16.03.1972
Neðri deild: 52. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1996 í B-deild Alþingistíðinda. (2164)

17. mál, atvinnu- og þjónustufyrirtæki sveitarfélaga

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég lét það koma fram hér við 1. umr. um þetta mál, að ég væri síður en svo hlynntur þeirri hugmynd, sem fram kemur í frv., og gerði þá nokkra grein fyrir, af hverju það stafaði: Ég þarf því ekki að hafa um þetta langt mál nú. En ég verð að segja það, að ég vil ekki gefa sveitarstjórnarmönnum kost á því að fara að stofna til einhverra braskfyrirtækja án þess þá að bera bara á því fulla ábyrgð. Ef um þjónustufyrirtæki er að ræða, sem eðlilegt er, að sveitarfélög hafi með að gera, þá er það eðlilegt, að sveitarfélagið standi fyrir því og beri á því alla ábyrgð. Venjulega er þar um smærri fyrirtæki að ræða og áhættuminni, en sveitarfélög hér á landi hafa lagt út í stórkostleg áhættufyrirtæki, og hefði þetta form verið komið á t. d., þegar flest stærri sveitarfélögin keyptu nýsköpunartogarana og ráku þá nokkurn tíma, hvernig hefði þá farið? Auðvitað hefðu hinar opinberu lánastofnanir tryggt sig með bakábyrgð, ótakmarkaðri bakábyrgð, sveitarfélaganna fyrir lánum sínum. En allir aðrir, allir einstaklingar, sem voru í góðri trú, vegna þess að þetta var rekið á vegum sveitarfélagsins, hefðu auðvitað veitt fyrirgreiðslu og lán án þess að gæta réttar sins, og það er vitað, að á flestum eða mörgum þessum útgerðarfyrirtækjum varð milljónatjón á þeim tíma. Sveitarfélögin munu hafa flest orðið að greiða allt, sem ég tel alveg eðlilegt og sjálfsagt. En hefði ekki verið svo, þá er ég sannfærður um, að bæði sjómenn og margir aðrir hefðu hreinlega tapað á því, því að þótt sjómenn hefðu fengið lögveð í skipunum, efast ég um, að þeir hefðu nokkurn tíma náð kaupi sínu út með því að yfirtaka skipin eða láta selja þau á uppboði með öllu því, sem vitað var, að hvíldi á mörgum þessara skipa.

Ég tel því alveg hiklaust, að við eigum að fara mjög varlega í það að opna þessa leið og kannske sérstaklega eins og nú stendur á, því að það er vitað, að í þeim kaupum, sem nú er verið að ganga frá og hefur verið gengið frá í sambandi við skuttogarana, hygg ég, að nokkur sveitarfélög hafi einnig áhuga á að verða aðilar. Ef þau eiga að geta lagt fram — við skulum segja ekki 100 þús. kr., eins og þarna er lágmarkið, heldur 1 millj. kr. eða eitthvað svoleiðis, og hafa svo ekki meiri ábyrgð á því og reksturinn fer öðruvísi en allir vona, tel ég, að þau sveitarfélög, sem í þetta leggja eða telja sig þurfa að leggja í það, eigi hreinlega að bera ábyrgð á gerðum sínum í sambandi við þetta, en geti ekki smeygt sér út úr því með rekstrarfyrirkomulagi eins og þarna er lagt til. (StefG: Gildir ekki sama með einstaklinga?) Það gildir allt annað með einstaklinga, vegna þess að þá veit sá, sem lánar, að hann er að lána einstaklingi, en ef hann er að lána heilu sveitarfélagi, þá er hann í þeirri góðu trú, að sveitarfélagið standi á bak við það. Það eru ekki allir einstaklingar, verzlanir eða aðrir, sem veita fyrirgreiðslu. Þeir fara ekki að gá í Lögbirtingablaðið til að sjá, hvaða form er á þessu. Þeir munu reikna með því, að það sé hið eðlilega form, að sveitarfélögin standi fyrir sínum gerðum eins og maður verður að ætlast til, að sveitarfélög geri almennt, þannig að viðhorf gagnvart einstaklingum er allt annað. Þá meta menn það, hvort þeir vilji lána einstaklingi, vilji hætta á að lána það og gera það upp við sig sjálfir á þeim grundvelli.

Þá er það einnig 6. gr. Ef á að fara að stofna sérstakt form til handa sveitarfélögunum vegna svona rekstrar, hví í ósköpunum á þá ekki þetta form að vera öðrum tiltækt, sem hafa sams konar rekstur? Hví á það ekki að standa jafnfætis öðrum með greiðslu opinberra gjalda? Ég sé ekki, að það sé nokkur ástæða til annars, ef veita á sveitarfélögunum þau fríðindi að geta stofnað til rekstrar eftir þessu formi, en þau taki á sig þá kvöð, sem einstaklingar verða að taka á sig, þ. e. að borga eðlileg gjöld af atvinnurekstrinum.

Ég benti á þetta sama hér, þegar frv. var til í. umr., og þarf því ekki að endurtaka meira um það, en vildi aðeins vekja þetta upp, af því að það virðist vera, að n. hafi tekið ákaflega lítið tillit til þeirra ábendinga, sem komu. Og þó að það sé sagt, að n. sé sammála, þá eru þarna fjórir aðilar, sem skrifa undir frv. með fyrirvara. Aðeins einn þeirra hefur gert grein fyrir, hvers vegna hann vill ekki samþykkja það nema með því að skrifa undir með fyrirvara.