12.05.1972
Sameinað þing: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2198 í B-deild Alþingistíðinda. (2473)

Almennar stjórnmálaumræður

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Varla hefur mörgum dulizt, sem hlýddu á útvarpsumr. frá Alþ. á föstudagskvöld, að stjórnarandstöðuflokkarnir eru enn ekki búnir að átta sig á því, hvar þeir eiga helzt að leita höggstaðar á hinni nýju stjórnarstefnu. Gagnrýni þeirra var máttvana og fálmandi og hitti hvergi í mark. Reyndar má segja, að það hafi einmitt verið eitt helzta einkenni stjórnmálalífsins þá 10 mánuði, sem liðnir eru síðan vinstri stjórnin kom til valda, hve stjórnarandstaðan hefur verið áberandi ringluð og utan gátta líkt og sá, sem ekki veit, hvaðan á hann stendur veðrið. Það, sem þeir börðust á móti og vildu ekki framkvæma, er allt í einu að verða að veruleika. Þessi miklu umskipti hafa svo aftur á móti haft þau áhrif, að þeir vilja ekki lengur kannast við andstöðu sina opinskátt. Þeir eru hvorki með né móti hverju stórmálinu af öðru, en þvælast með af ótta við að fá annan og verri skell hjá kjósendum til viðbótar þeim, sem þeir fengu í fyrra.

Þannig hefur það gengið með hinar miklu kjarabætur, sem veittar hafa verið láglaunamönnum og fólki með meðaltekjur að frumkvæði ríkisstj., aukið orlof, vinnutímastytting og stórfelld hækkun kaupgjalds í áföngum. Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa ekki beinlínis verið á móti. Þeir hafa hengslazt með. En Jóhann Hafstein var ekkert að draga fjöður yfir óánægju sína hér á föstudagskvöldið, þegar hann býsnaðist yfir því, hvílík hætta fælist í 15% kaupmáttaraukningu ráðstöfunartekna til handa launafólki á þessu ári, og spurði meira að segja, hvort það væri virkilega ætlun ríkisstj. að láta þjóðina lifa um efni fram og fleyta sér áfram á erlendum lánum. Hins vegar var hann ekki reiðubúinn að segja það hreinskilnislega, að Sjálfstfl. áliti áunnar kjarabætur launamanna allt of miklar. Eins er með hin stórfelldu kaup á skuttogurum, sem nú hafa verið ákveðin. Núv. stjórnarandstæðingar létu það dragast í áratug að hefja endurnýjun togaraflotans, meðan völdin voru í þeirra höndum. Nú, þegar loksins er kominn verulegur skriður á þetta mál, standa þeir ekki beinlínis á móti, en engum dylst, að afstaða þeirra er blendin. Málgögn þeirra hafa allt á hornum sér, tala um skipakaupin eins og hættulega skriðu, sem nú sé að falla yfir þjóðina, segja, að það vanti mannskap á skipin og þau verði rekin með tapi. Jafnframt býsnast þau yfir þeirri skuldasöfnun, sem skipakaupin hafi í för með sér, þótt öllum megi vera ljóst, að engin fjárfesting skilar þjóðinni jafnmiklum arði á jafnskömmum tíma. Og eins er það raunar með landhelgismálið. Nú talar enginn um siðleysi og ævintýrapólitík, eins og gert var hér fyrir einu ári við útvarpsumr. á Alþ. af talsmönnum þáv. stjórnarflokka. Nú eru Sjálfstfl. og Alþfl. meira að segja tilbúnir að fallast á uppsögn landhelgissamninganna frá 1961, sem í fyrra mátti ekki hreyfa við. En þeim sé þó þökk fyrir, að nú er loksins sköpuð samstaða allrar þjóðarinnar um þá stefnu, sem ekki fékkst fram fyrir réttu einu ári.

Veruleg kjarabót til sjómanna, sem núv. ríkisstj. hefur haft frumkvæði að til að örva sjósókn og bæta upp margra ára kjaraskerðingu fráfarandi stjórnar, sætir ekki heldur gagnrýni af hálfu þeirra, sem áður stóðu harðast gegn leiðréttingu á hlutaskiptum sjómanna. Sama gildir um hina miklu aukningu tryggingabóta til aldraðra og öryrkja. Flokkarnir, sem í fyrra vildu litla úrbót veita, hafa nú algerlega snúið við blaðinu. Það var aðeins á fyrstu vikum ríkisstj., að málgögn stjórnarandstöðunnar býsnuðust yfir þessum veizluhöldum, eins og það var nefnt, þegar aldraðir og öryrkjar fengu fyrstu leiðréttingu sinna mála í sumar. Þessi tónn er nú löngu þagnaður, og í vetur hefur stjórnarandstaðan stutt ríkisstj. við þær gagngeru breytingar, sem gerðar hafa verið í tryggingamálum.

Þannig mætti halda lengi áfram. En af þessu geta menn skilið, af hverju forustumenn fyrrv. stjórnar eru enn svo ringlaðir. Þeir hafa um árabil staðið í vegi fyrir ýmsum nauðsynlegum umbótum, sumpart af íhaldssemi og sumpart af annarri pólitískri þröngsýni. Þeir stóðu stífir á móti allt þar til yfir lauk og stíflugarðurinn brast í seinustu þingkosningum. Nú, þegar flóðbylgja nauðsynlegustu umbóta hefur gengið yfir, hafa þeir ekki séð annars kost en gefast upp og láta sig fljóta með stjórnlaust og stefnulaust miðað við fyrri áform í þeirri von, að fyrr eða síðar næðu þeir fótfestu aftur til að fylkja liði sinu og hefja andófið á ný. Þeir hafa fálmað eftir nýjum og nýjum hálmstráum, en hvergi getað stöðvað sig.

Útvarpsumr., sem nú standa yfir, bera þess glögg merki, að stjórnarandstaðan hefur enn ekki náð málefnalegri fótfestu á neinu sviði og enn er hím á hröðu undanhaldi í straumróti nýrra viðhorfa. Seinasta hálmstráið, sem hún fálmar eftir, er þróun verðlagsmálanna á seinustu vikum. Svo knýjandi er þörf stjórnarandstöðuflokkanna að verða sér úti um eitthvert málefni til að fóta sig á, að svo til hver einasti ræðumaður þeirra hér í þessum umr. hefur lagt á það sérstaka áherzlu að úthúða ríkisstj. fyrir nýlegar hækkanir vöruverðs. Er þá loksins fundin einhver fótfesta fyrir hrjáða og hrakta menn eftir mikið volk? Er tækifærið loksins komið fyrir Jóhann Hafstein eða Gylfa Þ. Gíslason, verðlagsmálaráðherra í 12 ár, til að minna á sjálfan sig og sína stefnu, minna á eigin afrek til samanburðar við stefnu og störf núv. stjórnar? Eða er unnt að hugsa sér nokkurt það málefni, sem er jafnilla fallið til árása á ríkisstj. af hálfu fyrrv. stjórnarflokka og einmitt dýrtíðarmálin? Forustumenn fráfarandi stjórnar eiga Evrópumet í verðbólguþróun og dýrtíðarstjórn. Ferill þeirra í dýrtíðarmálum á liðnum áratug er svo einstakur, að hann einn mun tryggja þeim öruggan sess í Íslandssögunni um ókomin ár. Fjórar gengisfellingar á einum áratug og stanzlausar verðhækkanir, 12–30% á hverju einasta ári. Það þarf sannarlega menn með harðan skráp og lipran munn, sem eiga slíkan feril og geta þó gert verðlagsmál að aðalumræðuefni á fyrsta eldhúsdegi eftir stjórnarskipti.

Í sambandi við nýorðnar verðhækkanir er fyrst rétt að minna á, að laun manna eru nú almennt verðtryggð og vísitölubundin. Hér í umr. hafa talsmenn stjórnarandstöðunnar hver af öðrum reynt að læða þeirri blekkingu að hlustendum, að hinar miklu kjarabætur, sem launþegum hlotnuðust í haust, muni hverfa með öllu vegna mikilla verðhækkana. Þeir treysta greinilega á fáfræði hlustenda og skáka í því skjólinu, að einmitt þannig gekk það lengstum á s. l. áratug. Ríkisstj. Sjálfstfl. og Alþfl. afnam verðtryggingu launa tvívegis og þar með voru launþegar ofurseldir holskeflu verðbólgunnar um langt skeið. Ömurleg reynsla þessara ára situr í mörgum, en þó vita flestir, að í bæði skiptin tókst verkalýðshreyfingunni undir róttækri forustu og eftir harða baráttu að endurheimta ákvæðin um verðtryggingu launa. Þess njóta menn nú og fá því fulla uppbót um næstu mánaðamót fyrir þær verðhækkanir, sem orðið hafa.

Hvað er svo það, sem raunverulega hefur verið að gerast í verðlagsmálunum? Var möguleiki fyrir nokkra ríkisstj. að koma í veg fyrir þær verðhækkanir, sem orðið hafa í vetur? Um það er enginn ágreiningur og á það geta víst allir fallizt, að meiri eða minni dýrtíðarstraumur er yfirleitt óhjákvæmilegur í sérhverju markaðsþjóðfélagi. Spurningin er aðeins, hvort um er að ræða óðaverðbólgu, eins og lengstum geisaði hér á landi í tíð fyrri ríkisstj., eða hvort dýrtíðin verður svipuð því, sem er að meðaltali í öðrum löndum, eins og núv. stjórnarflokkar reyna að stefna að.

Óðaverðbólgan var í fullum gangi, þegar kosningaverðstöðvunin hófst, og stöðvaðist raunverulega aldrei nema á yzta borði. Nú, einu og hálfu ári síðar, er öllum ljóst, að einhverjum verðhækkunum verður að hleypa í gegn. En spurning er: Geta talsmenn stjórnarandstöðunnar bent á einhverjar hækkanir, sem ekki hefði átt að leyfa? Það geta þeir ekki. Þvert á móti hafa forustumenn Sjálfstfl. gert kröfur um miklu meiri hækkanir á flestum sviðum og Morgunblaðið stagast á því aftur og aftur, að verið sé að drepa atvinnufyrirtækin í landinu með of ströngum verðlagsákvæðum. Sannleikurinn er auðvitað sá, að verðhækkanir hefðu orðið a. m. k. tvöfalt meiri en raun hefur orðið á, ef fyrrv. stjórnarflokkar hefðu áfram verið við völd, eins og þjóðin fékk að reyna, þegar fyrri verðstöðvuninni lauk 1967. Ríkisstj. fylgir fastmótaðri stefnu í verðlagsmálum og er staðráðin í því að hafa hemil á verðhækkunum að svo miklu leyti, sem það er unnt. Nú er verið að sía frá þær hækkanir, sem nauðsynlegastar geta talizt og engin leið er að komast hjá. En að því loknu mun verðlagsþróunin aftur komast í eðlilegt horf og reynt verður með ströngu verðlagseftirliti að halda aftur af dýrtíðarstraumnum.

En hver er stefna stjórnarandstöðuflokkanna? Það hefur hvergi komið fram. Ef svar fæst ekki, ætti fólki að vera endanlega ljóst, að hávaðinn út af nýorðnum verðhækkunum er aðeins innantómt gaspur manna, sem beðið hafa ósigur og vita ekki sitt rjúkandi ráð. Núv. ríkisstj. hefur miklu komið í verk á skömmum tíma. Það eru fyrst og fremst þrjú meginmarkmið, sem vísa veginn. Stefnt hefur verið að auknu jafnrétti þegnanna með stórfelldum umbótum í kjaramálum, tryggingum, skattamálum og félagsmálum. Stefnt er að því að stórauka framleiðsluna með því að margfalda framleiðslutækin og breikka undirstöðuna og með því að beita nýjum vinnubrögðum við uppbyggingu atvinnulífsins og viðtækari áætlunargerð en hér hefur áður tíðkazt. En síðast en ekki sízt hefur önnur og heillaríkari stefna verið upp tekin í utanríkis- og sjálfstæðismálum þjóðarinnar.

Engan undrar, þó að Sjálfstfl. og forustumenn hans hafi orðið nokkuð utan gátta eftir þau þáttaskil, sem orðið hafa í íslenzkum stjórnmálum með árangursríku samstarfi vinstri manna. En hvað um Alþfl.? Varaformaður hans var einmitt rétt í þessu að gera flokk sinn að umtalsefni. Hvað verður um þennan forna flokk íslenzkrar alþýðu, sem eitt sinn var merkisberi vinstri stefnu á Íslandi, en er nú leppur hægra megin við vinstri stjórn? Á það fyrir Alþfl. að liggja að veslast upp í greipum hægri aflanna? Nú er svo komið, að nýtt útgáfufélag óháð Alþfl. og aðallega í höndum sjálfstæðismanna hefur tekið að sér útgáfu Alþýðublaðsins, og flokkurinn hefur ekki lengur nema eina síðu blaðsins til umráða, 5. síðuna. Hafa flokksmenn samþykkt þessa ráðstöfun? Et það vilji Alþfl.-manna víðs vegar um land, að Alþfl. festi sig enn frekar í því fari að vera útibú frá Sjálfstfl.? Er ekki einhver von til þess, að Alþfl. finni uppruna sinn aftur og gangi til eðlilegrar samvinnu við vinstri menn í landinu? Þessu hefði Benedikt Gröndal þurft að svara, þegar hann ræddi hér áðan um samstarf vinstri manna. — Góða nótt.