12.05.1972
Sameinað þing: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2201 í B-deild Alþingistíðinda. (2474)

Almennar stjórnmálaumræður

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það er margt furðulegt, sem fram hefur komið síðustu daga í málflutningi stjórnarandstöðunnar. Eða finnst mönnum það ekki næsta einkennilegt að heyra þá Jóhann Hafstein og Gylfa Þ. Gíslason tala af vandlætingu um vísitölufölsun, miklar verðhækkanir og gengislækkun? Þeir báru saman ábyrgð á stefnu viðreisnarstjórnarinnar í 12 ár. Sú stjórn gerði ýmist að banna með lögum vísitölubætur á laun eða skerða slíkar bætur með sérstökum lögum. Sú stjórn felldi gengi íslenzkrar krónu gagnvart dollara fjörum sinnum á 12 árum og hún vann það afrek, að verðhækkanir urðu meiri í hennar stjórnartíð en nokkur dæmi eru til um áður. Þrátt fyrir þessar staðreyndir telja þeir Jóhann og Gylfi sig umkomna þess að ásaka núv. ríkisstj. fyrir aðgerðir hennar á þessum sviðum.

Núv. ríkisstj. hefur engar breytingar gert á útreikningi kaupgjaldsvísitölu aðrar en þær, sem miðuðu að leiðréttingu á fölsun frá tíð fyrri stjórnar. Núv. ríkisstj. hefur haldið verðgildi krónunnar til jafns við dollara og hún hefur reynt að hamla gegn miklum verðhækkunarkröfum, sem m. a. hafa borizt frá forustumönnum fyrrv. ríkisstj. Tal þeirra Jóhanns og Gylfa um verðlagshækkanirnar er sannarlega aumkunarvert. Þeir bera báðir öðrum fremur ábyrgð á viðskilnaði fyrrv. ríkisstj. jafnt í verðlagsmálum sem öðrum málum. Þeir vita báðir fullvel, að megnið af þeim verðlagshækkunum, sem fram hafa komið að undanförnu, eru beinar og óhjákvæmilegar afleiðingar af þeirra eigin stjórnarstefnu. Hvers vegna skyldi t. d. fjármálastjóri ríkisútvarpsins hafa talið nauðsynlegt að fá 32% hækkun á afnotagjöldum þess nokkrum mánuðum eftir að Gylfi Þ. Gíslason lét af störfum sem ráðh. þeirrar stofnunar? Auðvitað vegna þess, að í hans stjórnartíð höfðu þau útgjöld verið ákveðin, sem til þessa leiddu. Þegar svo núv. ríkisstj. heimilar aðeins 10% hækkun afnotagjaldanna í stað 32%, þá reynist Gylfi Þ. Gíslason vera einn í þeim hópi, sem ásakar núv. ríkisstj. fyrir þessa hækkun. Og hvernig skyldi hafa staðið á því, að stjórn Landsvirkjunar taldi sig verða að hækka heildsöluverð á allri raforku um 20%, einum mánuði eftir að Jóhann Hafstein lét af störfum raforkumálaráðh.? Auðvitað af því, að í stjórnartíð hans hafði verið samið um það við erlenda aðila að hækka raforkuverðið, sem þessu nam, vegna afkomu fyrirtækisins. Þegar svo núv. ríkisstj. heimilaði af þessum ástæðum 10% hækkun á raforkuverði, er það Jóhann Hafstein sjálfur, sem óskapast yfir slíkum verðhækkunum.

Ádeilur stjórnarandstöðunnar á stefnu ríkisstj. skipta í rauninni ekki miklu máli. Þær eru í flestum tilfellum órökstuddar og falla því dauðar og ómerkar. Hitt er annað mál. að vissulega á ríkisstj. enn mörg og vandasöm verkefni óleyst. Í þeim efnum ber sérstaklega að nefna efnahagsmálin. Við þessi erfiðu verkefni verður ríkisstj. að glíma, og mun gera það á komandi mánuðum. Það, sem þó skiptir mestu máli í glímunni við þessi verkefni, er að treysta sem bezt hina efnahagslegu undirstöðu atvinnulífsins um allt land. Að því verkefni hefur ríkisstj. verið að vinna undanfarna mánuði.

Eitt af fyrstu verkefnum ríkisstj. var að ákveða verulega fiskverðshækkun og bæta þannig til muna launakjör sjómanna. Sú ráðstöfun miðaði að því að tryggja fleiri sjómenn til fiskveiða og leggja þannig grundvöll að aukinni framleiðslu. Þessari ráðstöfun tók stjórnarandstaðan með hundshaus eða semingi og talaði um veizluhöld og bruðl. Þá hófst ríkisstj. handa um uppbyggingu togaraflotans, en ljóst var, að á því sviði hafði verið um sífellda afturför að ræða á öllu stjórnartímabili viðreisnarstjórnarinnar. Árið 1960, í upphafi viðreisnar, áttu landsmenn 46 togara, suma þá beztu, sem þá þekktust á N.-Atlantshafi. En nú eiga Íslendingar 18 gömul skip, flest komin að leiðarlokum. Vegna fjárhagsfyrirgreiðslu núv. ríkisstj. hefur nú verið samið um smíði á 25 skuttogurum erlendis, en auk þess koma 8 stórir skuttogarar, sem samið var um að mestu í tíð fyrrv. ríkisstj. Þá er einnig hafin smiði skuttogara innanlands. Þessi skip munu dreifast um landið. Þannig verða 6–7 skuttogarar gerðir út frá Vestfjörðum, 8–9 frá Norðurlandi, 6–7 frá Austurlandi og 13–14 skip frá Suð-Vesturlandi. Miklar vonir eru tengdar við þessi skip og segja má, að í sumum sjávarútvegsbæjum hafi beinlínis risið bjartsýnisalda, sem þegar hefur leitt til framkvæmda og framfara á þessum stöðum í ýmsum greinum. Skip þessi verða búin miklu fullkomnari veiðibúnaði en hér hefur áður almennt verið notaður. Þau hafa meiri veiðimöguleika, geta sótt lengra og veitt á dýpra vatni en bátarnir, sem þau eiga að leysa af hólmi. Þau eiga því að skapa grundvöll til jafnari fisklöndunar og þar með til hagkvæmari og betri reksturs í landi. Jafnhliða endurnýjun togaraflotans og aukningu bátaflotans er nú unnið að stórframkvæmdum við endurbætur og nýbyggingu frystihúsanna í landinu. Og á þessu ári er gert ráð fyrir, að lán verði veitt úr Fiskveiðasjóði til fiskiðnfyrirtækja, sem nema um 300 millj. kr., og ætti því að vera hægt að veita lán til endurbóta og nýbygginga í frystihúsum í ár, sem nema um 200 millj. kr. Gert er ráð fyrir, að slík lán nemi 70% af heildarkostnaðarverði í hverju tilviki, eða verði nokkru hærri en áður hefur verið. Þá er nú verið að setja ný lög um sölustofnun niðursuðu- og niðurlagningariðnaðarins og ákveða þar með verulegan stuðning við þessa starfsgrein.

Hækkað fiskverð og bætt launakjör sjómanna, nýtízku fiskiskip, stórfelldar endurbætur frystihúsa, efling niðursuðu og niðurlagningar og jafnhliða skipuleg uppbygging iðnaðarins með nýjum raforkuframkvæmdum, allt miðar þetta að því að treysta undirstöður atvinnulífsins, að því að útrýma atvinnuleysi, auka framleiðslu og þar með gjaldeyrisöflun. Takist þetta vel, verður glíman við vandamál efnahagsmálanna auðveldari.

Stækkun fiskveiðilandhelginnar er þó í rauninni undirstaða þessa alls. Af þeim ástæðum hefur ríkisstj. sett það mál ofar öllum öðrum málum. Það var núv. ríkisstj. eða þeir flokkar, sem að henni standa, sem tók ákvörðun um stefnuna í landhelgismálinu. Það var hún, sem ákvað, að fiskveiðilandhelgin skyldi færð út í 50 sjómílur allt í kringum landið eigi síðar en 1. sept. á þessu ári. Þar með var óvissunni, sem áður ríkti í málinu, lokið. Þar með var hikið og tregðan og allt vangaveltuhjalið úr sögunni. Skýr ákvörðun lá fyrir, og framkvæmdir gátu hafizt. Afstaða okkar í landhelgismálinu hefur þegar vakið athygli um allan heim svo að segja. Málstaður okkar hefur styrkzt, og fleiri og fleiri viðurkenna ótvíræða þörf okkar á stækkaðri fiskveiðilandhelgi. Reynslan hefur sýnt, að það var rétt að bíða ekki eftir alþjóðahafréttarráðstefnunni. Hún verður sennilega ekki haldin fyrr en árið 1974 og litlar líkur eru á, að á henni náist bindandi samkomulag um stærð landhelgi og fískveiðiréttarsvæða. Hitt er þegar orðið ljóst, að um helmingur þjóða heims mun styðja það sjónarmið, sem við berjumst fyrir, um réttindi strandríkis til yfirráða varðandi fiskveiðar á landgrunnshafinu út frá ströndinni. Sú viðurkenning mun duga okkur í þeirri baráttu, sem við eigum fyrir höndum. Það hefur alltaf verið vitað, að stækkun fiskveiðilandhelginnar mundi kosta okkur nokkur átök víð erlenda aðila. Hjá þeim átökum var aldrei hægt að komast. Spurningin var aðeins sú, hve mikil þau átök þyrftu að verða.

Ríkisstj. hefur unnið kappsamlega að því að kynna landhelgismálið. Fullt samstarf hefur verið haft við stjórnarandstöðuna um framkvæmdir í málinu og reynt hefur verið að teygja sig til samkomulags svo langt sem tök hafa verið á, án þess þó að stefna málinu í tísýnu. Í ljós hefur komið, eins og núv. ríkisstjórnarflokkar höfðu varað við á sínum tíma, að landhelgissamningarnir við Breta og V.-Þjóðverja frá árinu 1961 eru eitt aðalhaldreipi hörðustu andstæðinga okkar í þessu máli. Þá samninga bera Bretar og Þjóðverjar fyrir sig í sífellu, og samkv. þeim hafa þeir kært okkur nú fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag. Það var því eitt grundvallaratriði málsins að segja þeim samningum formlega upp og taka af allan vafa um, að við sættum okkur ekki við að eiga einir allra þjóða að lúta dómsúrskurði um stærð okkar landhelgi. Samningarnir frá 1961 voru gerðir undir herskipahótunum Breta og voru því í rauninni nauðungarsamningar. Þeir voru tvímælalaust gerðir gegn vilja meiri hluta landsmanna og gátu því aldrei bundið þjóðina um ókomin ár. Frá Bretum og V.-Þjóðverjum berast okkur hótanir um hvers konar þvingunarráðstafanir, og þeir einir hóta að beita okkur beinu ofbeldi. Við höfum vissulega veitt hótunum þeirra athygli, en þó höfum við ekki neitað að ræða við fulltrúa þeirra um þau vandamál, sem upp hljóta að koma við útfærsluna. En hótanir þeirra munum við ekki láta ráða gerðum okkar.

Nú er vetrarvertíð nýlokið. Vertíðin olli vonbrigðum í flestum verstöðvum. Afli reyndist minni en búizt hafði verið við. Og m. a. reyndist afli togveiðiskipa miklu minni allt í kringum landið en verið hefur undanfarin ár. Sá uggur, sem verið hefur í mörgum sjómönnum um stærð fiskistofnanna við landið, hefur því enn aukizt verulega. Það er vissulega margt, sem bendir til þess, að þorskstofninn við landið fari minnkandi og hann sé þegar ofveiddur. Ráðstafanir til að draga úr sókn útlendinga í stofninn, eru því bráðnauðsynlegar, ef ekki á illa að fara á næstu árum. Fyrir 5 árum nam verðmæti síldaraflans fullum helmingi af öllu verðmæti sjávarafla okkar. Nú er síldveiðin búin svo að segja með öllu, m. a. vegna ofveiði. Hvernig færi um afkomumöguleika okkar Íslendinga, ef jafnilla tækist til með þorskstofninn? Við Íslendingar eigum ekki margra kosta völ til að auka okkar þjóðarframleiðslu. Fiskimiðin við landið eru okkar dýrmætasti fjársjóður. Þann fjársjóð verðum við að vernda og hagnýta á sem skynsamlegastan hátt. Til þess að sá fjársjóður megi nýtast okkur, verðum við að hafa fullkomið vald yfir veiðunum, banna þær veiðar, sem hættulegar eru, og setja hömlur á aðrar og minnka hlutdeild útlendinga í aflanum stórlega, frá því sem verið hefur. Verði fiskimiðin á landgrunni við Ísland fyrst og fremst fyrir okkur og hagnýtt af fyrirhyggju, þurfum við engu að kvíða, á því leikur enginn vafi.

Í viðræðum okkar við Breta og V-Þjóðverja um landhelgismálið ræðum við ekki um útfærslu fiskveiðimarkanna í 50 mílur þann 1. sept. n. k. Þeirri ákvörðun verður ekki breytt né frá henni hvikað með neinni bráðabirgðalausn. Viðræður okkar við þessa aðila hafa verið og verða um það, með hvaða hætti við getum veitt erlendum skipum nokkurn umþóttunartíma til að hverfa að fullu og öllu út fyrir hin nýju fiskveiðimörk. Við getum ekki leyft erlendum skipum hindrunarlausar veiðar upp að 12 mílna mörkunum, þó að samið sé um heildarveiðimagn yfir árið. Skilyrði frá okkar hálfu hlýtur að verða, að við tökum í okkar hendur lögsögu á veiðisvæðinu og erlend skip fái aðeins takmarkaðan rétt til veiða á tilteknum svæðum á tilteknum tímum, svo að hægt sé að tryggja nauðsynlega friðun á miðunum eða verulega minnkandi sókn. Í landhelgismálinu verðum við að halda á okkar málstað af einbeitni og fullri festu. Vara verður sterklega við öllum tilhneigingum til undansláttar, en málið verðum við þó að sækja af hyggindum. Ekkert orðagjálfur um vinaþjóðir og góðar viðskiptaþjóðir getur komið í staðinn fyrir verndun fiskimiðanna. Útfærsla landhelginnar er sú undirstaða, sem efnahagslíf þjóðarinnar mun byggjast á á komandi árum. Það skiptir því sannarlega miklu máli, að vel takist til um þá framkvæmd. — Góða nótt.