert á að afgreiða þetta. Það er, held ég, líka byggt á nokkrum misskilningi. Það eru viss lán, sem nú ganga út á þessu ári, það á að fella þau undir meðaltalsvextina líka auðvitað. Þeir lántakendur, sem þá tóku lán, eiga ekki að borga hærri vexti en meðaltalsvextina, eftir að þessi lög hafa tekið gildi. En ef því er frestað, verða þeir látnir bera vaxtakjörin samkv. vísitöluálagsniðurstöðunni. Ég held því fram, að það sé sjálfsagt að afnema vísitölukvöðina á húsnæðislánunum nú þegar, ef við erum sannfærðir um, að það séu ekki viðhlítandi lánakjör. Ég hef nú vitnisburð eins hv. þm. áðan um það, að þetta að breyta lögunum í 7½% vexti og ¼% þóknun muni svipta Húsnæðismálastofnun eða Byggingarsjóð ríkisins svo miklu fjármagni, að hann geti orðið gjaldþrota við það. Hvað þýðir það? Það hljóta þá að vera einhverjar geysilega stórar upphæðir, sem lántakendur eru losaðir við að greiða með þessari breytingu. Annars getur ekki sjóðurinn farið flatt á því. Og það er tilfellið, það er verið að lagfæra lánakjörin, gera þau lántakendunum hagstæðari, og það þýðir auðvitað, að það gengur út yfir sjóðinn. Það er ekki hægt að játa það betur en með því að útmála, hversu miklu skakkafalli sjóðurinn verði fyrir. En enn þá meira skakkafalli yrði hann fyrir, ef lánakjörin yrðu bara ákveðin frá 4% og upp í 7½%. Það væri meiri blóðtaka fyrir hann, því að jafnmikið sem vextirnir frá 4% eru fyrir neðan 7½% verða þeir á síðari hluta lánstímans fyrir ofan 7½%, þannig að jöfnuður náist. Þetta hafa sérfræðingar Seðlabankans útfært með línuritum og gert þannig auðskilið hverjum manni.

Ég held það sé nú ekki annað eftir að ræða en það, sem ég hef gert grein fyrir, fækkunina í húsnæðismálastjórn. Ég er þeirrar skoðunar, að þó að störfin séu geysilega mikil, geti sjö menn að meðtöldum bankamanninum annað því starfi. Furðulegt þykir mér, ef það er skoðun manna, að með vaxandi verkefnum Húsnæðismálastofnunarinnar eigi að fjölga stjórnendum. Mér finnst ekkert samhengi á milli þessa. Aukin störf verða að hvíla á öðru starfsfólki. Með því að störfin hafa vaxið svo gífurlega, — þetta eru rök húsnæðismálastjórnar, — störfin hafa vaxið svo gífurlega mikið, er ekki of margt í húsnæðismálastjórninni, þó að núna séu þar átta menn. Ég held, að ekkert samhengi sé á milli þessa hins aukna starfs og fjöldans í húsnæðismálastjórn, þurfi ekki að vera það, eigi ekki að vera það. Menn viðurkenna, að það þurfi að hækka heimildina til lánveitinga út á eldri húsin. Það er gert. Vísitölukvöðina þarf að afnema. Ég segi, að það liggi á að gera það. Aðrir segja, að það megi bíða. En eftir hverju er að bíða með það? Ég hef síðan fallizt á að láta þessa sjö manna sveit úti um byggðir landsins halda sér við að stjórna byggingu verkamannabústaða þar og fá reynslu á þeirra störf, og varla getur það verið reiknað mér til ósanngirni.

Svo hefur n. verið beðin að flytja eina brtt., sem ég tel vera næstveigamestu breytinguna í frv. Hún er til þess að ráða bót á því, að samkv. lögum eða kaflanum um byggingu verkamannabústaða, eins og hann er nú, kemur það út, að af kauptúnum með 200–1000 íbúa fá þau fámennari alls ekki leyfi til að byggja eina íbúð verkamannabústaða, ekki einu sinni á 4 ára tímabilinu, sem þau eiga að gera áætlun fyrir. Þau, sem eru með 1000 íbúa, stærri kauptún eins og Bolungarvík, Ólafsvík og slík, að þeim er mjög kreppt, svo að vegna þessarar áætlunar og þessara ákvæða geta þau ekki farið í hagkvæman byggingaráfanga í einu, af því að þau eiga ekki rétt á nema einni til tveimur íbúðum á tímabilinu. Þetta þarf að laga. Þetta er alveg ótækt, því að mörg af þessum smæstu kauptúnum hafa einna mesta þörf fyrir að byggja verkamannabústaði. Tillagan er um þetta, þar segir:

„Ráðh. getur þó ákveðið hærra framlag úr ríkissjóði vegna mjög fámenns þéttbýlisstaðar, enda framlengist þá greiðsluskylda hlutaðeigandi sveitarfélags samkv. 1. mgr., þar til samanlögð framlög þess eru orðin jafnhá samanlögðu framlagi ríkissjóðs vegna sveitarfélagsins.“

Í örfáum orðum sagt þýðir þetta, að þegar þannig stendur á, að ekki er hægt að ráðast í hagfelldan byggingaráfanga í fámennu kauptúni, hraðar ríkissjóður greiðslum sínum um sinn, svo að hægt sé að fara í áfangann, en sveitarfélagið er ekki laust undan greiðsluskyldunni og greiðir áfram það framlag á mann, sem ráðh. hefur ákveðið, þá sennilega í hámarki, og heldur áfram að greiða það, eftir að byggingarnar eru komnar upp, þangað til sveitarfélagið hefur greitt jafnmikið og ríkið. Ég álít, að þarna sé sjálfsagt að víxla svona til fjármagninu, til þess að hægt sé að fara í hagfelldan byggingaráfanga. Ég vildi vona, að þessi breyting á gildandi lögum, breyting á 20. gr., viðbót við 20. gr. laganna, valdi ekki ágreiningi, því að full þörf er á því að gera þessa breytingu.

Þetta var það, sem ég taldi að þyrfti helzt um þetta að segja, og læt hér staðar numið, mun ekki fara í maraþonumræður, hvað sem á dynur, því að ég ætla þessu frv. líf, ætla ekki að taka þátt í að drepa það sjálfur.