12.05.1972
Sameinað þing: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2149 í B-deild Alþingistíðinda. (2458)

Almennar stjórnmálaumræður

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Í þann mund er alþingiskosningar fóru fram í fyrrasumar, hafði Framsfl. verið í röskan áratug utangátta í íslenzkum stjórnmálum. Hann kunni þar oft illa við sig í nöprum næðingnum og hafði sett að honum hroll. Nú gerðust þau tíðindi, að ríkisstj. missti meiri hluta sinn og formanni Framsfl. var fyrstum manna veitt tækifæri til þess að reyna við myndun nýrrar stjórnar. Fór fyrir honum eins og nafna hans Ólafi liljurós, er hann reið með björgum fram, að hann hitti fyrir sér álfarann, þar rauður loginn brann. Er þar skemmst frá að segja, að hann varð heillaður af álfum þessum, er komu úr álfheimum þeim, er nú kallast Alþb. Vildi hann allt til vinna að fá þeirra félagsskap. Hann kyssti ekki álfafrúna með hálfum huga eins og liljurós gerði í kvæðinu, heldur heils hugar feginn. Hann hlýddi kalli þeirra, — „gakk í björg og bú með oss“ —, og lét hann flest það falt, sem rauðálfar girntust, og hrepptu þeir vegtyllur stórar og valdastóla. Þeim var trúað fyrir miklu, enda þótt þeir hefðu ekki áður unnið sér það til verðleika að vera trúir yfir litlu. Í hlut þeirra kom útvegurinn allur og iðnaðurinn með, verzlun og viðskipti, vatnsorka og varmi í jörðu og virkjanir, sjúkrahús og heilsugæzla, læknar og lyfsalar og landhelgin sjálf. Enga þarf því að undra, þótt Alþb. og ráðamenn þess uni sér vel og fari fögrum orðum um samheldnina og bróðurþelið í þessum ranni. Og það er rétt, þar er samheldni um sumt. Það er samstaða um að auka útgjöld ríkissjóðs um 50% á einu ári. Það er samstaða um að margfalda fasteignaskatta á almenningi og gera þar engan mun á því, hvort eigandi íbúðar er einhleypur efnamaður eða ungt fólk, sem er að setja saman heimili með allt í skuld. Það er samstaða um það að veikja traust okkar meðal vinaþjóða með ótímabæru og óviturlegu tali um varnarmál, einmitt á þeirri stund, er við þurfum mest á stuðningi að halda í landhelgismálinu. Og stundum er samstaðan milli stjórnarflokkanna sterkust um þau mál er sízt skyldi.

En um ýmis undirstöðuatriði þjóðlífsins brestur mjög á samheldni stjórnarflokkanna. Í efnahagsmálunum sjálfum skortir alla samstöðu um stefnumótun. Ábyrg efnahagsstefna fyrirfinnst engin. Jafnvægi í efnahagsmálum, sæmilegur stöðugleiki um verðlag, barátta gegn verðbólgu, eftir því sem í mannlegu valdi stendur á hverjum tíma, allt er þetta ein frumskylda hverrar ríkisstj. Hvers vegna? Vegna þess að þótt verðbólga og dýrtíð geti hjálpað sumu skuldugu fólki í bili, þá er hún skaðvaldur öllu heilbrigðu efnahagslífi. Verðbólgan veldur ranglæti, eykur óréttlæti, skapar misrétti. Hún setur skattalög úr skorðum, svo að launamenn verða oftast verst úti. Hún þyngir skatta og skekkir eðlilegt verðlag. Hún dregur úr sparifjársöfnun, brennir upp sparifé eldra fólksins, hún lætur þá græða mest, sem skulda mest, hún gefur braski byr undir vængi.

En nú munu menn spyrja: Hefur ekki alltaf verið villt verðbólga hér á landi í 30 ár? Er ekki vonlaust að vera að tala um að hamla gegn henni? Nei, það er ekki vonlaust verk. Reynslan sýnir, að það hefur stundum tekizt um stundarsakir að hafa hemil á verðbólgu og dýrtíð. Auðvitað breytist kaupgjald og verðlag ár frá ári. En ef það er hægfara þróun og fer ekki fram úr því, sem algengt er í helztu viðskiptalöndum, þá er enginn háski á ferðum.

Þegar ríkisstjórn Ólafs Thors var mynduð í nóv. 1959, var það meginverkefni hennar að glíma við efnahagsmálin. Heilsteypt áætlun var gerð, víðtæk og viðamikil, hún var framkvæmd, og jafnvægi og stöðugleiki komst á í efnahagsmálum þjóðarinnar inn á við og út á við. Sá stöðugleiki hélzt sæmilega í þrjú ár, og var full atvinna á þeim tíma. Sá tími er sönnun þess, að hægt er að hafa hemil á verðbólgu með samstilltu hyggilegu átaki. Því er það á misskilningi byggt, þegar hæstv. iðnrh. segir hér í ræðu sinni áðan, að engu þjóðfélagi með kapítalistískt efnahagskerfi, og á hann þá væntanlega við hið frjálsa efnahagskerfi, sem við búum við, hafi tekizt að hindra verðbólgu án atvinnuleysis.

Við Íslendingar höfum sýnt það á fyrstu árum viðreisnarstjórnarinnar, að þetta var hægt. Með verðstöðvuninni í nóv. 1970 voru verðhækkanir bannaðar og lausn efnahagsmálanna frestað. Öllum var það ljóst, enda ekki reynt að fela það, að strax að loknum kosningum sumarið 1971, þyrfti hvaða ríkisstjórn og þingmeirihluti, sem þá yrði við völd, að líta á það sem meginverkefni að leysa þennan vanda. Hver sem þá færi með stjórn landsins þyrfti helzt að gera efnahagsáætlun fyrir heilt kjörtímabil. Núv. stjórn hefur ekkert gert í þessa átt, og nú ríkir algjör óvissa um það, hvert stefnir og hvað við tekur í efnahagsmálum þjóðarinnar. Sú óvissa hefur haft skaðleg áhrif. Og það er víst, að verðbólguöflin eru að verki í þjóðfélagi okkar á fjölmörgum sviðum. Þessi verðbólga kemur fram á ýmsan hátt. Ég skal nefna hér nokkur einkenni. Hún birtist í geysimiklum kaupum á erlendum vörum, ískyggilega miklum innflutningi og uggvænlega mikilli eyðslu erlends gjaldeyris. Hún birtist í stórhækkuðu fasteignaverði. Það er t. d. upplýst, að í Reykjavík hafa húseignir og íbúðir hækkað í verði á einu ári um 20–30 af hundraði. Gengi íslenzku krónunnar hefur verið lækkað um 8% í tíð núv. ríkisstj. Svo mikil eftirspurn er víða eftir vinnuafli, að yfirborganir yfir taxta og vinnusamninga eiga sér stað. Verðhækkanir hafa orðið fjölmargar á margvíslegum vörum og þjónustu. Og slík hækkun varð á fjárl. nú síðast, að líkist sprengigosi. Og verðbólgan birtist m. a. í 1. maí-ávarpi stjórnar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, þar sem segir, að bandalagið telji óverjandi, að ekki séu reyndar nýjar leiðir í efnahagsmálum, þegar óðfluga virðist stefna að enn einni gengislækkun.

Þótt hæstv. forsrh. segði í ræðu sinni hér áðan, að sumum fyndist nóg um dugnað ríkisstj., þá hefur stjórnin vanrækt að gera ráðstafanir til að draga úr hraða verðbólgunnar. Það er ekki næg afsökun, sem hæstv. forsrh. ber fram, að starfstími stjórnarinnar hafi verið of skammur. Stjórnin hefur vissulega fengið sín tækifæri, hún hefur nú starfað í 10 mánuði og nú er 7 mánaða þingi að ljúka, en ekkert bólar á ráðstöfunum til að vinna bug á eða reyna að hamla gegn verðbólgunni. Þvert á móti hefur stjórnin sjálf örvað verðbólguna, hún hefur skapað vantrú og vantraust á gjaldmiðilinn. Hér þarf föst tök í staðinn fyrir lausatök núv. ríkisstj. Hér þarf að endurskapa traust í stað vantrúar, því að efnahagsmálin eru ekki eingöngu hagræn heldur og sálræn.

Ég hef rætt hér um efnahagsmál og lífskjör, en efnahagsmálin eru ekki allt. Maðurinn lifir ekki á einu saman brauði. Það er ekki hægt að loka augum fyrir því, að bættur efnahagur, bætt lífskjör hafa ekki alltaf fært mönnum aukna lífshamingju, og um leið og hin efnalegu lífskjör eru bætt verða menn að snúa hug sínum samhliða og ekki síður að ráðstöfunum til að auka lífshamingju og lífsgleði.

Herra forseti. „Það er gaman að vera Íslendingur í dag,“ sagði hæstv. forsrh. áðan. Já, það var líka gaman að vera ráðherra á fyrstu vikum stjórnarinnar, stjórnarinnar, sem hélt, að nógir peningar væru til og mundu verða til að gleðja alla. Blíðan lagði byrinn undan björgunum fram. En sá blíði byr er nú á enda. Nú er tekið að blása á móti, því að þótt velmegun sé til lands og sjávar, er fram undan holskefla nýrrar verðbólgu og þá skapast hinn mikli vandi, ekki aðeins fyrir þjóðina, heldur mun þá hrikta í stoðum stjórnarsamstarfsins. Reynslan frá tíð fyrri vinstri stjórnar, þegar hún sprakk í loft upp 1958, segir sína sögu. Og enginn veit, fremur en Ólafur liljurós, hvenær upp verður tekið saxið snarpa, enginn veit, hvenær brugðið verður saxinu í síðuna, þá verður forsrh. og Framsfl. hans væntanlega loksins ljóst, í hverjum álögum hann og flokkurinn hafa verið í þeim félagsskap, þar sem rauður loginn brann. E. t. v. sannast það á þessari ríkisstj., að enn hefur engin þriggja flokka stjórn á Íslandi náð þriggja ára aldri. Þökk þeim, er hlýddu.