09.12.1971
Efri deild: 26. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1970 í B-deild Alþingistíðinda. (2111)

120. mál, orkulög

Flm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 151 hef ég leyft mér að leggja fram frv. til laga um breyt. á orkulögum, nr. 58 frá 29. apríl 1967. Breytingin er í því einu fólgin að bæta við í 2. lið 2. gr. svofelldri málsgr.:

….. hagnýtar jarðfræðilegar kannanir, m. a. vegna neyzluvatnsleitar og, ef við á, gegn greiðslu, samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.“

Eins og segir í nokkuð ítarlegri grg., sem þessu frv. fylgir, er hér fyrst og fremst um staðfestingu að ræða á því, sem þegar er orðið. En mér þykir þó þrátt fyrir grg. rétt að gera stuttlega grein fyrir þróun mála á þessu mikilvæga sviði, jarðfræðirannsókna og könnunar.

Það er að vísu rétt, að jarðfræðirannsóknir hófust hér á landi fyrir alllöngu, en veigamiklar urðu þær þó ekki, fyrr en þær voru teknar upp við Náttúrugripasafn Íslands, sem svo hét, og iðnaðardeild Atvinnudeildar háskólans, sem einnig hefur breytt um nafn. Á þessum tveimur stöðum störfuðu og starfa enn ágætir vísindamenn, m. a. maður eins og Tómas heitinn Tryggvason hjá iðnaðardeild Atvinnudeildar háskólans og menn eins og Sigurður Þórarinsson og Guðmundur Kjartansson hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Slíkir menn önnuðu nokkurn veginn eins og á þurfti að halda jarðfræðilegum rannsóknum. Þá var tiltölulega lítil skipting á milli undirstöðurannsókna og hagnýtra rannsókna. Venjulega var komið með verkefni til þeirra, og þeir leystu þau af hendi eins og þeir gátu, þegar þeir höfðu tíma til.

Fljótlega fór hins vegar að verða vaxandi þörf fyrir rannsóknir, einkum á hinu hagnýta sviði, ekki sízt í sambandi við auknar orkuframkvæmdir eða vatnsvirkjanaframkvæmdir hér á landi. Sömuleiðis í sambandi við nýtingu jarðhitans og raunar við mannvirkjagerð alla. Þess vegna var fyrir nokkrum árum litið á þetta mál og athugað, hvort ekki væri unnt að bæta það skipulag, sem þarna var, einkum á þann veg að reyna að sameina jarðfræðirannsóknir allar í einni stofnun. Þetta reyndist ekki unnt. Mætti það töluverðri andstöðu hjá vísindamönnum, ekki sízt þeim, sem vinna fyrst og fremst á hinu almenna sviði jarðfræði-. rannsókna. Þróunin varð því sú, að við Orkustofnun, sem áður hét Raforkumálastofnun, efldist smám saman mjög mikil starfsemi á þessu sviði, sem var nauðsynleg, eins og ég sagði fyrr, vegna vatnsvirkjana. Hins vegar lagðist þessi starfsemi niður við iðnaðardeild Atvinnudeildar háskólans, þegar lögin frá 1965 tóku gildi um rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Sömuleiðis fluttust jarðfræðirannsóknir Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem áður hét Náttúrugripasafn Íslands, yfir til háskólans, þegar háskólinn tók upp jarðfræðideild. Þannig hefur þróunin smám saman orðið sú, án þess að raunar væri nokkuð gert til þess af löggjafans hendi, að undirstöðurannsóknir, sem gjarnan eru svo kallaðar, hafa færzt yfir til jarðfræðideildar Háskóla Íslands, en hagnýtar athuganir hafa hins vegar smám saman aukizt, ekki aðeins á sviði vatnsvirkjana, heldur á öðrum sviðum framkvæmda, við Orkustofnun.

Ég tel fyrir mitt leyti þetta ekki óeðlilega þróun. Þó að ég væri sjálfur því fylgjandi, að þetta væri allt sameinað í eina stofnun, þá tel ég það, sem hér hefur gerzt, mjög viðunandi og get vel fallizt á, að að sumu leyti sé þetta hentugra.

Við það, að jarðfræðirannsóknir lögðust niður við iðnaðardeild Atvinnudeildar háskólans, sem sinnti áður fyrst og fremst hinum hagnýtu verkefnum, hefur skapazt nokkurt tómarúm. Hinir ýmsu framkvæmdaaðilar, sem áður leituðu þangað, hafa orðið að leita til jarðfræðinga við þessar tvær stofnanir, sem nú eru starfandi á þessu sviði, og þá fyrst og fremst til Orkustofnunar, og hefur hún því þannig smám saman tekið upp viðamiklar rannsóknir á ýmsum jarðfræðilegum sviðum fyrir aðrar framkvæmdir en vatnsvirkjanir. M. a. tók Orkustofnun að sér fyrir Rannsóknaráð ríkisins fyrir tveimur árum að hafa eftirlit með málmleit á Suðausturlandi. Í framhaldi af því var gerð till. til iðnrn. um það, að við Orkustofnun yrði komið á deild, sem tæki að sér hagnýtar jarðfræðilegar kannanir á hinu almenna sviði. Á s. l. ári var því einnig beint til Orkustofnunar, bæði af aðilum á sviði rannsókna og einnig öðrum aðilum, að sú stofnun tæki að sér í ríkara mæli en hún hefur áður gert undirstöðurannsóknir fyrir neyzluvatnsleit. Það mál bar mjög á góma á ráðstefnu, sem haldin var á s. l. ári á vegum Sambands ísl. sveitarfélaga, og hefur síðan oft verið á það minnzt, ekki sízt í sambandi við þær viðamiklu endurbætur, sem nú eru nauðsynlegar á fiskiðnaði landsmanna. Sérstaklega hefur jarðfræðingurinn Jón Jónsson fjallað allítarlega um þetta mál. m. a. í erindi, sem hann flutti á fyrrnefndri ráðstefnu. Einnig hefur Jón Jónsson árum saman annazt, við getum sagt næstum því í hjáverkum, jarðfræðilegar athuganir fyrir neyzluvatnsleit, en skipulögð starfsemi hefur ekki verið til á þessu sviði. Jón bendir á það af sinni reynslu og þekkingu, að til þess að unnt megi reynast að leiðbeina sveitarfélögum og öðrum, sem þarfnast betra vatns, séu nauðsynlegar viðamiklar undirstöðurannsóknir jarðfræðilegar, ekki sízt á þeim tveimur svæðum landsins, sem þekkt eru sem blágrýtissvæði, þ. e. á Vestur- og Norðvesturlandi og Austfjörðum. Á þessum svæðum telur Jón Jónsson, að illfært sé að leiðbeina um boranir þannig, að sæmilegs árangurs megi vænta, án þess að ítarleg athugun fari fram á sprungukerfi.

Með þetta í huga gerði ég tilraun á síðasta þingi, þegar ég sat hér stuttan tíma, til þess að fá samþykkta þáltill. um neyzluvatns rannsóknir og leit. Sú till. fékkst ekki afgreidd. Sömuleiðis gerði ég þá tilraun til þess að fá veitta l millj. kr. á framkvæmdaáætlun ríkissjóðs til neyzluvatnsleitar, en því var vísað á bug, m. a. með orðum. þáv. hæstv. fjmrh., sem taldi vafasamt, að hið opinbera gæti tekið að sér slíka starfsemi. Ég vil nú reyndar efast um það. Mér sýnist hið opinbera framkvæma grundvallarrannsóknir á fjölmörgum sviðum, sem lagaákvæði eru raunar ekki til um, t. d. á því sviði, sem ég nefndi áðan, leit að málmum og nefna mætti fjölmarga aðra þjónustu, sem svipað er ástatt með. Engu að síður taldi ég nauðsynlegt, til þess að enginn vafi ríkti um þetta atriði, að leggja fram það frv., sem hér er til umr., og taka það sérstaklega fram, að neyzluvatnsleit eða jarðfræðilegar kannanir vegna neyzluvatnsleitar skyldu vera þar með taldar, enda hygg ég, að fá verkefni séu raunar meira aðkallandi en stórátak á þessu sviði. Ég þarf ekki að rekja það fyrir hv. þm., hvernig ástandið er víða um land. Hygg ég, að margir þekki það, því að mikið hefur verið um það rætt.

Nýlega sagði mér maður, sem við fiskvinnslu starfar úti á landi, að á hans svæði kæmi varla það úrfelli eða þíða, að vatnið yrði ekki eins og forarpollur og bæri með sér inn í fiskvinnslustöðvarnar ekki aðeins mosaflygsur, heldur jafnvel alls konar skorkvikindi og annað, sem ekki þykir gott í rækjunni okkar eða fiskinum, sem á að fara til útflutnings. Víða eru sveitarfélög með kostnaðarsamar hugmyndir um að bæta úr þessu, t. d. mjög langar leiðslur í vötn, sem liggja hátt uppi á fjöllum, en alls ekki gefa raunar viðunandi lausn. Það er eðlilegt, að sveitarfélög treysti sér ekki til þess að leggja í mjög viðamiklar boranir án þess að fá betri leiðbeiningar en nú eru fáanlegar.

Ég ætla ekki að fara um þetta frv. fleiri orðum. Eins og ég sagði áðan, þá er grg. nokkuð ítarleg, og hygg ég, að hún skýri sig að mestu leyti sjálf. Ég vil því leyfa mér að ljúka máli mínu með því að leggja til. að frv. verði vísað til hv. iðnn.