15.11.1971
Efri deild: 12. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1942 í B-deild Alþingistíðinda. (1960)

66. mál, afstaða foreldra til óskilgetinna barna

Flm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Efni þessa frv., sem er breyt. á lögum um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna, er það, að meðlagsaldur hækki úr 16 í 17 ár, en eins og menn vita, er meðlag með óskilgetnum börnum nú greitt þar til þau eru fullra 16 ára. Á síðasta þingi voru samþ. ný lög um almannatryggingar, lög nr. 72 frá 1971, og í þeim er kveðið svo á, að barnalífeyri skuli greiða þar til börn eru fullra 17 ára, m. ö. o. aldursmark barnalífeyris er hækkað úr 16 í 17 ár. Með þessu er því í rauninni slegið föstu, sem reyndar er almennt viðurkennt nú, að framfærsluþörfinni ljúki ekki með ómagaaldri barns. Með aukinni velmegun almennings og sívaxandi menntunarkröfum í nútímaþjóðfélagi leggja menn eðlilega kapp á að skapa börnum sínum sem bezta aðstöðu til þess að búa sig undir lífið og þau störf, sem þeirra bíða. Nú orðið stundar líka þorri ungs fólks framhaldsnám, eftir að skyldunámi lýkur.

Hér í Reykjavík halda meira en 90% unglinga áfram námi í gagnfræðaskólum borgarinnar, eftir að þau hafa lokið sínu skyldunámi. En til þess að forvitnast um framhaldsnám í landinu öllu sneri ég mér til Hagstofunnar, sem lét mér þær upplýsingar í té, að af unglingum, sem fæddir eru 1954, þ. e. urðu 16 ára á síðasta ári og ná 17 ára aldri nú á þessu ári, þá hafi 76.2% stundað framhaldsnám af ýmsu tagi skólaárið 1970–1971, þ. e. 3176 af 4167 unglingum, sem eru í þessum aldursflokki. Og gera má reyndar ráð fyrir, að flestir þessara unglinga haldi enn áfram námi. Þróunin hefur verið ákaflega ör í þessum efnum, og þessi hlutfallstala, 76.2%, á eflaust eftir að hækka að mun á næstu árum.

Ég vil í því sambandi minna á það, sem allir eru sammála um, að stefna beri að, og nú er leitazt við að koma í framkvæmd, að draga úr mun á aðstöðu ungs fólks í dreifbýli og þéttbýli til framhaldsmenntunar. Sú rýmkun á greiðslu barnalífeyris, sem nýju almannatryggingalögin ákveða, þ. e. til fulls 17 ára aldurs, nær hins vegar að sjálfsögðu ekki til meðlaga, sem greidd eru samkv. meðlagsúrskurði eða skilnaðarleyfisbréfi, svonefnds endurkræfs barnalífeyris. Eins og menn vita, hefur Tryggingastofnunin annazt milligöngu um greiðslu þessara meðlaga, sem hún innheimtir hjá sveitarfélögunum í heimasveitum barnsfeðra og sveitarfélögin aftur hjá barnsfeðrunum sjálfum. Það er alkunna, að ógiftar mæður og fráskildar, sem eru að baslast áfram með börn sín, eru gjarnan í hópi þeirra þegna í okkar þjóðfélagi, sem búa við erfiðastar aðstæður. Það er ákaflega hætt við, að börn þessara kvenna fari öðrum fremur á mis við þá framhaldsmenntun, sem nú er talin nauðsynleg öllu ungu fólki. Það virðist tæpast sanngjarnt, að þessar konur séu settar skör lægra með greiðslu lífeyris með börnum sínum en bótaþegar almannatrygginga. Barnalífeyrir samkv. lögum um almannatryggingar er m. a. greiddur vegna barna, sem hafa misst föður sinn eða móður, og satt að segja eru mæður óskilgetinna barna ekkert betur settar að þessu leyti en þó að feður barnanna væru fallnir frá, því að ég ætla, að það sé næsta fátítt, að af þeirra hálfu komi til önnur framlög til uppeldis og menntunar barnanna en það, sem úrskurðað er í meðlagsúrskurði.

Fyrir 1947 voru meðlögin ákveðin árlega og auglýst. Þau voru breytileg eftir aldri og heimili móðurinnar, voru ákveðin upphæð til fjögurra ára aldurs, lækkuðu síðan á aldursbilinu frá fjögurra til sjö ára, þegar skólaskylda hófst, hækkuðu síðan frá 7 til 15 ára aldurs og lækkuðu þá um helming fram að 16 ára aldri. Þessi stigsmunur á meðlögunum segir að vissu leyti sína sögu. Sem sé, að það var þá tiltölulega sjaldgæft eða mjög sjaldgæft samanborið við það, sem nú gerist, að börn héldu áfram námi, eftir að þau höfðu lokið skólaskyldu. Allt frá árinu 1947 hefur það ákvæði staðið í lögum um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna, að meðlög með óskilgetnum börnum megi ekki úrskurða lægri en barnalífeyri eins og hann er á hverjum tíma samkv. lögum um almannatryggingar, og með þessu frv. er lagt til, að einnig sé óheimilt að miða meðlagsskyldu barnsföður við lægri aldur barns en á hverjum tíma gildir um barnalífeyri almannatrygginganna, sem er nú, eins og ég áður sagði, 17 ár. Og enn fremur er lagt til, að þetta komi til framkvæmda 1. jan. 1972, en í frv. er lagt til, að lögin öðlist gildi þann dag, þ. e. að þetta komi sem sé til framkvæmda þá og einnig varðandi meðlög, sem áður hafa verið úrskurðuð aðeins til 16 ára aldurs.

Með þessu frv. er lögð til breyting á einu tilteknu atriði barnalöggjafarinnar, þ. e. meðlagsgreiðslunum. Það er rétt, að ég geti þess, að sifjalaganefndin, sem af Íslands hálfu er aðili að samstarfi Norðurlandanna um endurskoðun sifjalöggjafarinnar, er þegar farin að undirbúa endurskoðun á barnalöggjöfinni, þ. e. lögum um afstöðu foreldra til skilgetinna og óskilgetinna barna. Hér er hins vegar um eitt alveg afmarkað atriði þessarar löggjafar að ræða, eins og ég áður sagði, sem er nátengt almannatryggingalöggjöfinni og eðlilegt, að komi til framkvæmda samtímis henni, þ. e. um næstu áramót, en þá er nýju almannatryggingalögunum ætlað að koma til framkvæmda í heild, þó að viss ákvæði þeirra séu, eins og menn vita, þegar komin til framkvæmda með brbl. frá því í sumar.

Ég vil einnig láta þess getið, að þegar almannatryggingalögin voru til meðferðar í þessari hv. þd. á síðasta þingi, þá beitti ég mér fyrir því, að það var flutt brtt. við 72. gr. laganna. Í þeirri gr. segir, að mæður, sem fengið hafa úrskurð um meðlag með börnum sínum, geti snúið sér til Tryggingastofnunarinnar og fengið greitt samkv. úrskurðinum, og í frv., eins og það fyrst lá fyrir, var sagt: til 16 ára aldurs. Sú breyting, sem á var gerð, rýmkar þetta hins vegar þannig, að það er miðað við það aldursmark, sem um barnalífeyri gildir, en ekki bundið við 16 ára aldur, þannig að í almannatryggingalögunum er þegar heimild fyrir Tryggingastofnunina til þess að afgreiða meðlög fram að 17 ára aldri. Ég beitti mér fyrir þessu við þáv. form. heilbr.- og félmn. vegna þess, að ég taldi, að þessi breyting á aldursmarki vegna barnalífeyris hlyti að leiða til breytingar á aldursmarki vegna barnsmeðlaga einnig.

Þá má láta þess getið, að í nágrannalöndum okkar eru heimildir til að úrskurða meðlagsgreiðslur rýmri en hér hjá okkur. Í Danmörku t. d. nær meðlagsskyldan til 18 ára aldurs barns, og ég ætla, að í lögum annars staðar á Norðurlöndum. ég þekki þó bezt til í Danmörku, hafi verið heimildir til þess að ákveða meðlög lengur — í Danmörku jafnvel til 21 árs aldurs barns, ef um er að ræða, að barnið stundi nám fram að þeim aldri.

Mér er það ljóst, að flutningur þessa frv. kann að gefa mönnum ástæðu til að telja, að það þurfi að endurskoða ákvæði annarra laga, sem miða við 16 ára aldur í ýmsum tilvikum, og þá kannske einna helzt framfærslulögin. Ég tel þó, að það ætti ekki að tefja afgreiðslu þessa máls, sem hér er til umr. Bæði í framfærslulögunum og í lögum um afstöðu foreldra til skilgetinna barna, sem vitnað er líka til í lögum um afstöðu til óskilgetinna barna, segir, að foreldrar skuli framfæra börn sín, sem eru orðin 16 ára, framfærsluskyldunni lýkur sem sé ekki við 16 ára aldur. Þetta frv. leggur ekki ríkissjóði, ef samþ. verður, eða Tryggingastofnuninni útgjaldabyrðar á herðar. Hins vegar er því ekki að leyna, að það snertir sveitarfélögin. Það er alkunna, að sveitarfélögunum gengur mjög erfiðlega að innheimta meðlagsskuldirnar hjá barnsfeðrum og bera þau því töluverðan halla af þeim sökum. Nú tekur, að ég ætla, um næstu áramót til starfa Innheimtustofnun sveitarfélaganna, sem menn gera sér vonir um, að muni greiða úr þessum málum. Að vísu er tómt mál um að tala, að meðlagsskuldirnar verði nokkurn tíma innheimtar til fulls, en þó ætti í framtíðinni að vera hægt að innheimta hærrahlutfall af meðlagsskuldum en hingað til hefur verið.

Herra forseti. Þetta frv. um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna, mætti ætla, að væri eðlilegt, að færi til meðferðar í allshn., en vegna þess að frv. fjallar aðeins um eitt afmarkað atriði barnalöggjafarinnar, sem í frv. er nátengt almannatryggingalögunum, þá sýnist mér, að rétt væri að vísa því til heilbr.- og félmn. Ég legg því til herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn.