04.05.1972
Efri deild: 75. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2070 í B-deild Alþingistíðinda. (2366)

273. mál, sveitarstjórnarlög

Flm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá síðasta ræðumanni, að fyrir Sþ. liggur till. til þál. um að lýsa hálendi landsins og óbyggðir alþjóðareign ásamt margs konar réttindum öðrum. En eins og ég sagði í framsöguræðu minni, þá tel ég alls ekki rétt í sambandi við þetta mál að vera að ræða um eignarrétt á afréttarsvæðum. Um það mál gengur dómur væntanlega, og sá dómur mun binda málið yfirleitt í eitt, þannig að afréttir yfirleitt, sem ekki eru bundnir einstaklingseign, fara eftir því sem sá dómur fellur á sínum tíma. En það mál, sem hér er til umr., fjallar aðeins um það, hver aðili eigi að hafa sveitarstjórn á hendi á þessum svæðum. Ríkið getur þrátt fyrir það átt allt landið. Ríkið getur átt eignir í hvaða sveitarfélagi sem er og einstaklingar líka, þannig að ég hygg, að hv. síðasti ræðumaður hafi svolítið misskilið þetta litla frv., sem hér liggur fyrir til umr., og ég er þess vís, að þegar hann athugar þetta betur, þá sér hann, að þetta eru tvö algerlega aðskilin mál, og ég hygg, að þó að við færum að kanna afréttarmál víðs vegar um land, þá mundi þar ekkert fram koma, sem kæmi í veg fyrir, að þetta frv. út af fyrir sig yrði samþ. Ég á ekki von á því. En sem sagt, ég þakka síðasta hv. ræðumanni fyrir það, hversu vel hann tók að vissu leyti undir þetta frv., því að það er út af fyrir sig eðlilegt, að hv. þm. vilji rannsaka mál, sem fram koma, og ætla sér töluverðan tíma í það. En ég gerðist svo djarfur að álíta, að þetta mál væri þess eðlis, að það væri fljótlegt að fá umsögn þeirra aðila, sem gerst til þekkja svona mála, þannig að hægt væri að samþykkja það og koma því frá á þessu þingi. Það er kannske til of mikils mælzt, en það verður að ráðast.

En sem sagt, ég vildi aðeins segja það, að þessi mál. sem síðasti hv. ræðumaður minntist á, eru alveg aðskilin og þarf engan veginn að blanda þeim saman. Ríkið getur og aðrir einstaklingar haft margs konar rétt fyrir því á þessu svæði, og þetta frv. mundi alls ekki í neinu hagga þeim rétti.