17.12.1971
Efri deild: 31. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2028 í B-deild Alþingistíðinda. (2256)

135. mál, námslán og námsstyrkir

Flm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Á þskj. 191 hef ég leyft mér að flytja frv. til l. um breyt. á l. nr. 7 31. marz 1967, um námslán og námsstyrki. Samkv. 1. gr. þessa frv. er um það að ræða, að nemendur, sem stunda nám við íslenzka sjómannaskóla, svo sem stýrimannaskóla og vélskóla á Íslandi, fái aðild að hinum almenna Lánasjóði íslenzkra námsmanna. Með hliðsjón af því er svo lagt til, að 3. gr. laganna breytist eins og þar segir um stjórn sjóðsins og að ráðh. tilnefni fulltrúa fyrir þá hópa námsmanna, sem ekki eiga sérstaka fulltrúa í stjórninni, og skal kveðja þá til funda og starfa með stjórninni, þegar fjallað er sérstaklega um málefni þessara hópa. Njóta þeir þá sömu réttinda og stjórnarmenn. Öllum ætti að vera það ljóst, hversu þýðingarmikil störf sjómanna eru fyrir lífsafkomu íslenzku þjóðarinnar. Það er því augljóst mál, að miklu skiptir, að þeir, sem menntunar leita í stofnunum þjóðarinnar á sviði skipstjórnar og vélfræði, eigi þess kost að njóta lánsaðstoðar til náms, a. m. k. til jafns við það, sem aðrar starfsgreinar eiga við að búa.

Þeir, sem til þekkja um ástandið á fiskiskipaflotanum, vita, að þar er um mikinn hörgul að ræða á lærðum mönnum. Þar vantar oftast meira eða minna af mönnum, sem hafa full réttindi. Útvegsmenn verða því í mörgum tilfellum að sækja um undanþágur til stjórnvalda, að þeir megi lögskrá réttindalausa menn á skip sín. Um menntun þeirra, sem sjómennsku leggja fyrir sig, er það að segja, að í flestum tilfellum hafa viðkomandi lokið gagnfræðaprófi, en til viðbótar verða þeir síðan að hafa stundað sjó eða verið lögskráðir á skip um tveggja ára skeið. Segja má, að það sé eins konar framhaldsnám eða reynslutími. Það er því oft þannig, að þegar að því kemur, að viðkomandi hyggst hefja nám við stýrimannaskóla, hefur sjómannsefnið stofnað heimili, og þegar þannig er ástatt, getur það í sumum tilfellum ráðið úrslitum um það, hvort viðkomandi sér sér fært að hefja námið, að hann eigi þess kost að fá hagstæð lán, á meðan á námstímanum stendur. Ég hygg, að ef þetta frv. verður samþ., muni það verulega örva aðsókn að sjómannaskólunum, og á því er vissulega full þörf.

Sérstaklega þyrfti að kanna í þessu sambandi, hvað þetta kostar mikið og hvað þarf að afla mikilla fjármuna til þess að standa straum af þessum viðbótarlánum, sem þarna yrði um að ræða. Það liggur ekki fyrir, en hitt liggur fyrir, að hér er ekki um fjölmenna skóla að ræða, því miður. Hér er um skólastofnanir að ræða, sem eru frekar fámennar, enda þótt þjóðin eigi, sem raun ber vitni, mikið undir því, að sjór sé stundaður hér á Íslandi. Ég vil því vænta þess, að hv. þdm. muni leggja máli þessu lið og samþykkja það, þegar að því kemur, að það kemur aftur frá n., en ég legg til, að að lokinni þessari umr. verði máli þessu vísað til 2. umr. og hv. fjhn.