12.05.1972
Sameinað þing: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2221 í B-deild Alþingistíðinda. (2480)

Almennar stjórnmálaumræður

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Gróði og aftur gróði. Þannig lýsti formaður Sjálfstfl., Jóhann Hafstein, stefnu flokksins í útvarpsumr. á föstudagskvöldið var. Þetta er raunar engin nýjung, enda þótt Sjálfstfl. hafi oft gert sér far um að dulbúa þessa stefnu sína og leyna henni, en það er gróðinn og aftur gróðinn, sem formaður Sjálfstfl. ber fyrir brjósti. þegar hann leggst gegn brottför hersins og fer þess á leit, að friðarhugtakið sé skilgreint að nýju. Með kaldastríðsáróðri reynir hann og aðrir sjálfstæðismenn að telja þjóðinni trú um, að hennar vegna sé þörf á her í landi, en sannleikurinn er sá, að máttarstoðir flokksins þurfa frið til að geta grætt meira og meira. Síðast í gær var í Morgunblaðinu skýrt frá slíkri gróðavon. Margumrædd flugbrautarlenging í Keflavík er að hefjast, en verkið er ekki boðið út. Íslenzkir aðalverktakar, sem í skjóli Sjálfstfl. hafa öðlazt einokunaraðstöðu á Keflavíkurflugvelli, semja við herinn um greiðslu. Kostnaður er áætlaður 200–300 millj. kr. Gjafafé Bandaríkjastjórnar til verksins nemur hins vegar 507 millj. kr. Þannig skammta fjármálabraskarar Sjálfstfl. sér sjálfir gróðann. Það eru hagsmunir þessara manna, sem stjórnmálaforusta Sjálfstfl. ber fyrir brjósti. Í krafti fjármálagróða, sem einokunaraðstaðan á Keflavíkurflugvelli hefur fært, hafa Íslenzkir aðalverktakar getað beitt sams konar einokunaraðstöðu við framkvæmdir í þágu Íslendinga. Þeir lánuðu á sínum tíma ríkisstj. fé til að leggja veg fyrir ofan Elliðaár með því skilyrði, að verkið yrði ekki boðið út, en að þeir fengju að vinna það eftir reikningi. Ríkisstj. þáv. lagði blessun sína á slíkt einokunarvald fjármagnsins og síðar sannaðist, að reikningurinn hljóðaði upp á tugi millj. umfram eðlilegan kostnað. Almenningur borgar gróðann og aftur gróðann með skattpeningum sínum og það er verðugt umhugsunarefni fyrir almenning, hvernig fjármálaeinokun hermangara brýtur niður lýðræðisleg samskipti á vinnumarkaði og kemur í veg fyrir, að verk sé unnið á hagkvæmastan og ódýrastan hátt.

Gróði og aftur gróði gerir það að verkum, að Sjálfstfl. er orðinn ófær um að taka sjálfstæða afstöðu til heimsmála. Fyrir nokkrum dögum bar á góma hér á hæstv. Alþ. síðustu viðburði í Víetnam. Viðburði, sem geta haft alvarlegustu afleiðingar og stjórnmálamenn í Bandaríkjunum og í Evrópu hafa mótmælt. Utanrrh. lýsti því í þessum umr., að hann hefði fyrir hönd ríkisstj. mótmælt þessari þróun mála í Víetnam, og það var enn einn vottur þess, hversu núv. ríkisstj. tekur afstöðu í utanríkismálum óháða Bandaríkjunum. Stjórnmálaflokkar telja það skyldu sína að taka afstöðu til mála, sem geta skipt sköpum fyrir hag og velferð þjóða, en þegar Jóhann Hafstein, formaður Sjálfstfl., kvaddi sér hljóðs í þessum umr., hafði hann enga skoðun á málinu. Eina erindi hans í ræðustól var að fara með glaðklakkalegt spott og spé í garð þeirra, sem dirfðust að færa þetta mál í tal. Belgingur var eina framlag Sjálfstfl. í þessum umr. Hefði Jóhann Hafstein verið stunginn prjóni á þessari stundu hefði mikið loft streymt út í þingsalinn.

Gróði og aftur gróði. Jafnvel lýðræðið láta sjálfstæðismenn falt, þegar hernámsgróðinn er annars vegar. Snemma á þessu þingi lögðu þeir fram till. um stofnun nefndar til að starfa með utanrrh. að endurskoðun varnarsamningsins svonefnda milli Íslands og Bandaríkjanna. Þingflokkar skyldu tilnefna í nefndina, en einn þó útilokaður, Alþb., vegna skoðana flokksins á aðild Íslands að NATO. Hér var um að ræða ódulbúna tilraun til að meina stjórnmálaflokki áhrif og afskipti af stjórnmálalegri ákvörðunartöku á grundvelli stjórnmálaskoðunar einnar saman. Ákveðin skoðun var bannfærð sem slík, en það telja allir sannir lýðræðissinnar hættulegra tilræði við lýðræði en nokkuð annað. Ef við eigum að geta varðveitt lýðræði og skoðanafrelsi í þessu landi, verðum við að standa á verði gegn öllum tilraunum Sjálfstfl. í þessa átt. Eftir aðeins 10 mánuði í stjórnarandstöðu standa nú sjálfstæðismenn berskjaldaðir — þegar rökin bregðast þeim sjálfum, leggja þeir til, að aðrir þagni.

Eitt tækið er enn í höndum fámennrar klíku innan Sjálfstfl., höfuðborgin sjálf. Við heyrðum tóninn í Geir Hallgrímssyni hér áðan. Með aðgerðum ríkisstj. er Reykjavík skilin eftir á flæðiskeri, sagði hann. Hann var ekki mannborulegur, borgarstjórinn, þegar hann var að telja upp allar þær álögur, sem hann er nú að leggja á Reykvíkinga. Útsvar verður innheimt með álagi, fasteignaskattur á húsum verður innheimtur með álagi, jafnframt því sem hann hefur sótt manna fastast að fá að hækka verðlag á allri þjónustu við borgarbúa. Þannig notar Geir Hallgrímsson borgarstjórastöðu sína í þágu sinnar eigin stjórnmálabaráttu, því að allar hækkanir Geirs borgarstjóra eru gerðar í þeim eina tilgangi að magna verðbólgu og auka þenslu, í því skyni að koma ríkisstj. á kné í efnahagsmálum. Þess munu fá eða engin dæmi, að borgarstjórn hafi hækkað framkvæmdafé um 98% á einu ári. Þetta er gert eingöngu til þess að réttlæta auknar álögur á borgarbúa. Reykvíkingar eru á þennan hátt neyddir til að greiða í kosningasjóð íhaldsins. Næsta skref í stórsókn vinstri manna í Reykjavík verður að varpa af sér því oki að vera tæki í valdabaráttu Sjálfstfl. Geir Hallgrímsson mun áreiðanlega geta komið sér fyrir annars staðar en á þessu flæðiskeri, Reykjavík.

Það er líklega aðför að Reykjavík, að dómi borgarstjóra, að ríkisstj. skuli nú eftir langa baráttu af hálfu vinstri manna ákveða hlutdeild ríkisins í byggingu og rekstri dagheimila, en fyrir Alþ. liggur nú stjfrv. þess efnis. Þar er gert ráð fyrir, að ríkissjóður leggi til helming af stofnkostnaði dagheimila og allt að 30% af rekstrarkostnaði. Með þessu myndarlega átaki er íslenzka ríkið komið í hóp þeirra Norðurlandaþjóða, sem fremstar standa í þessum efnum. Hér er um að ræða eitt þeirra fyrirheita, sem stjórnarflokkarnir lofuðu í málefnasamningi sínum, og enda þótt frv. verði ekki samþ. sem lög fyrr en í haust, þá verður unnt að taka tillit til þessara útgjalda við gerð fjárlagafrv. fyrir næsta ár.

Ríkisstj. gaf líka fyrirheit um að tryggja í framkvæmd fullt jafnrétti landsmanna án tillits til kynferðis, stéttar eða búsetu. Nýjustu lagabreytingar í tryggingalöggjöfinni miðuðu m. a. að því að uppræta misrétti kynjanna. Frv. um jafnlaunaráð, sem nú liggur fyrir Ed. til afgreiðslu, er mikilvægur liður í þá átt að tryggja konum í launþegastétt fullt jafnrétti á vinnustað. Þessi barátta kvenna er bæði mannréttindabarátta og verkalýðsbarátta. Stjórn, sem kennir sig við launafólk í landinu, getur ekki látið það afskiptalaust, að atvinnurekendur notfæri sér ódýran vinnukraft kvenna í skjóli ýmissa fordóma, sem samfélagið í heild er haldið af. Barátta kvenna til jafnréttis er mannréttindabarátta. Þetta skildi Alþfl. og bar gæfu til að fylgja frv. um jafnlaunaráð í þeirri mynd, sem líklegust er til að tryggja áhrifamátt þess í þeim verkefnum, sem því er ætlað að vinna, en Sjálfstfl. skildi líka og hefur beitt sér fyrir því að tefja málið og spilla því, með Ragnhildi Helgadóttur í fararbroddi, og þar skorti ekki liðsinni unga mannsins í þingflokki Sjálfstfl., sem talaði hér á undan mér um nýtt gildismat í þjóðfélaginu. Í augum sjálfstæðismanna er frelsi atvinnurekenda til að beita misrétti friðhelgara en jafnrétti til handa konum.

Gróði og aftur gróði, sagði Jóhann Hafstein. Þar fylgdi hugur máli, án efa, enda hefur öll stjórnarandstaða Sjálfstfl. borið þess vott, þar sem þeir hafa á annað borð reynt að beita sér. En vinstri stjórnin metur meira, að þjóðin fái að búa ein og frjáls í landi sínu. Hún tekur hagsmuni alls þorra Reykvíkinga fram yfir gróða og völd fámennrar sérhagsmunaklíku og hún mun halda áfram að vinna að félagslegum umbótum og jafnrétti allra landsmanna.

Gróði Sjálfstfl. er tap þjóðarinnar. — Góða nótt.