15.11.1971
Neðri deild: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2356 í B-deild Alþingistíðinda. (2521)

Launa og kaupgjaldsmál

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það var ekki ég, sem hóf umr. hér um kjarasamninga eða kjarasamningamál almennt, heldur er það, sem ég sagði um það efni, sagt af gefnu tilefni samkv. fsp. Ég hélt mig í minni aths. algerlega við það efni, sem um var að tefla og ég vildi vekja athygli þingheims á. Það er misskilningur hjá hv. 5. þm. Norðurl. e., að einhver leynd sé yfir þessum málum eða skýrslum um stöðu atvinnuveganna, sem aðilar vinnumarkaðarins hafi ekki fengið að sjá. Ég veit ekki, hvaðan honum kemur slík vitneskja. En ég get upplýst hann um, að það er rangt. Hún er röng, hugmynd hans um það efni. (Gripið fram í.) Ég gaf yfirlýsingu um það áðan, að þess mundi verða að vænta algerlega á næstunni, að það kæmi á daginn, hvað yrði gert í þeim efnum.

Viðvíkjandi því, sem hv. 3. þm. Sunnl. minntist á, þá segi ég aftur, að auðvitað er vinnutímastyttingin visst hagræði og kjarabót. Ég vil ekki nefna neinar tölur í því sambandi, enda skiptir það í sjálfu sér ekki höfuðmáli, hvað ríkisstj. metur það mikla kjarabót. Það, sem öllu máli skiptir, er, hvernig samningsaðilarnir líta á það og meta. Það er það, sem er höfuðatriðið, en ekki hitt, hvernig stjórnin metur það, og ég undirstrika það, svo að ég vitni enn í málefnasamninginn, að þar er tekið skýrt fram, að til viðbótar vinnutímastyttingunni er talað um 20% kaupmáttaraukningu, þannig að þessi vinnutímastytting kemur ekki inn í þessa spurningu um 20% kaupmáttaraukningu eða 20% kauphækkun.