17.05.1972
Neðri deild: 82. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1837 í B-deild Alþingistíðinda. (1878)

255. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Þegar við hverfum til þess tíma, er núverandi hv. stjórnarflokkar voru í stjórnarandstöðu, og rifjum nokkuð upp af því, sem þeir sögðu þá um ástandið í húsnæðismálum, voru lýsingar þeirra á húsnæðismálum hinar hörmulegustu og þungar ádeilur á fyrrv. ríkisstj. fyrir úrræðaleysi, eins og þeir kölluðu það, í húsnæðismálum og uppbyggingu húsnæðismálanna. Þar var engin undantekning í þessum kór núverandi hæstv. félmrh., og ég held, að óhætt sé að segja, að oft hafi heyrzt meira í honum en flestum öðrum um þessi efni. Nú skal ég fúslega játa það, að meðan sú ríkisstj. var við völd, sem ég studdi, vildi ég á margan hátt hafa ýmsa hluti öðruvísi. En það er nú eins í þessu og öðru, það verður að taka tillit til skoðana fleiri en sjálfs sín. Ég taldi þó, að með þeirri síðustu breytingu, sem gerð var á húsnæðismálalöggjöfinni, hefði verið stigið nokkuð myndarlegt skref í rétta átt. Hins vegar kom mjög greinilega í ljós hjá þáverandi hv. stjórnarandstæðingum. að það hefði ekki verið gert, enda er það svo, að þegar núverandi ríkisstj. var mynduð og þessir þrír flokkar, sem að henni standa, gerðu með sér hinn svokallaða málefnasamning, þá gleymdust ekki húsnæðismálin, sem ekki er von. Þeir mundu eftir flestu, sem hægt er að fá og njóta í jarðnesku lífi, eins og Ólafskver ber fagurlega vitni um. Í þessu margumrædda Ólafskveri segir um húsnæðismálin, með leyfi hæstv. forseta: „að gera ráðstafanir til að lækka óhóflegan húsnæðiskostnað almennings, m. a. með lækkun byggingarkostnaðar, hagstæðari lánum og með afnámi vísitölubindingar húsnæðislána.“ Þetta var það fyrirheit, sem ríkisstj. gaf í húsnæðismálum. Þeir höfðu mjög gagnrýnt vísitölubindingar á húsnæðislánum, sem verið hafa í gildi, og ég hygg, að flestir þeir, sem lán hafa átt hjá húsnæðismálastjórn, hafi búizt við því, meira að segja af ríkisstj., sem byrjaði jafnkröftuglega að efna loforð sín, að fá nú frv. til laga hæði um þetta atriði og svo önnur, sérstaklega um það að lækka óhóflegan húsnæðiskostnað almennings með því að lækka byggingarkostnaðinn. Það yrði flutt hér á þessu þingi frv. til laga um Húsnæðismálastofnunina og breytingar á húsnæðismálalöggjöfinni, mjög víðtækt frv., þar sem kæmu fram úrbætur á öllu því, sem þeir töldu, að hefði þurft að gera.

Ég vil alls ekki leyfa mér að kenna hæstv. félmrh. einum þennan króga, sem hér liggur fyrir, þetta húsnæðismálafrv. Ég held, að þeir eigi þetta frv. allir sjö. Þeir stóðu a. m. k. allir sjö og stjórnarflokkarnir að þessum málefnasamningi og þeir hljóta að hafa fjallað um þennan málaflokk eins og aðra sameiginlega í ríkisstj., og ég verð nú að segja það, að þegar fyrir liggur ákveðið loforð um afnám vísitölubindingar húsnæðislána, hélt ég, að ríkisstj. mundi í tæka tíð flytja frv. og lögfesta það, áður en gjalddagi þessara lána kæmi, sem var 1. maí s. l. Það hefur því verið svikið þetta loforð þetta árið hvað snertir gjalddaga húsnæðislána. Hitt liggur ekki fyrir í þessu frv. og kemur hvergi fram. hin fyrirheit ríkisstj. að gera tilraun til þess að lækka óhóflegan húsnæðiskostnað almennings með lækkun byggingarkostnaðar. Ég held, að það hafi samt verið gert eitthvað annað í þessum efnum en að lækka byggingarkostnaðinn. Ég hygg, að um það sé ekki að villast, að frá því að þessi ríkisstj. tók við völdum hafi byggingarkostnaðurinn stórlega aukizt, en það er auðvitað allt fyrrv. ríkisstj. að kenna, eins og þeir keppast nú allir við að segja á öllum sviðum. En er nú ekki kominn tími til eftir fullan meðgöngutímann og einum mánuði betur, sem ríkisstj. hefur verið við völd, að fara að gera eitthvað annað en bara að kenna öðrum um það, sem aflaga hefur farið og eins það, sem aflaga hefur farið á þessum 10 mánuðum, sem þeir hafa verið við völd? Ég held að þetta frv. sé svo lítils virði í sjálfu sér, að það sé ekki þess virði að sýna það. Ég bjóst við, eins og ég sagði áðan, að fram kæmi vandað frv., þar sem ríkisstj. legði sig alla fram um að standa við sín glæstu fyrirheit í þessum málum. En ég sé það ekki með þessu frv., sem hæstv. félmrh. hefur lagt fram og af sínu alkunna örlæti eignað sér, en eins og ég sagði áðan, ég held, að þeir séu sjö um að eiga þennan ómerkilega króga.